Fátt sýnir betur gildismat og lífsskoðanir stjórnmálamanna en þær ákvarðanir sem þeir taka á hverjum tíma um hvernig standa skuli að skattheimtu og hvernig útgjöldum skal skipt – í hvaða verkefni sameiginlegu fé skattgreiðenda er varið.

Vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem kenndi sig svo skemmtilega við norræna velferð, ákvað að hækka flesta skatta og gjöld á einstaklinga og fyrirtæki. Ekki til að styrkja tekjuöflun ríkissjóðs heldur til að hrinda í framkvæmd sósíalískri hugmyndafræði. Hækkun skatta, sem jók mjög á vanda skuldugra heimila, var „hugmyndafræðilegur sigur“ fyrir Vinstri græna, sagði Steingrímur J. Sigfússon í bók sem kom út fyrir síðustu jól.

Gildismat vinstri stjórnarinnar birtist einnig í því að á valdatíma hennar var starfsmönnum stjórnarráðsins fjölgað á sama tíma og starfsmönnum Landspítalans var fækkað. Þannig má lengi telja.útvarpsgjald

Hversu djúpt skal seilst?

Á hverju einasta ári standa þingmenn frammi fyrir því að velja og hafna. Við afgreiðslu fjárlaga eru línurnar fyrir komandi ár lagðar. Ákveðið er hversu djúpt skuli seilst í vasa landsmanna og um leið hvernig fjármunum er varið.

Þegar þingmenn ákveða að hundruðum milljóna eða jafnvel milljörðum króna sé varið með ákveðnum hætti eru þeir að gefa út yfirlýsingu: Málefnið er svo mikilvægt að það réttlætir ákvörðun um að láta skattgreiðendur axla kostnaðinn. Með sama hætti birtist gildismat þingmanna þegar þeir ákveðna að verja takmörkuðum fjármunum í eitt málefni en ekki annað.

Forgangsröðun fjárlaga er spegill lífsskoðana þingmanna.

Ákvörðun um að reka sendiráð um allan heim á sama tíma og menntakerfið berst í bökkum, er ákvörðun sem tekin er á hverju ári og byggir á hugmyndafræði. Þegar þingmenn samþykkja að verja hundruðum milljóna í listamannalaun og láta það óátalið ár eftir ár, að ákveðnir listamenn séu „áskrifendur“ að launum eru þeir um leið að samþykkja að ungu og efnilegu listafólki sé gert erfiðara fyrir að hasla sér völl á erfiðum markaði.

Þegar fallist er á að láta yfir 600 milljónir í skórækt er ásetningur Alþingis góður en á sama tíma eru heilbrigðisstofnanir um allt land í erfiðleikum og neyðast til að draga úr þjónustu. Forgangsröðunin liggur fyrir.

Látið undan þrýstingi

En auðvitað hefur fleira áhrif á ákvörðun þingmanna um útgjöld en hugmyndafræði og gildismat. Þrýstihópar eru háværir og sérhagsmunagæslan er öflug. Allt frá atvinnurekendum til verkalýðshreyfingar, frá sveitarstjórnum til margvíslegra félagasamtaka.

Einn sterkasti og háværasti hagsmunahópurinn er sá er stendur vörð um ríkisrekinn fjölmiðil.

Ríkisútvarpið hefur náð að verja vígið og átt vísan stuðning innan allra stjórnmálaflokka og öfluga talsmenn í hópi álitsgjafa, listamanna og fræðimanna.

Hið sama verður ekki sagt um eldri borgara – fólkið sem hefur lokið góðu ævistarfi en hefur aldrei gert miklar kröfur.

Þegar gripið er til aðhaldsaðgerða hjá Ríkisútvarpinu ætlar allt um koll að keyra, en fáir taka upp hanskann fyrir þá eldri. Til að standa sómasamlega að þjónustu við aldraða vantar milljarða í uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimila, heimaþjónustu og dvalarheimili.

Forgangsröðun þingmanna birtist ágætlega þegar borin eru saman tveir tekjustofnar; útvarpsgjald og framlag í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Útvarpsgjald var fyrst lagt á árið 2009. Lögaðilar og allir einstaklingar á aldrinum 16-69 ára sem eru með tekjur yfir skattleysismörkum greiða gjaldið. Á þessu ári er útvarpsgjaldið kr. 19.400. Með sama hætti greiða allir í Framkvæmdasjóð aldraða en þar er gjaldið kr. 9.911.

Frá árinu 2009 hefur útvarpsgjaldið numið alls liðlega 25 þúsund milljónum króna á verðlagi síðasta árs og að meðtöldu yfirstandandi ári samkvæmt fjárlögum. Í Framkvæmdasjóð aldraðra hafa innheimst liðlega 10 þúsund milljónir króna. (Til að gæta sanngirni skal það tekið fram að útvarpsgjaldið hefur ekki runnið að fullu til Ríkisútvarpsins, samkvæmt ákvörðun Alþingis.)

Auðvelt er að halda því fram að þingmenn telji ríkisrekstur fjölmiðils mun mikilvægari en uppbyggingu öldrunarþjónustu – meira en helmingi mikilvægari. En líklegast er önnur og nærtækari skýring: Ríkisútvarpið á mun öflugri hagsmunagæslumenn en aldraðir. Þess vegna er útvarpsskatturinn tvöfalt hærri en gjaldið í Framkvæmdasjóð.

Snúum þessu við

Sá er þetta ritar hefur alla tíð efast um réttmæti þess að ríkið standi í rekstri fjölmiðils og eignast stöðugt fleiri samherja. En hagsmunagæslan um Efstaleitið er öflug og erfitt virðist að ná fram einhverri málamiðlun líkt og undirritaður hefur þó reynt oftar en einu sinni.

En það væri merki um pólitískan kjark og rétta forgangsröðun ef þingmenn tækju ákvörðun, við gerð fjárlaga 2015, að hafa endaskipti á hlutunum: Útvarpsskatturinn lækki og gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra hækki. Með því hefði Framkvæmdasjóðurinn, að óbreyttu, um 2,4 þúsund milljónum króna meira fé á ári til byggja upp þjónustu við aldraða.

Skipti af þessu tagi væri gott fyrsta skref í að greiða skuld okkar sem erum á besta aldri við þá sem lokið hafa starfsævinni.