Um það verður ekki efast að ásetningur og vilji vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna að umbylta þjóðfélaginu var einlægur. Skattkerfinu var umbylt, lögum breytt, eftirlit hert og sérstaklega var sótt að millistéttarfólki, sjálfstæðum atvinnurekendum, stóriðju og síðast en ekki síst að útgerðinni. Fátt fer meira í taugarnar á sönnum sósíalistum en sæmilega stöndugt útgerðarfyrirtæki. Þess vegna litu Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon á það sem skyldu sína að kollvarpa stjórnkerfi fiskveiða.

Í samræmi við þá meginreglu að velja fremur sundrungu en samstöðu hafnaði ríkisstjórnin tillögum sáttanefndarinnar svokölluðu um breytingar á lögum um stjórnkerfi fiskveiða. Nefndin, sem var undir forystu Guðbjarts Hannessonar og Björns Vals Gíslasonar, lagði til að áfram yrði byggt á aflamarks- og aflahlutdeildarkerfi, aflaheimildum yrði ráðstafað með formlegum samningi til langs tíma, þar sem samningarnir yrðu framlengdir.

Í stað sáttatillagna var hafist handa við endurritun laga um stjórn fiskveiða og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir samþykkti frumvarp Jóns Bjarnasonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, á fundi 10. maí 2011. Þar var lagt til að veiðigjaldið yrði tvöfaldað, kvótinn innkallaður (fyrningarleiðin) og endurúthlutað tímabundið til 15 ára en þó þannig að hluti kvótans færi í „potta” sem yrði úthlutað sérstaklega. Veðsetning skyldi bönnuð og framsal takmarkað verulega.

Falleinkunn

Frumvarpið fékk falleinkunn hjá flestum. ASÍ varaði við samþykkt þess. Samtök atvinnulífsins bentu á þá einföldu staðreynd að verið væri að leggja sjávarútveginn í rúst. Margir þingmenn vinstri stjórnarinnar lögðu á flótta þegar þeir gerðu sér grein fyrir þeirri miklu andstöðu sem var við frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vék sér fimlega undan ábyrgð og í Kastljósviðtali í september 2011 felldi hún dóm yfir frumvarpi sem hún hafði samþykkt á ríkisstjórnarfundi: »Þetta var gallað frumvarp að mörgu leyti.«

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra gaf eftirfarandi einkunn:

„Það var eins og bílslys.”

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gerði fleiri tilraunir til að eyðileggja stjórnkerfi fiskveiða en hafði ekki þrek til er á hólminn var komið. En vinstri stjórninni tókst að stórhækka álögur á útgerðina. Frá 2009 til 2012 hækkuðu veiðigjöld um 8,3 milljarða sem er liðlega níföldun. Að þessu leyti hélt ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. sínu striki enda var það talið óviðunandi að fyrirtæki og einstaklingar næðu góðum árangri, án þess að læst væri skattakrumlu ríkisins um þau.

„Óheilbrigð þráhyggja”

Fáar fyrirmyndir verða sóttar til vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, en vítin sem ber að varast eru fjölmörg.

Allt síðasta kjörtímabil var alið á öfund í garð útgerðarinnar sem var gert að starfa í skugga stöðugra hótana stjórnvalda. Sundrungarpólitík vinstri manna birtist ekki síst í tilraunum til að bylta stjórnkerfi fiskveiða sem dr. Þráinn Eggertsson, prófessor í hagfræði, segir að sé merkilegasta framtak Íslands í skipulagsmálum. Í viðtali við Frjálsa verslun árið 2011 velti Þráinn því fyrir sér hvort þjóðarsálin gæti veikst:

„Umræðan á Íslandi um kvótakerfið er óheilbrigð þráhyggja. Í miðri stórkreppu er það stefna ríkisstjórnarinnar að skapa glundroða og gjaldþrot í sjávarútveginum sem er helsti lykillinn að efnahagsbata.”

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gaf fyrirheit um að vinna að uppbyggingu í sjávarútvegi og vinnslu. Í stefnuyfirlýsingu er því lofað að stuðla að „uppbyggingu sjávarklasans með því að tryggja greininni gott starfsumhverfi, innleiða jákvæða hvata í regluverk og ýta undir vöruþróun og markaðssókn”. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að skapa skilyrði til endurnýjunar skipa og búnaðar landvinnslu og það undirstrikað að grundvöllur fiskveiðistjórnunar sé aflamarkskerfi:

„Ríkisstjórnin vill efla sátt um framtíðarskipulag greinarinnar. Áfram verður unnið með tillögu sáttanefndar sem starfaði á liðnu kjörtímabili um að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun. Samningarnir feli í sér rétt til endurnýjunar að uppfylltum skilyrðum sem samningarnir kveði á um.”

Eiga að gefa sér góðan tíma

Í stefnuyfirlýsingu segir að almennt veiðigjald eigi að endurspegla afkomu útgerðarinnar í heild en að sérstakt veiðigjald taki sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja. Um það verður vart deilt að ríkisstjórninni voru mislagðar hendur þegar lögum um veiðigjöld var breytt á sumarþingi 2013. Lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki standa ekki undir álögunum og gjöld af uppsjávarfiski hirða allan ágóða veiðanna.

Það er verkefni sjávarútvegsráðherra að leggja fram tillögur um álagningu veiðigjalda á komandi fiskveiðiári. Þær tillögur hljóta annars vegar að taka mið af þeim veruleika sem blasir við íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum – minni afla, lægra verði og erfiðum aðstæðum á mörkuðum – og hins að jafnræði komist á milli fyrirtækja. Og ríkisstjórnin getur ekki leyft sér að tjalda til einnar nætur heldur innleiða heilbrigt kerfi veiðigjalda sem gerir útgerðarmönnum kleift að horfa til lengri tíma og taka ákvarðanir m.a. um fjárfestingu í veiðum og vinnslu.

Hagsmunirnir sem eru í húfi eru gríðarlegir, ekki aðeins fyrir sjávarútvegsfyrirtækin heldur fyrir íslenskt efnahagslíf í heild sinni. Það er því mikilvægt að ríkisstjórnin vandi sérstaklega vel til verka að þessu sinni.

Nú eru eftir átta almennir þingfundardagar samkvæmt starfsáætlun Alþingis en þingi verður frestað 16. maí vegna sveitarstjórnarkosninga. Varla getur nokkrum stjórnarliða dottið í hug að rétt sé og skynsamlegt að keyra breytingar á veiðigjöldum í gegnum Alþingi fyrir þingfrestun. Slík vinnubrögð eru ávísun á mistök sem geta orðið dýrkeypt. Verkstjóri ríkisstjórnarinnar getur ekki komið fram líkt og fyrrverandi forsætisráðherra og sagt að málið hafi verið að „mörgu leyti gallað”.

 

Til þess eru »bílslysin« til að forðast þau. Þess vegna á ríkisstjórnin að gefa sér góðan tíma og boða til sumarþings eftir sveitarstjórnarkosningar þar sem breytingar á veiðigjöldum eru afgreiddar af yfirvegun. Um leið er rétt að gefa út yfirlýsingu um að á komandi vetri verði lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórnkerfi fiskveiða í anda sátta en ekki sundrungar.