Óli Björn Kárason

Úrslit sveitarstjórnarkosninganna á laugardaginn leiddu í ljós það sem flestir hafa vitað lengi: Ætli Sjálfstæðisflokkurinn að ná sínum fyrri styrk á landvísu verða flokksmenn að taka til hendinni í höfuðborginni og endurheimta pólitíska stöðu sína sem stærsti stjórnmálaflokkurinn.

Sjálfstæðisflokkurinn bauð fram í 34 sveitarfélögum en í einu þeirra (Vesturbyggð) var listi flokksins sjálfkjörinn. Fyrir utan Reykjavík voru kosningaúrslitin sjálfstæðismönnum yfirleitt hagstæð og sums staðar stórglæsileg. Í 17 sveitarfélögum jókst fylgið, mest í Grindavík (22%-stig), í Vestmannaeyjum (17,6%-stig), á Akranesi (16,1%-stig) og á Akureyri (12,5%-stig). Í 12 sveitarfélögum bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig 5%-stigum eða meira.

Í pólitík

Í Vestmannaeyjum vann Sjálfstæðisflokkurinn, undir forystu Elliða Vignissonar bæjarstjóra, ótrúlegan sigur. Yfir 73% stuðningur við stjórnmálaflokk í frjálsum kosningum er fáheyrður árangur sem seint verður endurtekinn.

Elliði er í pólitík, hefur verið óhræddur við að segja sína skoðun og oft lagt til atlögu við pólitískan rétttrúnað. Enginn Eyjamaður fer í grafgötur með fyrir hvað Elliði stendur – ekki frekar en aðrir landsmenn.

Sama á við um íbúa Garðabæjar og Seltjarnarness. Þeir vita eftir áratuga stjórn sjálfstæðismanna fyrir hvað bæjarfulltrúar flokksins standa; hófsamar álögur og góða þjónustu. Mosfellingar þekkja vel hvernig mikilli uppbyggingu þar sem íbúum hefur fjölgað um 43% á 12 árum hefur verið stýrt farsællega af tveimur bæjarstjórum Sjálfstæðisflokksins.

Í Árborg styrktu sjálfstæðismenn stöðu sína enda að baki hagfellt kjörtímabil fyrir íbúana; lægri skuldir, lægri álögur og styrk stjórn. Kópavogsbúar voru með það á hreinu fyrir hvað Sjálfstæðisflokkurinn stendur, eftir að flokkurinn tók að sér forystu í málefnum bæjarins á miðju kjörtímabili.

Langt undir meðalfylgi

Í höfuðborginni er þessu öfugt farið. Sjálfstæðismönnum hefur ekki tekist að ná eyrum borgarbúa í mörg ár. Þrátt fyrir frjóan jarðveg, eftir fjögurra ára vinstristjórn Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar, var niðurstaða kosninganna á laugardaginn sú versta í sögu flokksins. Frá 1930 hefur meðalfylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verið um 48%. Á laugardaginn fékk flokkurinn aðeins tæp 26%. Sjálfstæðismenn hafa verið undir meðalfylgi sínu í öllum borgarstjórnarkosningum frá árinu 1994.

Í grein undirritaðs sem birtist hér í Morgunblaðinu 5. febrúar síðastliðinn var því haldið fram að borgarbúar ættu erfitt með að átta sig á því fyrir hvað sjálfstæðismenn í Reykjavík stæðu:

„Eru þeir hlynntir eða andvígir flugvellinum? Eru sjálfstæðismenn fylgjandi þeirri áherslu að þétta byggðina á kostnað úthverfa og þjónustu við þau? Eru þeir talsmenn þess að þrengja að einkabílnum, gera samgöngur milli borgarhverfa erfiðari og tímafrekari? Hvernig ætla sjálfstæðismenn að styrkja grunnskólana? Vilja þeir óbreyttar álögur á íbúa og hámarksútsvar? Þannig má lengi telja.

Á undanförnum árum hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gefið kjósendum misvísandi skilaboð. Engu er líkara en að frambjóðendur flokksins í komandi kosningum ætli að halda því áfram. Borgarstjórnarflokkur og frambjóðendur sjálfstæðismanna hafa ekki komið fram sem ein heild – samhentur hópur með sömu sýn á framtíðina. Afleiðingin er sú að kjósendur eru ringlaðir.

Ætli Sjálfstæðisflokkurinn að ná árangri í borgarstjórnarkosningunum í vor verður stefnan að vera skýr. Og fyrirmyndirnar eru allt í kringum Reykjavík.“

Sterk staða

Sjálfstæðisflokkurinn stendur sterkt í nær öllum þeim sveitarfélögum sem hann bauð fram í, utan Reykjavíkur. Fylgi flokksins síðasta laugardag er 39,4% utan höfuðborgarinnar sem er töluvert meira en í kosningunum 2010. Sé Reykjavík tekin með í dæmið blasir nokkuð önnur mynd við. Fylgið er rétt liðlega 34% og minnkaði á milli kosninga.

Það þarf engan sérfræðing í tölfræði til að átta sig á því að aukinn pólitískur styrkur Sjálfstæðisflokksins felst fyrst og síðast í að styrkja stöðuna í höfuðborginni þar sem liðlega 37% landsmanna búa. Takist það ekki er nær útilokað að sjálfstæðismenn nái að endurheimta stöðu sína á landvísu með 35-40% fylgi.

Endurreisn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er ekki eins manns verkefni heldur krefst hún sameiginlegs átaks margra. Borgarfulltrúar flokksins gegna þar lykilhlutverki ásamt þingmönnum flokksins, en ekki síður trúnaðarmönnum og almennum stuðningsmönnum um alla borg.

Augljóst er að allir þessir aðilar þurfa að endurskoða hvernig staðið er að verki. Trúnaðarmenn flokksins verða að leita nýrra leiða í innra starfi og tryggja aðkomu almennra flokksmanna og áhrif þeirra. Þingmenn þurfa að leggja aukna rækt við borgarbúa og borgarfulltrúar verða að stíga í takt hver við annan um leið og þeir berjast fyrir hugsjónum sjálfstæðisstefnunnar – stunda pólitík og veita aðhald með harðri en málefnalegri stjórnarandstöðu við meirihluta vinstrimanna í borgarstjórn.

Valfrelsi borgaranna

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eiga að taka stöðu með valfrelsi borgarbúa og berjast fyrir lægri álögum. Þeir eiga að leggja áherslu á raunverulegt val í samgöngum, í búsetu og skólum. Þeir eiga að draga fram árangur sjálfstæðismanna í nágrannasveitarfélögunum þar sem tekist hefur að samþætt öfluga þjónustu, hófsamar álögur og lágar skuldir. Þeir verða að berjast fyrir hagsmunum sjálfstæðra atvinnurekenda sem hafa átt undir högg að sækja síðustu fjögur ár. Borgarfulltrúar sjálfstæðismanna eiga að leggja áherslu á opið bókhald borgarinnar og að óskir íbúanna séu virtar í skipulagsmálum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins verða á komandi árum að draga skýr mörk á milli sín og vinstrimanna í borgarstjórn. Þannig geta þeir sannfært borgarbúa um að Sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir aukið valfrelsi íbúanna á öllum sviðum á sama tíma og vinstrimenn vilja fækka þeim kostum sem í boði eru.

Reykjavíkurverkefni Sjálfstæðisflokksins hófst þegar niðurstaða í kosningum varð ljós að morgni sunnudags. Og verkefnið er óvenju skýrt og fyrirmyndirnar eru út um allt land; frá Kraganum til Eyja, frá Árborg til Akraness og Bolungarvíkur.