Síðbúnar upplýsingar um að Seðlabankinn hafi tekið að sér að greiða lögfræðireikninga fyrir seðlabankastjóra vekja ekki aðeins alvarlegar spurningar. Þær eru enn ein staðfesting á því hve nauðsynlegt það er að opna bókhald ríkisins og stofnana þess – tryggja aðgang almennings að upplýsingum um meðferð fjármuna.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til breytinga á upplýsingalögum. Megintilgangur þess er að tryggja aðgang almennings, fjölmiðla, fræðimanna og félagasamtaka að upplýsingum um hvernig opinberir aðilar, jafnt á vegum ríkis og sveitarfélaga, verja sameiginlegum fjármunum. Í greinargerð frumvarpsins er því haldið fram að opinn aðgangur almennings og fjölmiðla að slíkum upplýsingum sé sjálfsagður og eðlilegur en einnig eru færð rök fyrir því að birting þeirra leiði til aukins aðhalds með starfsemi hins opinbera. Þannig verði betur tryggt en áður að opinberir aðilar verji fjármunum af skynsemi og ráðdeild.

Undirritaður er flutningsmaður frumvarpsins ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Brynjari Níelssyni.

Hundruð milljarða

Verði frumvarpið að lögum verður stjórnvöldum og lögaðilum, sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, gert „skylt að birta opinberlega sundurgreindar upplýsingar um kaup á vöru og þjónustu yfir 150.000 kr. í hverjum almanaksmánuði“. Upplýsingarnar eiga að „vera öllum aðgengilegar og birtar sem mánaðarlegt yfirlit á heimasíðu viðkomandi stjórnvalds eða lögaðila eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar. Þar skal kaupfjárhæð koma fram, ásamt lýsingu á keyptri vöru og þjónustu. Þá skulu einnig fylgja upplýsingar um hver seljandi er“.

Árið 2012 námu kaup ríkis og sveitarfélaga á vöru og þjónustu um 27% af 740 milljarða króna heildartekjum. Þá eru ótalin kaup fyrirtækja sem eru að meirihluta í eigu opinberra aðila og þurfa að birta mánaðarlega yfirlit yfir keypta vöru og þjónustu. Hér er því um hundraða milljarða króna hagsmuni almennings að ræða.

Gegn sóun og spillingu

Aðrar þjóðir hafa stigið stór skref í að opna bókhald opinberra aðila og þar með gert alla stjórnsýslu og ákvarðanir gagnsærri. Aðhald hefur aukist og verulegir fjármunir hafa sparast. Í Bretlandi hefur orðið til jarðvegur fyrir einstaklinga og fyrirtæki með nýjar og ódýrari vörur og þjónustu fyrir opinbera aðila. Þannig hefur samkeppni um viðskipti við opinbera aðila aukist sem aftur hefur leitt til lægra verðs.

Reynsla Bandaríkjamanna er svipuð en árið 2006 voru samþykkt lög þar sem alríkinu og stofnunum þess er gert skylt að birta opinberlega upplýsingar um hvernig fjármunum ríkisins er varið. Einstök ríki og borgir hafa einnig sett upp gagnsæisgáttir þar sem fjárhagslegar upplýsingar eru veittar, allt frá kaupum á vöru og þjónustu til launa allra helstu embættismanna.

Upplýsingakerfi og gagnsæisgáttir á vefnum hafa ekki aðeins aukið aðhald að fjárveitingarvaldinu (stjórnmálamönnum), heldur ekki síður gagnvart embættismönnum. Almenningur og fjölmiðlar fylgjast vel með og vekja reglulega athygli á því sem miður fer. Þannig hefur þrýstingurinn orðið til þess að sóun hefur minnkað.

En aðhald og sparnaður eru ekki einu markmiðin með opnu bókhaldi hins opinbera. Gagnsæi í meðferð sameiginlegra fjármuna almennings vinnur gegn spillingu sem þrífst best þegar upplýsingum er haldið leyndum eða aðgangur almennings að þeim er torveldaður.

Í krafti leyndar

Í október 2012 lagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fram tillögu í borgarstjórn um að borgin opnaði bókhaldið. Tillagan var samþykkt og ákveðið að skipa starfshóp sem fengi það verkefni að leggja fram tillögur um hvernig best væri að standa að verki. Starfshópurinn átti að skila af sér fyrir einu ári en ekkert bólar á tillögum, enda var hópurinn aldrei skipaður. Þess í stað voru nokkrir embættismenn borgarinnar settir í að ræða málin nokkrum dögum áður en tillögurnar áttu að liggja fyrir.

Meirihluti Besta flokks [Bjartrar framtíðar] og Samfylkingar hefur þannig sýnt að hann hefur ekki áhuga á gagnsæi í fjármálum borgarinnar – slíkur áhugi er aðeins í orði en ekki á borði. Opið bókhald hentar ekki meirihluta borgarstjórnar, allra síst í aðdraganda kosninga. Þetta er enn ein áminningin um nauðsyn þess að breyta upplýsingalögum með þeim hætti sem hér hefur verið skrifað um.

Það er í krafti leyndar sem farið er út af sporinu þegar tekin er ákvörðun um ráðstöfun almannafjár. Sagan úr Seðlabankanum er eitt dæmið.

Hér skal það fullyrt að hvorki seðlabankastjóra né formanni bankaráðs hefði komið til hugar að láta bankann greiða lögfræðikostnað þess fyrrnefnda, ef reglur um opið bókhald hefðu gilt um bankann. Lögmaður Seðlabankans hefði aldrei gert þá kröfu fyrir Hæstarétti að seðlabankastjóri yrði dæmdur til að greiða allan lögfræðikostnað, ef það hefði legið ljóst fyrir hver hinn raunverulegi greiðandi væri. Slíkur málatilbúnaður hefði verið hrein blekking.