Það er hægt að lýsa fyrrverandi meirihluta borgarstjórnar, undir forystu Dags B. Eggertssonar og Jóns Gnarr, með ýmsum hætti. En snyrtimennska, samráð og gagnsæi verða lítið eða ekki notuð þegar sagan verður skrifuð. Reykjavík varð ósnyrtileg borg, – borg hirðuleysis þar sem njólar tóku völdin og veggjakrot skreytti hverfin, allt frá miðborginni til úthverfa. Reykjavík varð borg þar sem foreldrar voru hundsaðir og samráð fólst í því að kjörnir fulltrúar kvörtuðu yfir einelti íbúa á fundum. Reykjavík varð borg leyndarhyggju með fögrum fyrirheitum um gagnsæi.

Leyndarhyggja Dags B. Eggertssonar og Jóns Gnarr birtist m.a. í því að neita að birta niðurstöðu PISA-könnunar þannig að hægt væri að sjá árangur grunnskóla borgarinnar og bera þá saman. Hilmar Þorsteinsson kærði þessa ákvörðun og nú hefur Úrskurðarnefnd um upplýsingamál krafið borgina um að afhenda Hilmari upplýsingarnar.

Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, fagnar niðurstöðu nefndarinnar í dagbókarfærslu um leið og hann lýsir undrun yfir því „embættismenn Reykjavíkurborgar hafa lagt að sér til að komast hjá því að afhenda gögnin sem hér um ræðir”:

„Með vísan til þeirra geta allir áhugamenn um bætt skólastarf, foreldrar og aðrir, fengið aðgang að upplýsingum sem gefa vísbendingar um gæði skólastarfs. Miðlun þessara upplýsinga er forsenda nauðsynlegs aðhalds að skólastarfi.”

Leyndarhyggjan náði ekki aðeins til grunnskóla borgarinnar heldur ekki síður til fjármála. Í október 2012 lagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fram tillögu í borgarstjórn um að borgin opnaði bókhaldið. Eins og bent var á í pistli var tillagan var samþykkt með stuðningi meirihlutans en það reyndist aðeins vera leikaraskapur (hefði ekki átt að koma á óvart). Ákveðið að skipa starfshóp sem fengi það verkefni að leggja fram tillögur um hvernig best væri að standa að verki. Starfshópurinn var aldrei skipaður en þess í stað voru nokkrir embættismenn borgarinnar settir í að „ræða málin” nokkrum dögum áður en tillögurnar áttu að liggja fyrir:

„Meirihluti Besta flokks [Bjartrar framtíðar] og Samfylkingar hefur þannig sýnt að hann hefur ekki áhuga á gagnsæi í fjármálum borgarinnar – slíkur áhugi er aðeins í orði en ekki á borði. Opið bókhald hentar ekki meirihluta borgarstjórnar, allra síst í aðdraganda kosninga. Þetta er enn ein áminningin um nauðsyn þess að breyta upplýsingalögum með þeim hætti sem hér hefur verið skrifað um.”

Það verður því forvitnilegt að fylgjast með störfum meirihluta borgarstjórnar á kjörtímabilinu sem nú er rétt hafið. Dagur B. Eggertsson er enn í brúnni og sömu flokkar við völd með tvö varadekk. Annað varadekkið hefur a.m.k. í orði barist fyrir gagnsæi og opinni stjórnsýslu.