Leiðarahöfundur Morgunblaðsins heldur því fram að svigrúm sé til skattalækkana og það svigrúm eigi að nýta. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við blaðið að vegna minna atvinnuleysis verði tilefni til meiri lækkunar tryggingagjalds en þegar hefur verið ákveði .

Í leiðara Morgunblaðsins segir:

„Verði atvinnuleysi minna en áður var talið verður vissulega svigrúm til frekari lækkunar, en samhengi hlutanna er líka í hina áttina þannig að með frekari lækkun eru líkur á minna atvinnuleysi. Tryggingagjaldið hækkar kostnað fyrirtækja við að hafa fólk í vinnu og þar með dregur það úr mannaráðningum og ýtir að öðru óbreyttu undir atvinnuleysi. Þetta þekkja allir sem reka fyrirtæki og þurfa að velta fyrir sér kostnaði við að ráða nýja starfsmenn. Og þeir sem muna skattahækkanir vinstri stjórnarinnar og þær vangaveltur innan fyrirtækja sem þeim fylgdu og leiddu iðulega til samdráttar í mannahaldi skilja þetta samhengi afar vel.

Atvinnulífið og heimilin í landinu þurfa á því að halda að áfram verði undið ofan af skattahækkunum fyrri ríkisstjórnar og að þau óþurftarverk verði afmáð á þessu kjörtímabili. Formaður fjárlaganefndar, sem fengið hefur kynningu á fjárlagafrumvarpinu, segir ýmislegt þar sem eigi eftir að „koma skemmtilega á óvart“. Vonandi verða þeir óvæntu gleðigjafar ekki aðeins í formi nauðsynlegs aðhalds heldur einnig skattalækkana.”