Fjölmiðlar hafa ekki sama áhuga á gengi kvenna í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins og áður. Pólitískir andstæðingar sjálfstæðismanna tala ekki lengur um hve „skelfilegt“ það er að karlar skipi efstu sæti á framboðslistum. Gagnrýnisraddirnar hafa þagnað sem er skiljanlegt.

Á þessu ári hafa sjálfstæðismenn haldið prófkjör í sex sveitarfélögum til að velja einstaklinga á framboðslista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í lok maí. Í Hafnarfirði var Rósa Guðbjartsdóttir kjörin oddviti. Hafnfirskir sjálfstæðismenn bjóða fram sterkan lista þar sem fjórar konur verma sex efstu sætin. Í Kópavogi náðu konur góðum árangri um liðna helgi. Fjórar konur í sex efstu sætunum.

Ef sjálfstæðismenn fylgdu sömu reglum og vinstriflokkarnir hefði hlutur kvenna ekki orðið sá sem kjósendur ákváðu í Hafnarfirði og Kópavogi eða í öðrum sveitarfélögum. Konum hefði verið ýtt niður og karlar færðir upp.

Þvingun forræðishyggjunnar

Það er merkilegt hvernig vinstriflokkarnir vilja þvinga fram það sem pólitískur rétttrúnaður kallar jafnrétti á framboðslistum. Samfylkingin leggur áherslu á svokallaða fléttulista þar sem karl skal koma á eftir konu og kona á eftir karli. Sanntrúaðir vinstrimenn treysta flokksmönnum ekki til að velja „rétt“ á framboðslista og því er niðurstöðum prófkjara vikið til hliðar ef nauðsyn krefur. Karli er meinað að setjast í fjórða sæti í samræmi við niðurstöðu í prófkjöri flokksins í Reykjavík síðastliðinn laugardag. Undir merkjum forræðishyggjunnar er það óhugsandi að tveir karlar skipi efstu sæti framboðslista og útilokað er að tvær konur leiði framboð stjórnmálaflokks.

Þannig knýja vinstrimenn fram vilja sinn á sama tíma og sjálfstæðismenn telja mikilvægt að kjósendur í prófkjörum fái að ráða. Fléttulistar og kynjakvótar eru leið vinstrimanna að jafnrétti. Hægrimenn treysta hins vegar kjósendum til að velja einstaklinga, vega þá og meta út frá hæfileikum þeirra og getu til að berjast fyrir stefnumálum flokksins.

Þess vegna eru fjórar konur í sex efstu sætunum í Hafnarfirði og í Kópavogi, og þrjár konur eru meðal sex efstu í Mosfellsbæ, Grindavík og á Ísafirði. Þessar 17 konur voru ekki valdar til forystu vegna þess að þær eru konur, heldur vegna þess að almennir sjálfstæðismenn treysta þeim og studdu í prófkjörum. Reglur forræðishyggjunnar innan Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefðu komið í veg fyrir framgang margra þessara kvenna, líklega í nafni kvenfrelsis.

Njóta ekki forréttinda

Eflaust halda andstæðingar Sjálfstæðisflokksins áfram að kyrja sönginn um að konur eigi erfitt uppdráttar innan Sjálfstæðisflokksins, líkt og gert var eftir prófkjör flokksins í Reykjavík í nóvember. Þá var það „skelfilegt“ að þrír karlar skyldu fá stuðning í þrjú efstu sætin. Og auðvitað skipti engu að fjórar konur voru kosnar í næstu sæti eða að Ásgerður Halldórsdóttir fengi afgerandi stuðning í oddvitasæti sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi í prófkjöri sjö dögum áður.

Um það verður hins vegar ekki deilt að konur hafa þurft að hafa fyrir hlutunum innan Sjálfstæðisflokksins en ólíkt kynsystrum sínum í vinstriflokkunum njóta þær ekki forréttinda – ekki frekar en karlarnir. Öflugar konur með skýrar hugmyndir hafa rutt brautina innan Sjálfstæðisflokksins. Ekki í krafti kynferðis heldur með dugnaði og af stefnufestu. Þetta eiga Auður Auðuns, Ragnhildur Helgadóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ólöf Nordal, Hanna Birna Kristjánsdóttir og margar fleiri konur sameiginlegt.

Ekki lengur fréttnæmt

Sjálfstæðismenn héldu prófkjör í fimm sveitarfélögum síðastliðinn laugardag. Yfir 5.500 stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði og tóku þátt í að ákveða framboðslista.

Í Kópavogi lögðu 2.872 flokksmenn leið sína á kjörstað. Sama dag greiddu 1.732 Samfylkingar atkvæði í prófkjöri í Reykjavík eða 1.140 færri en í Kópavogi. Þátttakan í Reykjavík var 60% af fjöldanum í Kópavogi. Í Reykjavík búa nær fjórum sinnum fleiri en í Kópavogi.

Þegar sjálfstæðismenn héldu prófkjör í Reykjavík í nóvember síðastliðnum olli þátttakan vonbrigðum og vakti athygli fjölmiðla og stjórnmálaskýrenda. Þó kusu nær þrisvar sinnum fleiri í því prófkjöri en hjá Samfylkingunni um liðna helgi. Enginn fjölmiðill hefur talið dræma kjörsókn í prófkjöri Samfylkingarinnar – þar sem úrslitin voru „lagfærð“ samkvæmt reglum – vera efni í þokkalega frétt. Ekki frekar en fjölmiðlum finnst það einnar messu virði að vekja athygli á góðum árangri kvenna í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins á undanförnum vikum. Árangur þriggja karla í Reykjavík vakti meiri athygli.

Margir sjálfstæðismenn eru sannfærðir um að fréttamat fjölmiðla endurspegli neikvæðni margra þeirra í garð Sjálfstæðisflokksins. En kannski er önnur nærtækari skýring á fréttastefnu fjölmiðla það sem af er þessu ári:

Sterk staða kvenna innan Sjálfstæðisflokksins þykir ekki lengur fréttnæm.