Óli Björn Kárason

Ef enginn veitir viðnám má ganga að því vísu að hið opinbera gangi á lagið og seilist dýpra í vasa landsmanna. Þetta á jafnt við um ríki sem sveitarfélög. Á laugardaginn gefst kjósendum tækifæri til að spyrna við fótum þegar gengið er að kjörborði í sveitarstjórnarkosningum.

Rekstur, þjónusta og umsvif sveitarfélaga hafa aukist verulega á undanförnum áratugum og hvernig til tekst í þeim efnum hefur bein áhrif á lífskjör almennings. Í sumum sveitarfélögum hefur tekist að samþætta hófsama skattheimtu við öfluga þjónustu. Í öðrum hafa álögur verið eins háar og lög leyfa án þess að íbúarnir fái þjónustu sem þeir eru ánægðir með.

Hugmyndafræði frjálsræðis ræður ríkjum í fyrrnefndu sveitarfélögunum en hugmyndir stjórnlyndis hafa náð undirtökunum í þeim síðari.

Í kjörklefanum velja kjósendur á milli þessara hugmynda.

Átök hugmynda

Það er misskilningur að halda því fram að hugmyndafræði skipti engu í sveitarstjórnum. Reynslan sýnir annað. Auðvitað sameinast sveitarstjórnarmenn í að vinna að sameiginlegum málum með sama hætti og alþingismenn taka oftar en ekki höndum saman við að hrinda góðum málum í framkvæmd. En svo skilur leiðir.

Á meðan einn frambjóðandi berst fyrir lægri álögum gefur hinn loforð um aukin útgjöld. Frambjóðandi sem leggur áherslu á valfrelsi borgaranna getur aldrei átt samleið með þeim sem vill steypa alla í sama mótið. Stjórnmálamaður sem talar fyrir aðhaldssemi í rekstri kemur ekki fram og gefur út kosningavíxla og tugmilljarða loforð. Slíkt gerir aðeins sá sem annaðhvort ætlar ekki að efna gefin fyrirheit eða stefnir að því að láta kjósendur borga brúsann að fullu. Þannig stjórnmálamenn finnast í Reykjavík.

75 milljarða kosningaloforð

Undir stjórn Jóns Gnarr og Dags B. Eggertssonar hefur myndast ófremdarástand í íbúðamálum í höfuðborginni, enda voru þeir uppteknir af því að byggja fuglahús í stað þess að tryggja nægilegt framboð á íbúðalóðum á hagstæðu verði.

Nú þegar búið er að rífa fuglahúsin telur Samfylkingin nauðsynlegt að hefjast loks handa við að byggja íbúðir fyrir fólk. Dagur B. Eggertsson, sem Jón Gnarr ætlar að láta afhenda borgarstjórnalyklana 16. júní næstkomandi (kosningar eru greinilega formsatriði), lofar borgarbúum að byggðar verði allt að þrjú þúsund leiguíbúðir á komandi kjörtímabili. Mér er til efs að nokkur frambjóðandi til borgarstjórnar hafi gefið stærra loforð.

Loforð Samfylkingarinnar kostar ekki undir 75 þúsund milljónum króna miðað við að hver íbúð kosti að meðaltali 25 milljónir króna í byggingu. Þetta jafngildir öllum fasteignagjöldum Reykjavíkurborgar í liðlega sex ár eða útsvarstekjum í eitt ár og sex mánuði betur.

Það er hreint magnað að nú sé svo komið í íslenskum stjórnmálum að frambjóðendur geti kinnroðalaust gefið loforð sem jafngildir 2,5 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Með einum eða öðrum hætti verður stórum hluta kostnaðarins velt yfir á borgarbúa í formi hærri gjalda, – ef efna á loforðið.

Dýrt að búa í Reykjavík

Á laugardaginn taka borgarbúar afstöðu til þess hvort þeir trúa milljarða kosningaloforði og um leið hvort þeir eru reiðubúnir til að ganga í ábyrgð fyrir það. En þeir ákveða einnig hvort þeir vilja halda áfram á skattheimtubraut Samfylkingar og Bjartrar framtíðar eða hvort þeir vilja léttari byrðar og hærri ráðstöfunartekjur.

Fyrir nokkru benti ég á þau einföldu sannindi að venjulegur launamaður í Reykjavík er viku lengur að vinna fyrir útsvarinu en hann væri ef innheimt væri lágmarksútsvar. Það er hægt að setja þetta í annað samhengi, líkt og Vefþjóðviljinn hefur gert:

Reykvískt heimili þar sem mánaðartekjurnar eru alls 700 þúsund krónur mun að óbreyttu greiða 4,9 milljónir króna í útsvar á næsta kjörtímabili. Á sama tíma mun fjölskylda, með sömu laun en búsett í sveitarfélagi sem leggur á lægsta útsvarið, greiða tæplega 698 þúsund krónum lægri fjárhæð.

Með öðrum orðum: Fjölskyldan í Reykjavík þarf að horfa á bak heilum mánaðarlaunum á næstu fjórum árum.

Kjósendur í Reykjavík hljóta að velta því fyrir sér hvort hag þeirra sé betur borgið með því að ráðist verði í byggingu opinberra leiguíbúða eða með hærri ráðstöfunartekjum samfara minni skattheimtu. Líkt og í öðrum sveitarfélögum verða borgarbúar að velja þá hugmyndafræði sem þeir vilja að fylgt verði við stjórn sveitarfélagsins á komandi árum.