Einkafyrirtæki hefur óskað eftir leyfi til að safna lífrænum úrgangi frá heimilum í Reykjavík, en fær ekki. Borgarráð hafnaði beiðninni á þeirri forsendu að um grunnþjónustu sé að ræða sem sveitarfélag eigi að sinna. Engu skiptir þótt Reykjavíkurborg sinni ekki þessari þjónustu, sem sögð er grunnþjónusta; einkafyrirtæki skal ekki fá leyfið.

Þetta kom fram í athyglisverðri frétt Björns Malmquist, fréttamanns í fréttum Ríkisútvarpsins á sunnudag. Að minnsta kosti tvö ár eru þangað til borgin getur sinnt þessari „grunnþjónustu” en Sorpa áformar að reisa þriggja milljarða króna endurvinnslustöð fyrir lífrænan úrgang. Í frétt Ríkissjónvarpsins segir að endanleg ákvörðun verði tekin eftir nokkrar vikur:

„En á sama tíma geta heimili á höfuðborgarsvæðinu ekki skilað frá sér lífrænum úrgangi á sama hátt og til dæmis á Akureyri og Dalvík, þar sem þetta sorp er nýtt til moltugerðar.Lífrænn úrgangur á höfuðborgarsvæðinu er reyndar bara tekinn frá fyrirtækjum, ekki heimilum. Þaðan er hann fluttur í vinnslustöð Gámaþjónustunnar í Hafnarfirði þar sem hann verður að moltu.”

Gámaþjónustan hefur „sóst eftir því að safna lífrænum úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu en fær ekki leyfi til þess”.  Í viðtali við Ríkissjónvarpið sagði Elías Ólafsson, stjórnarmaður fyrirtækisins:

„Við höfum reynslu af því, til dæmis á Norðurlandi, ekki síst á Akureyri, þar sem þetta gengur ljómandi vel, og því teljum við að þetta sé eðlilegt skref að stíga hérna í Reykjavík, og það er eftirspurn eftir því.“

Það er eitthvað öfugsnúið við sorphirðu í höfuðborginni, skiptir engu hvort mælt er í metrum eða pappír. Merkilegt er að meirihluti borgarráðs sem hefur reynt að telja borgarbúum trúum um að þar séu gildi umhverfisverndar í hávegum, skuli koma í veg fyrir að einkafyrirtæki geti sinnt endurvinnslu sem hið opinbera sinnir ekki og mun ekki sinna a.m.k. næstu árin. Það er talið betra að urða lífrænan úrgang í nokkur ár í viðbót í stað þess að gefa einkafyrirtæki tækifæri til að endurvinna hann og nýta til moltugerðar. Engu er líkara en að einstaklingar og fyrirtæki þeirra megi ekki koma að náttúruvernd og endurvinnslu.

Þannig eru vegir umhverfisverndar órannsakanlegir.