Dólgafemínistar hafa komið sér í hlutverk geltandi varðhunda og draga hvergi af sér við að þefa uppi ósómann sem leynist víst svo víða. Þeir láta vel í sér heyra ef þeim mislíkar, sem er oft, og þar sem þeir telja sig vera með galopin augun (þótt víðsýni sé þeim víðsfjarri) hafa þeir víða viðkomu. Allt skal ríma við hina heilögu kennisetningu. Fletti þetta fólk fallegri útgáfu á ævintýrabók þarf ekki annað en að prins bjargi prinsessu til að það komist í mikið tilfinningauppnám. Það sama gerist ef það les skáldsögu þar sem svo hagar til á einhverjum stöðum að konan er í eldhúsinu meðan karlinn er í vinnunni. Eitthvert rót hlýtur svo að skapast í hugum þessa fólks horfi það á Skassið tamið eftir Shakespeare – það leikrit er örugglega martröð dólgafemínista.

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar pistil í Morgunblaðið 7. ágúst 2014