The video cannot be shown at the moment. Please try again later.

„Nei!“

Svarið var skýrt og einfalt sem Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður Vinstri grænna, gaf kvöldið fyrir kjördag 2009 þegar hann var spurður í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins hvort það komi til „greina að hefja undirbúning að því að sækja um, strax núna eftir kosningar“.

Týr Viðskiptablaðsins bendir á að Steingrímur J. hafi kvöldið fyrir kjördag ítrekað sagt  að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu:

„Þetta var allt svikið strax.”

Síðan segir Týr í pistli sínum:

„Það fólk sem nú gerir hróp að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hafði það eitthvað við þetta að athuga? Helgi Hjörvar? Össur Skarphéðinsson? Sigríður Ingibjörg Ingadóttir? Svo einhver séu nefnd.

Og hvernig brást Þorsteinn Pálsson við, sá mikli prinsippmaður? Talaði hann mikið um svik? Hvað sagði hann af kögunarhóli sínum?

Hann settist nú bara í „samninganefndina“ fyrir Össur.”

Reynt að hræða þingmenn

Stóryrði, dylgjur og brigsl eru notuð til hræða þingmenn, skrifar  Týr:

„Meðal stóryrðanna sem slegið var upp í þessu skyni voru þau orð Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins, að ef Sjálfstæðisflokkurinn afturkallaði inngöngubeiðni Jóhönnu-stjórnarinnar í ESB væru það ein stærstu svik íslenskrar stjórnmálasögu.”

Týr vísar ásökunum Þorsteins á bug en tekur fram að engu að síður séu „ein allra stærstu svik íslenskrar stjórnmálasögu tengd þessari aðildarumsókn og það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem framdi þau”. Týr birtir síðan orðaskipti kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 2009:

Sigmar Guðmundsson: „Kemur það til greina Steingrímur bara svo ég spyrji þig – bíddu Ástþór – kemur það til greina að hefja undirbúning að því að sækja um, strax núna eftir kosningar…“

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG: „Nei!“

Sigmar Guðmundsson: „… vegna þess að þannig hefur Samfylkingarfólkið talað.“

Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“

Sigmar Guðmundsson: „Að þetta byrji í sumar?“

Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“

Sigmar Guðmundsson: „Hvenær getur þetta byrjað?“

Steingrímur J. Sigfússon: „Það samrýmist ekki okkar stefnu og við hefðum ekkert umboð til slíks. Og þó við reyndum að leggja það til, forystufólkið í flokknum, að það yrði farið strax í aðildarviðræður, gagnstætt okkar stefnu, í maí, þá yrði það fellt í flokksráði vinstrigrænna. Þannig að slíkt er ekki í boði.“