Hermanni Guðmundssyni er misboðið líkt og mörgum öðrum. Harðir ESB-sinnar nota fúkyrði og dylgjur í garð þeirra sem standa gegn því að Ísland gangi inn í Evrópusambandið.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, líkir félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum sem eru andvígir aðild að Evrópusambandið við svartstakka Mússólíní. Skilaboð varaformannsins fyrrverandi eru þau að yfirgnæfandi meirihluti sjálfstæðismanna séu fasistar.

Benedikt Jóhannsson líkir forystu Sjálfstæðisflokksins við kommúnista.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og meðlimur í samninganefnd við ESB, sakar Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins um ein stærstu „svik” í stjórnmálasögu Íslands!

Þorsteinn, Benedikt og Þorgerður Katrín segjast vera fulltrúar frjálslyndis og umburðarlyndis.

En Hermann Guðmundsson skrifar:

„Það er umhugsunarefni þegar fólk sem enginn hefur kosið gerir aðsúg að kosnum fulltrúum með fúkyrðum, uppnefningum, útúrsnúningum og háðsyrðum allt til að hafa áhrif á ákvarðanir þeirra.

Þetta er allt gert í nafni lýðræðisins.

Markmiðið er síðan að færa lýðræðið frá fólkinu til fulltrúa í Brussel sem enginn hefur kosið og ekki er hægt að fjarlægja með lýðræðislegum hætti.

Er furða að manni verði orða vant?”