Óli Björn Kárason

Hægt og bítandi missa sum orð merkingu eða snúast jafnvel upp í andhverfu sína. Í þvælinni umræðu stjórnmálamanna verða klisjur oftar en ekki ráðandi. Almenningur á því erfiðara en ella með að átta sig á því fyrir hvað viðkomandi stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur stendur. Ef til vill er það tilgangurinn með innihaldslausu eða merkingarlitlu tali.

Á síðustu árum hafa íslenskir stjórnmálamenn í æ ríkara mæli skreytt sig með fallegum og jákvæðum orðum. Þeir segjast vera frjálslyndir (ýmist til vinstri eða hægri og jafnvel á miðjunni). Þeir eru talsmenn umburðarlyndis enda einstaklega víðsýnir. Flestir eru stjórnmálamennirnir orðnir sérstakir baráttumenn umbóta, unnendur náttúrunnar og vinir græna hagkerfisins. Stjórnmálamennirnir vilja beint lýðræði og forðast átakastjórnmál. Umræðustjórnmál er lausnarorð.

Með þessu er reynt að koma í veg fyrir hugmyndabaráttu. Inntakslausir frasar taka við. Fátt hentar betur þeim sem forðast hugmyndafræðileg átök og telja samkeppni hugmynda ekki eftirsóknarverða.

Umburðarlyndi leyfir ekki skoðanir

Þeir sem helst kenna sig við umburðarlyndi eiga erfitt með að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Umburðarlyndið leyfir ekki hvaða skoðun sem er. Þess vegna töldu þrír þingmenn stjórnarandstöðunnar nauðsynlegt að krefjast þess að háskólaprófessor væri kallaður á teppið hjá þingnefnd vegna blaðagreinar sem þeim var ekki að skapi. Og öllu átti á sjónvarpa líkt og „réttarhöldum“ í tíð bandarísks öldungadeildarþingmanns, sem setti svartan blett á sögu eigin þjóðar.

Með sama hætti er það merki um víðsýni og mikið umburðarlyndi að kalla flokksbræður og -systur svartstakka – líkja þeim við fasista og ofbeldismenn.

Umburðarlyndi og víðsýni brýst fram í því þegar stjórnmálamenn ákveða að setja fjölmiðlum skorður og koma á fót sérstakri eftirlitsstofnun með starfsemi þeirra. Frjálslyndur stjórnmálamaður er sannfærður um nauðsyn þess að takmarka frelsið, koma upp öflugum eftirlitsstofnunum og setja flókin lög og margslungnar reglur. Aðeins íhaldsöflin vilja takmörkuð ríkisafskipti og einstaklingsfrelsi. Sá sem efast um eftirlitsiðnaðinn og umsvif hins opinbera er úthrópaður undir gunnfána umburðarlyndis.

Frjálslyndi felst í því að seilast stöðugt dýpra í vasa skattgreiðenda og útdeila peningum til gæluverkefna. Að efast um réttmæti þess er merki um að menn skilji ekki samfélagslega ábyrgð.

Frjálslyndi afnemur rétt þjóðar

Frjálslyndur stjórnmálamaður er sá sem telur rétt að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þeir sem hafna aðild eru einangrunarsinnar. Skiptir engu þótt þeir hafi alla tíð barist fyrir frjálsum og opnum alþjóðaviðskiptum og jafnvel tekist á við marga sem vilja undir fána Evrópusambandsins. Frjálslyndir vinstrimenn, miðju- og hægrimenn eru Evrópusinnar. Frjálslyndi felst í því að afnema rétt þjóðar að gera sjálfstæða samninga um opin viðskipti við lönd sem standa undan við ESB. Aðeins afturhaldssinnar eru svo forpokaðir að berjast fyrir frjálsum viðskiptum við aðra en tilheyra sérstökum elítuklúbbi.

Í anda frjálslyndis getur meirihluti aðeins ráðið för ef hann tekur rétta ákvörðun. Röng ákvörðun meirihlutans gefur hinum frjálslyndu sjálfsagðan rétt að vinna gegn henni með öllum tiltækum ráðum. Brigslyrði, hótanir og uppnefni eru vopnin. Málamiðlanir innan flokks eru sýndargjörningar sem nýtast stundum til að hrekja þá sem ekki eru sama sinnis út í horn.

Opinn og frjálslyndur stjórnmálaflokkur leggur ekki áherslu á að flokksmenn fái að ráða för. Umburðarlyndið felst í því að örfáir ráði og skipi til verka. Að lofa óbreyttum flokksmönnum að velja á framboðslista er ávísun á átök og átakastjórnmál eru ekki hluti af umbótunum.

Frjálslyndur stjórnmálamaður vill opið lýðræði en stendur gegn því að kjósendur hafi nokkuð um það að segja hvort þeir vilji ganga í ríkjasamband Evrópu. Hæsta stig víðsýninnar er að leita allra leiða til að koma skuldabagga einkafyrirtækis á skattgreiðendur og reyna allt til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frjálslyndi frá ábyrgð

Hin frjálslynda víðsýni felst í því að ákæra einstakling, en lýsa því yfir að ekkert sé vitað um hvort viðkomandi sé sekur eða saklaus, en að það sé til fyrirmyndar að láta á það reyna fyrir dómstólum. Aðeins afturhaldssinnar og líklega svartstakkar eru á því að í frjálsu samfélagi, – undir leikreglum réttarríkisins – sé það fráleitt að einstaklingur sæti ákæru, nema því aðeins að ákæruvaldið sé sannfært um að viðkomandi hafi í raun brotið lög og að meiri líkur en minni séu á sakfellingu.

Að koma sér undan ábyrgð, kenna öðrum um og fara á svig við úrskurð Hæstaréttar er til merkis um frjálslynda alþjóðasinnaða jafnaðarmennsku.

Víðsýnn, umbótasinnaður og frjálslyndur stjórnmálamaður hefur lítinn áhuga á valfrelsi. Þétting byggðar, minni og hægari umferð eru hans ær og kýr. Aðeins sá sem hefur gengið íhaldsöflunum á hönd vill greiðar samgöngur, tryggja að einstaklingar geti valið sjálfir þann ferðamáta sem þeim hentar, að ekki sé talað um hugguleg og vel skipulögð úthverfi. Forhert afturhald óskar síðan eftir mislægum gatnamótum og það gengur næst guðlasti.

Sá er þetta ritar verður vonandi aldrei kenndur við frjálslyndi eða víðsýni, en sættist ágætlega á að vera brennimerktur sem íhald eða jafnvel, ef svo ber undir, afturhald og jafnvel frjálshyggju. En kannski mun gamall samherji nota önnur orð um mig og okkur hin.