Hafi menn haft siðferðilegar efasemdir um ákvarðanir vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, nýta menn fyrsta tækifærið sem gefst til að draga ákvarðarnir til baka – leiðrétta það sem gert var rangt.

Auðvitað getur það verið tímafrekt að lagfæra og bæta það sem miður hefur farið. Það er ekki einfalt að endurreisa skattkerfið eftir að það var eyðilagt. Að ná hallalausum fjárlögum – stoppa blæðinguna – er ekki vafningalaust eða létt verk, allra síst þegar tekjustofnar eru veikir og leiðrétta þarf forgangsröðun í útgjöldum ríkisins. Að skjóta styrkari stoðum undir fjárhag heimilanna er langt í frá auðvelt eftir tæp fimm ár brostinna vona og fyrirheita.

En á tæpum sjö mánuðum hefur ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tekist að rétta kúrsinn í mörgu. Fjárlög komandi árs verða hallalaus og þar með er lagður grunnur að stöðugleika og það sem skiptir ekki síður miklu; við munum ekki senda reikninginn til komandi kynslóða. Búið er að stíga fyrstu skrefin í lækkun skatta og tímabil „you ain‘t seen nothing yet-hótunarstefnunnar“ er að baki. Umfangsmiklar aðgerðir þar sem komið er til móts við heimilin hafa verið kynntar. Uppbygging heilbrigðiskerfisins er hafin með réttri forgangsröðun. Þannig má nefna fleiri dæmi.

Ávísun á vandræði

Í einu hafa ríkisstjórninni verið mislagðar hendur. Og kannski ætti engan að undra. Það er yfirleitt ávísun á vandræði þegar ekki er gengið hreint til verks. Í stað þess að slíta viðræðum um aðild að Evrópusambandinu með formlegum hætti, var ákveðið að gera á þeim hlé, sem fæstir vita hvað þýðir. Þannig hefur ríkisstjórnin skapað pólitíska óvissu, sem er með ólíkindum þegar haft er í huga að stjórnarflokkarnir eru báðir andvígir aðild.

Umræðan um IPA-aðlögunarstyrkina er birtingarmynd af pólitískri óvissu sem hefur verið búin til. Stjórnmálamenn sem eru andvígir ESB-aðild geta aldrei samþykkt að tekið sé við greiðslum sem eru tengdar aðildarumsókn – engu skiptir hversu góð verkefnin eru sem fjármögnuð eru með styrkjunum. Það hefði verið rétt, eðlilegt og sanngjarnt af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að gera ráðamönnum Evrópusambandsins grein fyrir því að Íslendingar tækju ekki við IPA-styrkjum, a.m.k. ekki á meðan hlé ríkir í viðræðum.

IPA-styrkirnir eru ekki aðeins dæmi um að menn geta ekki bæði átt og sleppt, heldur ekki síður hvernig trúverðugleiki skaðast, innanlands og utan.

Slitið með formlegum hætti

Stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar er að verða það æ betur ljóst hversu pólitískt mikilvægt það er að ganga hreint til verks gagnvart Evrópusambandinu. Það verður ekki gert nema aðildarviðræðunum sé slitið með formlegum hætti með samþykkt þingsályktunar. Slíkt er í takt við grunnstefnu beggja stjórnarflokkanna.

Þeir þingmenn, sem eru baráttumenn fyrir aðild að Evrópusambandinu, geta í framhaldinu lagt fram tillögu um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild. Með slíkri tillögu gæti formaður Samfylkingarinnar leiðrétt það sem miður fór í júlí 2009 þegar meirihluti Alþingis samþykkti að óska eftir aðild að Evrópusambandinu. Með klækjum og hrossakaupum var málið afgreitt. Um leið var felld tillaga um að bera aðildarumsóknina undir landsmenn í þjóðaratkvæði. Þeir sem hæst höfðu talað um beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur í mikilvægum málum komu í veg fyrir að kjósendur væru hafðir með í ráðum. Fyrirheit og samþykktir um beint lýðræði reyndust innantóm. Merkingarleysi fallegra loforða um þjóðaratkvæðagreiðslur var staðfest í tvígang í Icesave-deilunni.

Víti til varnaðar

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur vítin að varast frá valdatíma vinstri stjórnarinnar og þá ekki síst í utanríkismálum. Þar hafði Samfylkingin algjört forræði og lagði allt undir. En leiðin til Brussel reyndist torsótt og aðildarferlið komst í ógöngur þrátt fyrir yfirlýsingar um að Ísland fengi sérstaka flýtimeðferð. Í einfeldni sinni stóðu samfylkingar í þeirri trú að raunhæft væri að Ísland yrði fullgildur aðili að Evrópusambandinu þegar árið 2012.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hélt því fram í september 2011 að alla pólitíska forystu vantaði í umsóknarferlinu, enda stæði þáverandi ríkisstjórn ekki heilshugar að umsókninni. Hún taldi rétt að draga umsóknina til baka. Rúmum tveimur árum síðar er ljóst að mat Ingibjargar Sólrúnar var rétt.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var sjálfri sér sundurþykk. Lagt var af stað í vegferð til Brussel án þess að raunverulegur meirihluti væri fyrir henni á þingi og komið var í veg fyrir að þjóðin væri spurð álits. Þegar lagt er í vegferð illa nestaður er ekki von að vel fari.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verður að taka pólitíska forystu í aðildarmálum að Evrópusambandinu. Það er ekki hægt nema stefnan sé skýr og öllum ljós. Haltu-mér-slepptu-mér-biðstefnan mun fyrr eða síðar koma ríkisstjórninni í vandræði. Þess vegna verður að ganga hreint til verks.