Óli Björn Kárason

Fátt kæmi launafólki betur en lækkun útsvars og þá ekki síst þeim sem eru með lægstu launin. Mikill meirihluti skattgreiðenda þarf að greiða hámarksútsvar og verður að sætta sig við lægri ráðstöfunartekjur en íbúar sveitarfélaga þar sem meiri hófsemdar er gætt. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er merkilegt hvernig frambjóðendur til borgar- og sveitarstjórna koma sér fimlega hjá því að ræða stefnu sína er varðar álögur á íbúana.Tekjuskattur og útsvar

Samkvæmt lögum getur útsvar orðið hæst 14,52% en lægst 12,44% af tekjum. Í Reykjavík er útsvarsprósentan í hámarki líkt og í 57 öðrum sveitarfélögum. Aðeins tvö sveitarfélög lofa íbúum sínum að njóta lágmarksútsvars – Skorradalshreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur. Níu sveitarfélög eru undir vegnu meðaltali (12,44%) og fimm sveitarfélög eru fyrir ofan meðaltalið en undir hámarkinu, eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu.

Vikulaun gerð upptæk

Það skiptir venjulegan launamann verulegu máli hvar hann ákveður að halda heimili sitt. Sá sem kemur sér fyrir í sveitarfélagi þar sem lágmarksútsvar er innheimt greiðir sem jafngildir vikulaunum lægra en félagi hans sem er búsettur í Reykjavík, svo dæmi sé tekið.

Það er hægt að orða þetta með öðrum hætti:

Skattgreiðendur í Reykjavík og öðrum háskattasveitarfélögum eru viku lengur að vinna fyrir útsvarinu en þeir sem minnst greiða.

Það er með öllu óskiljanlegt að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar skuli sjaldan beina sjónum sínum að útsvari og annarri skatt- og gjaldheimtu sveitarfélaga. Enn merkilegra er hvað íbúar háskattasveitarfélaga virðast kæra sig kollótta, jafnvel þó að álögur hækki og skuldir sveitarfélagsins einnig. Jafnvel óánægja með veitta þjónustu kveikja illa upp efasemdir um hátt útsvar. Þó virðist vera samhengi á milli góðrar þjónustu og hófsemdar í álagningu opinberra gjalda. Þannig leiddi könnun Capacent Gallup á viðhorfi íbúa sextán sveitarfélaga í ljós að Reykvíkingar eru almennt ekki ánægðir. Höfuðborgin er í þriðja neðsta sæti þegar spurt er um þjónustuna í heild. Íbúar Garðabæjar og Seltjarnarness eru hins vegar ánægðir.

Vegur þyngra en tekjuskattur

Fyrir launamanninn hefur útsvarið mun meiri áhrif á ráðstöfunartekjur en tekjuskattur ríkissjóðs. Launamaður sem er með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir helmingi meira í útsvar en í tekjuskatt.

Í heild greiða Íslendingar mun meira í útsvar en tekjuskatt. Samkvæmt svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi, námu útsvarstekjur sveitarfélaganna um 134 milljörðum króna árið 2012. Sama ár innheimti ríkissjóður tæplega 101 milljarð í tekjuskatt. Útsvar var þriðjungi hærra í heild en tekjuskattur.

Ef tekið er mið af umræðu um opinber gjöld hefði mátt ætla að tekjuskattur ríkisins væri margfaldur á við útsvar sveitarfélaganna. Þessu er þveröfugt farið og undirstrikar nauðsyn þess að auka aðhald að sveitarfélögunum þegar kemur að álagningu gjalda.

Það dugar ekki að lagfæra tekjuskattskerfi ríkisins og draga úr jaðarskattheimtu þegar launamanninum er síðan refsað af sveitarfélaginu. Það verður að koma böndum á innheimtugleði sveitarstjórna, fyrst útsvarið og svo fasteignagjöldin.

Viðhorf til fyrirmyndar

Miðað við skoðanakannanir geta Reykvíkingar ekki gert sér vonir um að útsvar verði lækkað á komandi kjörtímabili. Þeir verða að reikna með óbreyttri stefnu borgarstjórnar – útsvar skal vera í hámarki. Eina vonin liggur í því að Alþingi hækki ekki hámarksprósentuna.

Viðhorf meirihluta borgarstjórnar er annað en bæjarstjórnar Vestmannaeyja sem samþykkti í nóvember á liðnu ári að lækka útsvar:

„Það er skoðun stjórnenda Vestmannaeyjabæjar að nú þegar rekstur Vestmannaeyjabæjar þolir að lægra hlutfall sé tekið af launum bæjarbúa þá eigi þeir að njóta þess með auknum ráðstöfunartekjum frekar en að rekstur sveitarfélagsins sé þaninn út. Fólk er enda sjálft best til þess fallið að meta hvernig það ver sínum eigin fjármunum.“

Sjónarmið meirihluta bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum er skýrt og til fyrirmyndar. Kjósendur í öðrum sveitarfélögum þurfa einnig skýra kosti þegar þeir ganga að kjörborði í lok mánaðarins.

Í 58 sveitarfélögum eru tækifæri fyrir stjórnmálamenn sem vilja draga hramma hins opinbera úr vösum einstaklinga og auka ráðstöfunarfé þeirra. Það er ekki vondur málstaður að berjast fyrir því að bæta hag almennra launamanna með lækkun opinberra gjalda.

En til að ná árangri verður að tala hátt og skýrt.Útsvar-sveitarfélög