„Það er eins og þjóðarskútan sé stjórnlaus,” skrifar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins í pistli á Evrópuvaktinni og bætir við að brúin sé tóm.

Í stuttum en harðorðum pistli segir Styrmir að enginn viti hver stefni og það sem verra sé:

„Engir af kjörnum fulltrúum þjóðarinnar virðast hafa hugmyndir um hvert eigi að stefna.

Það á ekkert síður við um stjórnarandstöðu en stjórnarliðið.

Ekkert er rætt um meginmál þjóðarinnar.

Enginn ræðir um aðildarumsóknina.

Enginn ræðir um kröfuhafana í þrotabú bankanna.

Kjarasamningar stefna í botnlaust fen.

Efnahagur helztu nágranna- og viðskiptaþjóða er í kreppu. Það þýðir að bakslag getur verið yfirvofandi í efnahagsmálum Íslendinga.”

Styrmir lýkur pistlinum með því að spyrja:

„Til hversu eru menn að bjóða sig fram til þjónustu í þágu þjóðarinnar ef þeir sýna svo enga tilburði til að veita þá þjónustu?”