Líklegast var ekki hægt að búast við því að ný ríkisstjórn gæti á fyrstu mánuðunum kveðið niður allar vofur vinstristjórnar Samfylkingar og Vinstri-grænna. Draugarnir eru of margir og sumir of öflugir til að sanngjarnt sé að ætlast til að þeim verði öllum grandað á nokkrum mánuðum. Aðrir eru veikir og aðeins til leiðinda, eru fyrir og draga athyglina frá því sem skiptir máli. Þetta á t.d. við um Brussel-drauginn, sem enn kúrir úti í horni Samfylkingarinnar. Ekki þarf nema einfalda ákvörðun stjórnarflokkanna til að kveða þann skratta niður. Gamall fjandsemisdraugur í garð atvinnulífsins og erlendrar fjárfestingar var vakinn upp í tíð vinstristjórnarinnar. Uppvakningur sem er illa við hagvöxt. Helsti ráðgjafi Steingríms J. Sigfússonar gladdist og hélt því fram á bloggsíðu sinni í febrúar 2009 að „til lengri tíma hafi erlendar fjárfestingar ekki áhrif á atvinnustig og fjölda starfa í landinu“.

Og allir skattadraugar vinstrimanna voru vaktir upp. Uppundir tvö hundruð á liðlega fjórum árum. Steingrímur J. segir að með því hafi Vinstri-grænir „unnið sinn stærsta hugmyndafræðilega sigur“ auk sigra í umhverfismálum. Í bókinni Frá hruni og heim segir fyrrverandi formaður VG að skattkerfinu hafi verið breytt „nánast eftir okkar eigin formúlu og að grunni til í samræmi við hugmyndir sem ég teiknaði upp í bók sem ég skrifaði 2006“. Hækkun skatta og gjalda á öllum sviðum var því ekki nauðsynleg til að afla veikburða ríkissjóði tekna heldur var hún í samræmi við sósíalíska hugmyndafræði.

Draugar munu falla

Það er gegn þessum draugum sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verður að berjast. Með róttækum uppskurði á öllu skattakerfinu, flötu og einföldu tekjuskattskerfi, lægra tryggingagjaldi, lægri og einföldum tollum, afnámi vörugjalda og hófsömu auðlindagjaldi verða nær tvö hundruð sósíalískir draugar kveðir niður. Fleiri draugar falla í kjölfarið.

Draugur vantrausts gengur enn laus. Hann nærðist á innantómum loforðum vinstristjórnarinnar í atvinnumálum. Í stefnuyfirlýsingu 2009 var heitið sex þúsund nýjum störfum, þar af um tvö þúsund störfum „í orkufrekum iðnaði“, samkvæmt forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í mars sama ár. Í október 2010 lofaði ríkisstjórnin þrjú til fimm þúsund störfum en í mars 2011 var loforðið komið niður í rúmlega tvö þúsund störf. Efndir voru litlar – fjölskyldur og einstaklingar flúðu land. Frá 2009 til 2012 voru brottfluttir umfram aðflutta um 8.700. Fólksflóttinn jafngilti því að allir íbúar Vestmannaeyja, Sandgerðis og Grindavíkur hefðu yfirgefið landið.

Þúsundir Íslendinga sem leitað hafa lífsviðurværis í öðrum löndum, þúsundir landsmanna sem eru atvinnulausir bíða þess að hjól atvinnulífsins snúist hraðar og fjöldi vel launaðra starfa verði til. Það gerist ekki með yfirlýsingum og loforðum heldur markvissum aðgerðum sem efla atvinnulífið og þá ekki síst sjálfstæða atvinnurekandann.

Vofur vinstri ríkisstjórnarinnar herja á sjálfstæða atvinnurekandann. Uppvakningar opinbers eftirlits og regluverks hafa síður en svo verið felldir, þvert á móti eflast þeir með hverjum mánuðinum. Sumir voru áður óþekktir en aðrir gamlir kunningjar.

Skjaldborgardraugar

Vofur svikinna loforða eru á sveimi á flestum heimilum landsins. Skjaldborgardraugar brostinna vona og svikinna loforða hrella enn þúsundir fjölskyldna sem nú eygja þó von um að ný ríkisstjórn gefi þeim tækifæri og nauðsynleg verkfæri til að granda þeim endanlega. Þar duga ekki einfaldar leiðréttingar ef ekki fylgir góður hagvöxtur með aukinni atvinnu, betri launum og hærri ráðstöfunartekjum með lækkun skatta.

Skuldadraugur ríkisins er á kreiki og ógnar velferðarkerfinu í heild sinni, en heilbrigðiskerfinu sérstaklega. Aðeins með aðhaldi í ríkisrekstri, uppstokkun í stjórnkerfinu, hallalausum fjárlögum og sölu ríkiseigna verður hægt að hafa betur í glímunni við skuldadrauginn.

Draugsi rangrar forgangsröðunar lifði góðu lífi í skjóli ríkisstjórnar sem kenndi sig við norræna velferð. Starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu var fækkað en starfsmönnum stjórnarráðsins fjölgað. Draugsi fitnaði vel á árunum frá hruni til 2012 þegar heilbrigðisútgjöld hins opinbera voru skorin niður um liðlega 16 þúsund milljónir króna. Núverandi ríkisstjórn hefur þegar hafist handa við að særa draugsa með því að auka útgjöld ríkisins til heilbrigðismála um liðlega 10 milljarða á þessu ári.

Draugabanar

Draugur öfundar, tortryggni, illmælgi og hefndar gengur enn laus á sérstökum fóðrum, stundum í skjóli ríkisins. Draugur mannorðsfórna og atvinnumissis lifir góðu lífi við Arnarhól og nágrenni. Um 250 milljarða króna draugur sveimar um ganga Landsbankans. Hann verður ekki kveðinn niður nema með erlendum gjaldeyri sem er af skornum skammti.

Barátta við drauga vinstristjórnarinnar tekur tíma og hún verður oft erfið, en hjá henni verður ekki komist. Við uppskerum betra, skemmtilegra og heilbrigðara mannlíf, að ekki sé talað um bætta fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.

Vonandi geta flestir Íslendingar tekið þátt í baráttunni og gerst draugabanar næstu mánuðina.