Rekstur ríkisins og kostnaður vegna skulda nam alls 2.911 þúsund milljónum króna á fimm árum – frá 2009 til 2013 – eða að meðaltali 48,5 þúsund milljónum í hverjum mánuði. Þetta þýðir að frá falli fjármálakerfisins hafa útgjöld ríkissjóðs jafngilt 35,7 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu.Hvað kostar ríkið

Þegar rýnt er í ríkisreikninga síðustu ára verður með engu móti hægt að halda því fram að forgangsröðun hafi ráðið för þegar útgjöld (fjárlög) ríkisins hafa verið ákveðin á hverju ári. Á sama tíma og vegakerfið – lífæð atvinnu- og mannlífs um land allt – molnar niður í bókstaflegri merkingu hafa milljarðar runnið úr ríkissjóði í pólitísk gæluverkefni. Um leið og stjórnmálamenn tóku ákvörðun um að skera niður í heilbrigðiskerfinu var haldið áfram með ríkisrekið velferðarkerfi valinna atvinnugreina. Það er nöturlegt að hugsa til þess að frá hruni hefur velferðarkerfi hinna fullfrísku verið varið betur en heilbrigðisþjónustan og samhjálpin við þá sem þurfa á raunverulegum stuðningi að halda. Og ríkisrekstur stjórnmálaflokkanna lifir góðu lífi.

„Blóðpeningar“

Það er kaldhæðnisleg staðreynd að liðlega ein króna af hverjum tíu sem renna úr ríkissjóði skuli fara í að standa undir fjármagnskostnaði. Á umræddum fimm árum hefur ríkissjóður greitt alls 368 þúsund milljónir króna í vexti en fyrir þá fjárhæð væri hægt að reka Landspítalann í níu ár. Fjármagnskostnaður ríkisins hefði dugað til að byggja fjóra nýja Landspítala og endurnýja húsnæði og tæki.

Að meðaltali greiddu íslenskir skattgreiðendur liðlega sex þúsund milljónir króna í vexti í hverjum einasta mánuði. Hægt er að reka Sjúkrahúsið á Akureyri í heilt ár og þremur mánuðum betur fyrir svipaða fjárhæð. Mánaðarlegur fjármagnskostnaður er svipuð fjárhæð og ríkissjóður lagði samtals á síðasta ári til Menntaskólans í Reykjavík, Menntaskólans á Akureyri, Menntaskólans að Laugarvatni, Menntaskólans við Hamrahlíð, Menntaskólans við Sund, Menntaskólans á Ísafirði, Menntaskólans á Egilsstöðum, Menntaskólans í Kópavogi, Kvennaskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri.

Við getum sett „blóðpeningana“ í annað samhengi:

Frá 2009 til 2013 nam fjármagnskostnaður ríkisins liðlega 4,5 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Ríkissjóður hefur þurft að leggja „blóðskatta“ á einstaklinga og fyrirtæki til að standa undir kostnaði vegna skulda sem jafngildir liðlega 75 þúsund krónum í mánuði á hverja fjölskyldu, eða um 904 þúsund krónum á ári.

Að óbreyttu verður „blóðskatturinn“ innheimtur á komandi árum í formi hærri skatta og lakari þjónustu og innviða. Kostnaður vegna gríðarlegra skulda ríkisins er því þungur baggi.

Villigötur fjárlaga

Í október síðastliðnum hélt ég því fram á þessum stað að við hefðum ratað á villigötur þegar teknar væru ákvarðanir um ráðstöfun opinberra fjármuna. Samkvæmt fjárlögum ársins 2013 samþykkti Alþingi að setja nær 136 þúsund milljónir króna í annað en það sem telst frumskylda ríkisins og voru vaxtagreiðslur þá ótaldar. Á sama tíma var skorið niður í heilbrigðismálum, löggæslu og samgöngumálum, þjónusta við eldri borgara var látin sitja á hakanum og menntakerfið var skorið inn að beini. Í stað þess að aðstoða þá sem standa verst að vígi við að lifa mannsæmandi lífi var annað sett í forgang.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks rétti kúrsinn nokkuð af við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár, en það er mikið verk óunnið. Enn fara tæplega fjórar krónur af hverjum tíu úr ríkiskassanum í annað en það sem skiptir mestu og enn er sóun innan stjórnkerfisins, sem er of stórt og óhagkvæmt.

Markmið um hallalaus fjárlög er gott en nægir ekki eitt og sér til þess að lækka fjármagnskostnað ríkisins annars vegar og tryggja hins vegar raunverulega forgangsröðun útgjalda. Það þarf að gjörbreyta vinnubrögðum við fjárlagagerðina, sem á fyrst og fremst að taka mið af grunnskyldum ríkisins og hefja umfangsmikla sölu ríkiseigna.

Í viðtali við Morgunblaðið síðastliðinn laugardag hélt Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, því fram að yfirsýnin við fjárlagavinnuna væri ekki nógu góð. „Ég fullyrði að menn eru almennt ekki meðvitaðir um þróunina í ríkisfjármálum,“ fullyrti þingmaðurinn. Undir þessi orð skal tekið.

Tvær flugur

Í samantekt Guðlaugs Þórs um þróun ríkisútgjalda frá 2007 til 2012 kemur vel fram hve mjög hallaði á heilbrigðisþjónustuna. Upplýsingar um liðlega sjö þúsund milljóna króna útgjöld til rannsóknanefnda Alþingis, umboðsmanns skuldara, stjórnlagaráðs, þjóðfundar, landsdóms og ESB-umsóknar frá hruni bankakerfisins sýnir betur en flest annað hve forgangurinn er orðinn brenglaður.

Þingmenn gætu slegið tvær flugur í einu höggi þegar þing kemur saman í september. Þeir gætu tekið lítið skref í átt að því að draga úr ríkisumsvifum og um leið forgangsraðað af skynsemi. Þeir gætu afnumið lög um fjármál stjórnmálasamtaka – hætt ríkisrekstri stjórnmálaflokkanna. Einhverjir gætu haldið fram að það væri táknrænt að „einkavæða“ pólitíska starfsemi enda samrýmist ríkisrekstur stjórnmálanna illa hugmyndum um opið og frjálst þjóðfélag.