Ólíkt hafast þeir að, Steingrímur J. Sigfússon og Bjarni Benediktsson. Sá fyrrnefndi beitti hótunum sem fjármálaráðherra en sá síðarnefndi gefur fyrirheit um lægri opinberar álögur á fyrirtæki og einstaklinga. Báðir hafa þeir gripið til enskunnar til að lýsa því sem þeir vilja gera:

„You ain‘t seen nothing yet“

Ekki verður það frá Steingrími J. Sigfússyni tekið að hann stóð af trúmennsku við yfirlýsingar sínar enda hafa vinstrimenn alltaf haft einfalda lausn á flestum vandamálum, allt frá rekstri ríkissjóðs til jöfnunar lífskjara: Skattar skulu hækkaðir.

Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, benti á að vinstrimenn vildu jafna kjörin niður á við – hægri menn vildu bæta kjör allra.

Hugmyndafræðilegur sigur

Vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hófst þegar handa árið 2009 undir handleiðslu Steingríms J. Sigfússonar í fjármálaráðuneytinu við að hækka skatta. Þegar Steingrímur hafði verið í tæpt ár í ráðherrastóli stóð hann stoltur á fundi Deloitte endurskoðunarfyrirtækisins og greip til enskunnar. Í lok kjörtímabilsins – eftir mikinn ósigur í kosningum leit fjármálaráðherrann fyrrverandi hróðugur um öxl. Vinstri grænir hefðu, með umbyltingu skattakerfisins, unnið „sinn stærsta hugmyndafræðilega sigur“ auk sigra í umhverfismálum.

Skattar voru hækkaðir jafnt á einstaklinga sem fyrirtæki og alls voru gerðar um 200 breytingar á skattkerfinu á valdatíma vinstrimanna. Allt „nánast eftir okkar eigin formúlu og að grunni til í samræmi við hugmyndir sem ég teiknaði upp í bók sem ég skrifaði 2006,“ segir Steingrímur J. stoltur í bók sinni, Frá hruni og heim.

Fyrirtæki fengu að kynnast „formúlunni“ og einstaklingar fengu heldur betur að smakka á henni. Þrepaskipt tekjuskattskerfi með stighækkandi skatthlutföllum (þremur skattþrepum) var innleitt og tenging persónuafsláttar við vísitölu neysluverðs afnumin. Skattprósenta var hækkuð og tekjutenging barnabóta aukin. Tekjuskattslögunum var breytt tæplega 30 sinnum á kjörtímabilinu. Fjármagnsskattur var hækkaður og sérstakur auðlegðarskattur (eignaupptökuskattur) var lagður á.

Stöðugar breytingar á sköttum gerðu það nær útilokað fyrir venjulegt fólk að fylgjast með og erfitt fyrir litla atvinnurekendur að gæta réttar síns í sífellt flóknara og breytilegu skattaumhverfi.

Og eftir höfðinu dönsuðu limirnir. Í samræmi við yfirlýsingar um að Ísland skyldi ekki vera „skattaparadís“ kepptust þingmenn vinstriflokkanna um að boða ofurskatta – 60-70% skatt á tekjur yfir eina milljón og jafnvel 80% á tekjur yfir 1,2 milljónir.

Öllum þessum hugmyndum og allri sósíalískri „skattaformúlu“ Steingríms J. Sigfússonar var hafnað í kosningum á liðnu ári.

Tími hótana að baki

Almennir launamenn sem og atvinnurekendur hafa bundið miklar vonir við ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ekki síst í skattamálum.

Ríkisstjórnin gaf strax í upphafi loforð um að snúið yrði af braut vinstristjórnarinnar. Hófsemd yrði innleidd við álagningu skatta og opinberra gjalda, samhliða því að tryggja hallalausan ríkisrekstur.

„Við lögðum frá upphafi áherslu á að lækka skatta,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, í ræðu á flokksráðsfundi síðastliðinn laugardag. Hann tók um leið fram að það hefði ekki gerst án átaka enda virðast vinstrimenn líta svo á að „óskattlagður eyrir sé tapað fé“.

Réttum tíu mánuðum eftir að Bjarni Benediktsson tók við stjórn fjármálaráðuneytisins er árangurinn að koma í ljós. Hagur heimilanna og fyrirtækjanna er 25 milljörðum króna betri en undir óbreyttri stefnu vinstrimanna. Fyrirheit Bjarna á flokksráðsfundinum var skýrt:

Hann er rétt að byrja, ekki aðeins með lækkun skatta heldur með gagngerum breytingum á skattkerfinu:

• Það á að endurskoða tekjuskattskerfið, draga úr beinum sköttum og treysta fremur á neysluskatta.

• Endurskoða á allt virðisaukaskattskerfið, auka jafnvægi milli atvinnugreina og einfalda umsýslu.

• Vörugjöld verða afnumin af öllum vörum nema bifreiðum, eldsneyti, áfengi og tóbaki.

• Tollkerfið verður endurskoðað, tollar lækkaðir og felldir niður í tvíhliða samningum við önnur lönd.

Ef það hreyfist…

Það er allur annar bragur á málflutningi núverandi fjármálaráðherra en forvera hans sem sagðist hafa unnið „hugmyndafræðilegan sigur“ með 200 breytingum á skattkerfinu og stórhækkun skatta.

Vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna rak skattastefnu sem setti allt íslenskt samfélag í spennitreyju. Orð Ronalds Reagan, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, lýsa ágætlega stefnu sem fylgt var af trúmennsku á síðasta kjörtímabili:

Ef það hreyfist skattleggðu það. Ef það heldur áfram að hreyfast, settu lög. Ef það stoppar, settu það á ríkisstyrk.

Ræða Bjarna Benediktssonar gefur fyrirheit um að unnið verði markvisst að því að lækka opinberar álögur á einstaklinga og fyrirtæki. Fyrstu skrefin hafa verið stigin, þó að mörgum finnist þau of lítil og of fá. Loforðið er hins vegar skýrt:

Íslensk heimili og fyrirtæki verða leyst úr spennitreyju sem gerð var samkvæmt formúlu sósíalista sem vildi láta gamlan draum rætast.