Óli Björn Kárason

Freistingin er mikil. Áhættan er hverfandi en vonin um ávinning er töluverð. Kannski er ekki undarlegt að stjórnmálamenn falli fyrir freistingunni ekki síst þegar þeir standa höllum fæti í samkeppninni um hylli kjósenda.

Loforð eru gefin, kosningavíxlar slegnir, viljayfirlýsingar undirritaðar, þingsályktanir lagðar fram, frumvörp kynnt. Í samkeppninni um atkvæði freistast stjórnmálamenn og einkum ráðherrar, að lofa því sem þeir geta ekki staðið við, gefa út víxla sem aðrir eiga að greiða, skrifa undir viljayfirlýsingar sem eru minna virði en pappírinn sem þær eru skrifaðar á, leggja fram tillögur sem hafa lítið gildi og kynna frumvörp sem þeir vita að aldrei ná fram að ganga.

Sjónleikir stjórnmálanna vekja athygli þar sem fjölmiðlar taka fullan þátt í leiksýningunum.

Enginn bendir á nýju fötin

Þegar ráðherrar, bæjarstjórar eða leiðtogar borgarstjórnar setjast niður og undirrita viljayfirlýsingu þar sem öllu fögru er lofað eru fjölmiðlar ómissandi. Fjölmiðlungar taka myndir og myndskeið og birta hugguleg viðtöl við helstu leikendur.

Engum kemur til hugar að fara í hlutverk barnsins sem bendir á að keisarinn er ekki í neinum fötum.

Við hátíðleg tækifæri þar sem skrifað er undir viljayfirlýsingar spyrja fjölmiðlar ekki gagnrýninna spurninga:

  • Á hvaða grunni er þessi viljayfirlýsing undirrituð?
  • Hefur verið gengið frá fjármögnun og þá hvernig?
  • Hvernig er tryggt að yfirlýsingin nái fram að ganga?
  • Geta þeir sem undirrita ábyrgst það sem skrifað er undir?

Það er stórbrotið þegar stjórnmálamenn geta margnýtt viljayfirlýsingu. Fyrst í kosningum til Alþingis, síðan í kosningum til borgarstjórnar og loks til að koma höggi á pólitískan andstæðing sem fékk yfirlýsinguna í arf frá forvera sínum. Slíkt leikrit fer nú fram í höfuðborginni þar sem atkvæðanetin eru lögð fyrir eldri borgara og fjölskyldur þeirra í aðdraganda borgarstjórnarkosninga. Hagsmunaaðilar spila undir.

Óhræddir við loforðin

Stjórnmálamenn loforðanna eru óhræddir. Þeir vita að þegar þeir skrifa undir viljayfirlýsingu um fjármögnun nýs Landspítala verða þeir ekki spurðir að því hvernig ríkissjóður eigi að standa undir kostnaðinum. Þeir eru öryggir – eftir að hafa setið á ráðherrastól í fjögur ár – verða þeir ekki krafðir svara við því hvernig þeim kemur til hugar að leggja fram frumvarp skömmu fyrir kosningar, þar sem námsmönnum er lofað að fella niður milljarða af námslánum og breyta þeim í styrki. Frumvarp sem hefði kostað 4,7 milljarðar króna á ári. Þeir hafa fullvissu fyrir því að leiktjöldin standa óhögguð, þeir hafa reynsluna og kunna til verka við uppfærsluna.

Í maí 2012 ákvað ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að boða til blaðamannafundar til að kynna tugmilljarða fjárfestingaráætlun. Því var lofað að á kosningaárinu 2013 yrðu 16,4 milljörðum króna varið til fjárfestinga. Umbúðirnar vantaði ekki: Grænn fjárfestingasjóður, grænar fjárfestingar, grænkun fyrirtækja, græn skref, vistvæn innkaup, efling vaxandi atvinnugreina, bygging innviða friðlýstra svæða, verkefnasjóður skapandi greina og sóknaráætlun landshluta. Hálfu ári síðar var enn á ný boðað til blaðamannafundar, enda stutt í prófkjör (flokksval Samfylkingarinnar). Þá höfðu að vísu milljarðar horfið frá fyrri áætlun en nú skyldi engu að síður setja yfir tíu milljarða í góðu málefnin.

Fjárfestingaráætlun vinstri stjórnarinnar gaf tóninn fyrir fjárlög á kosningaári. Barnabætur skyldu hækkaðar, fæðingarorlof lengt og hækkað, fangelsi byggt fyrir milljarða, hús íslenskra fræða reist, hundruð milljóna sett í náttúruminjasafn í Perlunni og millifærslur auknar (fátt finnst vinstri mönnum skemmtilegra en að fást við flóknar millifærslur). Engu skiptir þó tugmilljarða halli væri á ríkissjóði.

Boðið var til uppskeruhátíðar á kosningaári. Reikninginn átti að greiða með víxlum, en öðrum var ætlað að finna leiðir til að fjármagna enda ríkissjóður í þrotum.

Spilað á vonir og væntingar

Auðvitað þarf ekkert að vera athugavert við að aðilar sem vilja vinna saman undirriti viljayfirlýsingu. Það er heldur lítið við það að athuga að ráðherra eða forvígismaður sveitarfélags skrifi undir viljayfirlýsingu, sé viðkomandi í góðri trú og hafi gert ráðstafanir til að hægt sé að standa við hana.

Það er hins vegar ekki mikill drengskapur að skrifa undir viljayfirlýsingu án þess að fyrir henni sé nokkur innistæða. Þegar sá sem heldur um pennann veit að hverfandi líkur eru á því að hægt verði að standa við það sem er lofað er, getur æran ekki verið mikils virði. Skiptir engu hvort um er að ræða nýtt hjúkrunarheimili, aukna þjónustu borgaranna, milljarða í styrki til námsmanna, þróunarsetur eða annað. Það er verið að spilað á vonir og væntingar í lágkúrulegri viðleitni til að blekkja kjósendur til fylgislags á kjördegi.

En á meðan fjölmiðlar halda áfram að taka þátt í leiksýningum sem settar eru upp og hagsmunaaðilar láta spila með sig nokkrum dögum eða vikum fyrir kosningar, verða sýningarnar endurteknar. Viljayfirlýsingar verða undirritaðar, kosningavíxlar lagðir fram og innistæðulaus loforð gefin út.

Að loknum kosningum standa kjósendur eftir með sárt ennið enda allt á þeirra kostnað.