Við þráum að sjá meira íslenskt efni, og við erum spæld af því það gleymdist að varðveita þáttinn þar sem Halldór Laxness spurði hvort ekki mætti lyfta umræðunni á hærra plan. Við vildum óska þess að það væru til fleiri þættir með Málfríði og Þórbergi. Ég sé fyrir mér RÚV sem framleiðir fjölbreytt íslenskt efni og matbýr sinn stórkostlega bakklista, svo ég tali nú sem sá gamli forleggjari sem ég er. Og heldur úti góðri fréttastofu. Gerist þetta, skiptir mun minna máli hvort það sé sjónvarp á hverjum degi eða útvarpað á mörgum rásum. Við munum í framtíðinni velja okkar dagskrá eftir hentugleika af vefnum. En það þarf einhver að sinna, markvisst og fyrir skattfé, íslenskri menningu, sögu og sköpun. Sé slík sýn til staðar, má alltaf lifa með tímabundnum sparnaði. Þetta finnst mér vera verkefnið sem bíður nýs útvarpsstjóra og stjórnar RÚV.

Halldór Guðmundsson forstjóri Hörpu í fésbókarfærslu 17. desember 2013.