Fyrir almenning hlýtur að vera sérstaklega fróðleg að hlusta á gagnrýni stjórnarandstöðunnar á tillögum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í skuldamálum heimilanna. Í tíð ríkisstjórnar hinnar norrænu velferðar var því lýst yfir að ekkert frekar yrði gert til að aðstoða skuldug heimili.
Jón Baldur Lorange bendir á að Samfylking og Vinstri grænir, „sem æpa nú og skrækja í öllum húsasundum” yfir því að fyrirhugaðar aðgerðir „skili ekki þessum og hinum skuldalækkun” hafi í ríkisstjórn lofað að „gera ekki neitt frekar fyrir skuldug heimili í landinu”.
„Frægi blaðamannafundurinn í Þjóðmenningarhúsinu þar sem Árni Páll Árnason, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir sátu öll við borðið og sögðu þetta: Það verður ekkert gert frekar fyrir skuldug heimili í landinu. Það var þá sem þúsundir manna fóru á Austurvöll til að mótmæla og létu óánægju sína bitna á veggjum Alþingishússins og þingmönnum.”
Jón Baldur skrifar á bloggsíðu sína að ekki sé annað hægt en að brosa þegar „þetta fólk æpir og skrækir í ræðustól Alþingis og heimtar að meira hefði átt að gera fyrir heimilin í landinu”:
„Fjölmiðlar stjórnarandstöðunnar sem hafa verið duglegir við að þefa uppi öll orð forystufólks núverandi ríkisstjórnar fyrir alþingiskosningarnar mættu vera jafnduglegir við að rifja upp orð og efndir fyrrverandi stjórnarflokka.”