Alþingi kemst ekki hjá því að gera róttækar breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Reynslan síðustu ár er með þeim hætti að við óbreytt ástand verður ekki unað, ekki ef ætlunin er að ná árangri í uppbyggingu efnahagslífsins. Þó að ekki væri nema af þessum ástæðum er það rétt og lögum samkvæmt að auglýsa stöðu seðlabankastjóra, en fimm ára skipunartími Más Guðmundssonar rennur út 20. ágúst næstkomandi.

Allt frá því að lögum um Seðlabankann var breytt í febrúar 2009 hefur bankinn sætt gagnrýni, ekki aðeins frá stjórnmálamönnum heldur ekki síður frá sérfræðingum og fjölmiðlum. Upplýsingaöflun bankans hefur verið sögð brothætt og gölluð. Sala eigna hefur vakið upp alvarlegar spurningar, framkvæmd hafta falið í sér óþolandi mismunun og hávaxtastefnan hefur verið harðlega gagnrýnd. Þáttur Seðlabankans í Icesave-deilunni er svo sérstakur kafli.

Höft og sala eigna

Í ársbyrjun 2011 seldi Seðlabankinn meirihluta í Sjóvá en Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) hélt um 73% hlut í tryggingafélaginu. ESÍ eignaðist hlutabréfin eftir nokkrar fjármálalegar fléttur en tryggingafélagið sigldi í strand. Bæði fyrir og eftir söluna kom fram hörð gagnrýni á vinnubrögð Seðlabankans við söluna. Þá greip bankinn til talnaleikja þar sem gefið var í skyn að tap bankans væri minna en það var í raun.

Framkvæmd fjármagnshafta hefur verið harðlega gagnrýnd. Innlendir fjárfestar sitja ekki við sama borð og erlendir eða íslenskir fjárfestar sem eiga erlent fé. Þeir síðarnefndu fá 20% forskot. Eftirlit með höftunum hefur vakið upp efasemdir um að jafnræðis sé gætt og kærum Seðlabankans vegna meintra brota hefur verið vísað frá. En einstaklingar og fyrirtæki eru varnarlaus og eiga erfitt með að standa á rétti sínum og fá upplýsingar um hvað þeim er gefið að sök.

Peningastefna Seðlabankans sætir einnig stöðugt meiri gagnrýni enda eiga margir erfitt með að skilja hávaxtastefnu bankans með krónu í höftum og litla fjárfestingu.

Alvarlegar skekkjur

En hörðust hefur gagnrýnin á Seðlabankann verið vegna þess hlutverks sem forráðamenn bankans ákváðu að leika í Icesave-deilunni. Þá fór hnífurinn vart á milli bankans og vinstriríkisstjórnarinnar í viðleitninni við að koma Icesave-skuldum Landsbankans yfir að herðar íslensks almennings.

Alvarlegar skekkjur í mati Seðlabankans á erlendri stöðu þjóðarbúsins nýttust til að færa rök fyrir því að ríkissjóður réði ágætlega við að greiða Icesave-kröfuna án þess að fjármálalegum stöðugleika væri stefnt í hættu. Sérfræðingar utan bankans vöruðu við og bentu á að vandinn væri stórlega vanmetinn.

Í áróðursstríðinu fyrir því að samþykkja ólögvarða kröfu var Seðlabankinn í fararbroddi. Í álitsgerð sem bankinn sendi frá sér rúmlega mánuði eftir að Svavars-samningurinn var undirritaður sagði meðal annars:

„Ef áhersla verður lögð á hagvöxt þurfa efnahagsleg áföll að dynja yfir til að Icesave-skuldbindingar einar og sér leiði til þess að ríkissjóður geti ekki staðið við erlendar skuldbindingar sínar.“ Samkvæmt mati Seðlabankans var ríkissjóður að taka á sig 340 milljarða króna skuldbindingu vegna Svavars-samningsins.

Sem betur fer

Seðlabankastjóri hélt áfram að berjast fyrir Icesave og á ársfundi bankans í apríl 2011 sagði Már Guðmundsson:

„Verði niðurstaðan já munu haftaafnám og lántökur ríkissjóðs ganga fram eins og áformað er. Ef Icesave-samningunum verður hafnað eru hins vegar vísbendingar um að stóru bandarísku matsfyrirtækin tvö ákveði að setja lánshæfismat ríkissjóðs niður í spákaupmennskuflokk. Þá verður þyngra fyrir fæti varðandi erlenda lántöku ríkissjóðs og framgangur áætlunar um afnám gjaldeyrishafta myndi af þeim sökum ganga hægar. Óvissa er hins vegar um hversu sterk og langvinn þessi áhrif yrðu.“

Almenningur féll ekki fyrir röksemdunum ríkisstjórnarinnar eða Seðlabankans og neitaði í tvígang að axla skuldir einkafyrirtækis. Sem betur fer og 28. janúar á liðnu ári hafnaði EFTA-dómstóllinn öllum kröfum í Icesave-málinu. Í lok apríl gaf Seðlabankinn síðan út skýrslu um fjármálastöðugleika en í formálsorðum sagði Már Guðmundsson:

„Í sem stystu máli felst vandinn í því að miðað við óbreytt gengi nægir fyrirsjáanlegur undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára ekki til að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána. Því mun íslenska þjóðarbúið ekki skapa nægan gjaldeyri að óbreyttu gengi krónunnar til að losa út krónueignir búa gömlu bankanna til erlendra kröfuhafa og það jafnvel þótt þær yrðu verðlagðar mjög lágt í erlendum gjaldmiðlum.“

Sem sagt:

Í nær fjögur ár hafði Seðlabankinn haldið því fram að fjármálalegum stöðugleika Íslands væri ekki stefnt í hættu með Icesave-samningunum, ríkissjóður réði við byrðarnar en eftir dóminn kom bankinn fram og varaði við því að íslenskt þjóðarbú geti ekki að óbreyttu staðið undir skuldbindingum sínum!

Þegar sagan allt frá 2009 er höfð í huga er vandséð hvernig stjórnvöld komast hjá því að auglýsa stöðu seðlabankastjóra og stokka síðan upp spilin með nýjum lögum, þar sem m.a. er litið til sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.