Óli Björn Kárason

Eitt stærsta hagsmunamál okkar Íslendinga er afnám gjaldeyrishafta, eða fjármagnshafta eins og líklega er réttast að kalla núverandi ástand. Í upphafi var gert ráð fyrir að höftin yrðu tímabundin – í nokkra mánuði og í lengsta lagi misseri. Tæpum sex árum eftir að höftin voru sett á vinnur Seðlabankinn að því að herða framkvæmd þeirra.

Sú hætta er raunveruleg að höftin festist í sessi – að fyrir okkur fari líkt og hestinum sem verið hefur í hafti. „Eftir að hnappheldan hefur verið af honum leyst heldur hann áfram að hoppa eins og engin breyting hafi á orðið, hann heldur, að hann komist ekki áfram með öðru móti,“ sagði Bjarni Benediktsson í ræðu á frídegi verslunarmanna árið 1949 og bætti við:

„Við verðum að gæta þess, að það hugarfar skapist ekki, að ómögulegt sé að vera án haftanna, að allt hljóti um koll að keyra, ef höftin eru leyst eða verulega á þeim linað.“

Spurning um trúverðugleika

Ein forsenda þess að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin á komandi mánuðum er að traust ríki á störf og stefnu Seðlabankans. Þetta er spurning um trúverðugleika í stjórnsýslu og peningastefnu bankans.

Það verður illa hægt að halda því fram að stjórnendur seðlabankans hafi verið samkvæmir sjálfum sér frá því að ný lög tóku gildi um bankann árið 2009. Þeir tóku fullan þátt í baráttunni fyrir því að íslenskir skattgreiðendur tækju að sér að greiða ólögvarðar kröfur Breta og Hollendinga. Seðlabankastjóri hélt því fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði ekki afgreitt endurskoðaða efnahagsáætlun vegna Icesave-deilunnar og því ættu þeir sem um það „véla“ [þingmenn] „að hugsa sig um tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum, þegar þeir taka ákvörðun um framhald þess máls“. Í þokkabót leyfði bankinn sér að halda því fram að lánshæfisfyrirtæki myndu lækka lánshæfi Íslands ef ekki yrði gengið að kröfum Breta og Hollendinga.

Seðlabankinn taldi að Icesave-skuldbindingin gæti verið um 340 milljarðar, eða 17% af landsframleiðslu. Í umsögn til fjárlaganefndar um fyrsta Icesave-samninginn var tekið skýrt til orða: „Þjóðarbúið verður fyllilega fært um að standa undir Icesave-samningunum.“

Árið 2013 var annað hljóð í seðlabankastjóra, sem sagði í formálsorðum í skýrslu um fjármálastöðugleika að „miðað við óbreytt gengi nægir fyrirsjáanlegur undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára ekki til að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána“.

Yfirvöld peningamála sem segja eitt í dag og annað á morgun eru ekki líkleg til að ávinna sér traust eða tryggja stöðugleika.

Í þágu erlendra kröfuhafa

Samkvæmni í vaxtastefnu virðist ekki vera fyrir hendi. Þegar ríkissjóður er rekinn með halla reynir á aðhaldssemi í peningamálum, að öðru óbreyttu. Frá júlí 2011 til maí 2012 voru lausatök í peningamálum á sama tíma og vinstristjórnin hafði engin tök á fjármálum ríkisins. Á tveimur árum var ríkissjóður rekinn með yfir 150 milljarða króna halla en engu að síður voru stýrivextir neikvæðir. Litlu skipti þótt innistæðulitlir kjarasamningar hefðu verið gerðir vorið 2011, sem höfðu neikvæð áhrif á verðlag.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur náð tökum á ríkisfjármálum og afgangur verður á ríkissjóði – líklega töluvert meiri á þessu ári en gengið var út frá í fjárlögum. Kjarasamningar hafa að mestu verið hófsamir. Verðbólga hefur ekki verið lægri í mörg ár og þær verðlagsbreytingar sem hafa orðið eru annars vegar kostnaðardrifnar og hins vegar vegna eignabólgu sem er að myndast vegna fjármagnshafta.

Við þessar ástæður telur Seðlabankinn rétt að auka aðhaldið og halda raunstýrivöxtum háum og síhækkandi. Sérstakur vaxtaskattur er þannig lagður á fyrirtæki og heimili. Stór hluti hávaxtaskattsins rennur í vasa erlendra kröfuhafa og krónueigenda. Sá er þetta skrifar hefur haldið því fram að með stefnu sinni sé bankinn því fremur að viðhalda höftum en að tryggja verðstöðugleika.

Höftin helsta verkefnið

Engu er líkara en að helsta verkefni Seðlabankans sé að framfylgja höftum í stað þess að vinna að því að afnema þau. Í september 2009 var komið á fót sérstakri deild innan bankans – gjaldeyriseftirliti – og árið eftir var henni skipt í þrjár undirdeildir; undanþágudeild, eftirlitsdeild og rannsóknardeild.

Samkvæmt ársskýrslu Seðlabankans voru 142 ný mál skráð hjá rannsóknardeildinni á liðnu ári vegna meintra brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Rannsóknardeildin lauk rannsókn á 85 málum og þar af voru 67 kærð til lögreglu. Á liðnu ári bárust Seðlabankanum 883 umsóknir um undanþágu frá höftum, eða að meðaltali tæplega 17 í hverri viku.

Framkvæmd fjármagnshafta er kapítuli út af fyrir sig

Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja hefur verið stórkostlega skekkt með því að veita erlendum aðilum (og íslenskum sem eiga erlent fé) sérstakan 20% afslátt af íslenskum krónum.

Útflutningsfyrirtæki eru undir sérstöku eftirliti og þar virðist reglan ekki sú að leiðbeina í gegnum frumskóg hafta heldur að hanka fyrirtæki og einstaklinga fyrir minnstu mistök. Nú er svo komið að margir framtaksmenn þora sig vart að hreyfa – hnapphelduhugfar Seðlabankans er farið að hafa áhrif á störf og stefnu atvinnulífsins með ómældum kostnaði. Málatilbúnaði bankans virðist hins vegar í mörgu ábótavant og saksóknari hefur vísað mörgum málum frá og dómstólar einnig.

Engu er líkara en að geðþótti ráði för við framkvæmd gjaldeyrishafta, eins og kom í ljós þegar Seðlabankinn tilkynnti að Íslendingum væri óheimilt að greiða iðgjöld til erlendra tryggingafélaga. Seðlabankinn telur að hluti þessara viðskipta hafi brotið í bága við gjaldeyrislög allt frá því að gjaldeyrishöftin voru innleidd. Í liðlega fimm ár hefur bankinn ekkert aðhafst – látið meint brot á lögum átölulaust. Þúsundir einstaklinga hafa því í góðri trú safnað réttindum á undanförnum árum – réttindum sem Seðlabankinn stefnir í hættu.

Stjórnsýsla bankans ber yfirbragð handahófs þótt líklega verði önnur orð notuð til að lýsa því hvernig staðið var að sölu meirihluta hlutafjár í Sjóvá árið 2011. Eignasafn bankans eignaðist tryggingafélagið eftir nokkrar fjármálalegar fléttur. Bæði fyrir og eftir söluna kom fram hörð gagnrýni á hvernig staðið var að verki og hefur bankanum verið stefnt til greiðslu skaðabóta.

Vegna gagnrýninnar greip Seðlabankinn til þess ráðs að fara í talnaleiki þar sem dregnar voru fram villandi upplýsingar. Allt gert til að fela mikið tap bankans.

Stjórnvald sem telur nauðsynlegt að blekkja almenning getur vart gert kröfu til þess að því verði treyst í framtíðinni.

Auglýsing dregin til baka

Í nær sex ár, þar af tæp fimm ár með núverandi yfirstjórn, hefur Seðlabankinn unnið – a.m.k. í orði – að afnámi hafta. Hvorki hefur gengið né rekið. Þumalskrúfurnar eru hertar enn frekar. Það er því skynsamleg ákvörðun hjá fjármálaráðherra að ráða erlenda sérfræðinga til að aðstoða við að losa um höftin. Með hliðsjón af þessu og einnig hinu að unnið er að endurskoðun laga um Seðlabankann mælir flest með því að auglýsing um embætti seðlabankastjóra verði dregin til baka. Þess í stað verði settur hæfur einstaklingur (íslenskur ríkisborgari í samræmi við ákvæði stjórnarskrár) til að sinna stöðunni tímabundið þar sem stærsta verkefnið er afnám fjármagnshafta.

Þegar Alþingi hefur afgreitt ný lög um bankann er hægt að auglýsa stöðu seðlabankastjóra – eins eða fleiri – til fimm ára.

Það eru meiri líkur á að árangur náist í einu stærsta hagsmunamáli Íslendinga verði þessi háttur hafður á í stað þess að skipa seðlabankastjóra til fimm ára á sama tíma og lögum er breytt. Og við getum brotist fyrr en ella út úr þeim hnappheldusjónarmiðum Seðlabankans sem eru að eitra efnahagslífið og lama framkvæmdaþrek einstaklinga.