Óli Björn Kárason

Ef kjósendur standa í þeirri trú að valið sem þeir eiga í kjörklefanum sé lítið annað en val á milli mismunandi teknókrata, sem sumir eru huggulegri og skemmtilegri en aðrir, sjá þeir lítinn tilgang í að taka þátt í kosningunum. „Það er sami rassinn undir þeim öllum,“ er dómur sem er felldur yfir íslenskum stjórnmálaflokkum og frambjóðendum. „Sami grautur í mismunandi skálum.“

Kjósendur verða að hafa áhuga á kosningunum, eiga skýra valkosti og síðast en ekki síst verða þeir að vera sannfærðir um gildi kosninganna – að þær hafi einhverja raunverulega merkingu eða þýðingu fyrir hag þeirra.

Stjórnmálamenn, fjölmiðlungar og fræðimenn hafa keppst við að lýsa áhyggjum sínum yfir dræmri kosningaþátttöku í sveitarstjórnarkosningunum í lok maí. Þriðju kosningarnar í röð fækkaði þeim hlutfallslega sem neyttu kosningaréttarins. Aldrei hafa færri tekið þátt í sveitarstjórnarkosningum, aðeins rétt liðlega 66%. Sá tími virðist liðinn að yfir átta af hverjum tíu leggi leið sína á kjörstað.

Forðast hugsjónir

Sitt sýnist hverjum um ástæður þess að þátttaka í kosningum hefur minnkað stöðugt á undanförnum árum. Fáir beina hins vegar athyglinni að þeirri staðreynd að skipulega hefur verið grafið undan trúverðugleika stjórnmálanna – jafnt af stjórnmálamönnunum sjálfum sem og fjölmiðlum. Enn færri velta fyrir sér afleiðingum þess að hægt og bítandi hafa hugsjónir verið gerðar hornreka – hugmyndabarátta hefur orðið fórnarlamb teknókrata og samræðustjórnmála. Skilin milli stjórnmálaflokka eru að þurrkast út en innihaldslaust hjal og skemmtilegheit hafa tekið við.

Stjórnmál eru þannig hægt og bítandi hætt að snúast um pólitískar hugsjónir. Frambjóðendur forðast hugsjónir en bjóða þess í stað upp á „praktískar lausnir“, skemmtilegheit og samtal. Átök hugmynda eru af hinu vonda. Huggulegar samræður kjörinna fulltrúa hafa tekið við.

Á sama tíma og teknókratar hafa náð yfirhöndinni hefur pólitískur rétttrúnaður grafið um sig, ekki síst meðal fjölmiðlunga og álitsgjafa. Þannig eru þeir sem standa gegn aðild að Evrópusambandinu sagðir þröngsýnir og jafnvel öfgafullir einangrunarsinnar. Aðildarsinnar eru sagðir alþjóðlegir Evrópusinnar, víðsýnir og opnir fyrir straumum og stefnum. Stjórnmálamaður sem berst fyrir því að lækka opinberar álögur er krafinn svara við því hvernig hann ætli að fjármagna lægri skatta, hvar eigi að skera niður. Keppinautur sem boðar aukin útgjöld ríkis eða sveitarfélaga getur áhyggjulaus boðið kjósendum gull og græna skóga því fjölmiðlar hafa litlar áhyggjur af því hvernig fjármagna eigi slík loforð.

Hætta að nýta kosningaréttinn

Við fyrstu sýn virðist sem það sé þversögn að halda því fram að verið sé að má út skilin milli stjórnmálaflokka með því að gera hugsjónir að hornkerlingum og að pólitísk rétthugsun hafi náð að festa rætur. Ég fæ þó ekki séð annað en þetta séu greinar af sama meiði. Pólitísk rétthugsun miðar að því að koma í veg fyrir samkeppni hugmynda. Hugmyndabarátta og rétthugsun eiga aldrei samleið, en teknókratanum líður vel og blómstrar í umhverfi þar sem samkeppni hugmynda er takmörkuð.

Teknókratinn nálgast samfélagið eins og hvert annað verkfræðilegt verkefni. Vandamálin og verkefnin eru skilgreind og lausna leitað. Allt er skilgreint sem úrlausnarverkefni og nefndir og ráð taka við. Afleiðingin er sú að kjósendur hætta að skynja að nokkur munur sé á stjórnmálaflokkum eða einstökum frambjóðendum. Fyrir marga er það rökrétt niðurstaða að úrslit kosninga skipti litlu, þeir verða áhugalausir um stjórnmál og hætta að hafa fyrir því að nýta kosningaréttinn.

Ég hef haldið því fram að eitt stærsta verkefni Sjálfstæðisflokksins á komandi árum sé að segja teknókratismanum stríð á hendur. Setja baráttu hugmynda aftur í forgang, þar sem grunnurinn er sjálfstæði landsins, frjáls utanríkisviðskipti og frelsi einstaklinganna. Sjálfstæðismenn eiga að berjast fyrir opnu samfélagi og gegnsæi í allri opinberri stjórnsýslu. En fyrst og síðast verða þeir að líta á varðstöðu um réttindi einstaklinga sem dyggð sem sé til marks um skynsemi og sanngirni. Sú varðstaða verður ekki staðin með því að setja hugsjónir út í horn og eiga huggulegar samræður um tæknilegar útfærslur.

Með öðrum orðum: Sjálfstæðisflokkurinn á að gefa kjósendum skýran valkost þegar þeir ganga að kjörborði, hvort heldur er í alþingiskosningum eða í kosningum til sveitarstjórna.

Jarðvegur fyrir hugmyndir

Á ráðstefnu sem Samband ungra sjálfstæðismanna hélt í mars 2012 fullyrti ég að jarðvegur fyrir hugmyndir okkar hægrimanna væri frjór og að við gætum óhræddir gefið loforð sem byggð væru á grunnstefum sjálfstæðisstefnunnar:

„Við ætlum okkur að koma í veg fyrir að fáeinir útvaldir stundi viðskipti á kostnað samborgaranna. Við ætlum að koma í veg fyrir að sparifé almennings sé notað til að fjárfesta í stórfyrirtækjum sem stunda óeðlilega samkeppni við litla atvinnurekandann sem hefur lagt allt sitt undir í rekstrinum. Við ætlum að tryggja að félagar í lífeyrissjóðum ráði yfir sínum fjármunum sjálfir en ekki fáeinir útvaldir. Við ætlum að standa í vegi fyrir því að stjórnmálamenn reisi minnisvarða á kostnað skattgreiðenda, hvort heldur er á hafnarbakkanum í Reykjavík eða annars staðar. Við hægrimenn ætlum að berjast fyrir því að snjallir og útsjónarsamir viðskiptamenn fái að njóta ávaxtanna og við ætlum að draga krumlur ríkisins upp úr vösum launamanna og tryggja hófsemd í opinberum álögum.

Við eigum að blása ungu fólki bjartsýni í brjóst í stað þess að fylla það bölmóði og við eigum sameiginlega að vera stolt af því að vera Íslendingar. Með því að vera trúir grunnstefnum frelsis munum við aftur öðlast fyrri styrk og stuðla að því að hér byggist upp öflugt og þróttmikið atvinnulíf, fjölbreytt mannlíf, öflugt menntakerfi og velferðarkerfi sem verður talið til fyrirmyndar í öðrum löndum.“

Með því að tala skorinort og setja stefnumálin fram með afdráttarlausum hætti geta sjálfstæðismenn breytt íslenskum stjórnmálum. Pólitískir andstæðingar neyðast til andsvara. Teknókratar víkja fyrir samkeppni hugmynda. Og kjósendur sjá aftur tilgang í því að leggja leið sína á kjörstað.