„Þegar pólitík er annars vegar telja sumir þingmenn sjálfsagt að leggja til hliðar mannasiði,” skrifar Páll Vilhjálmsson á bloggsíðu sína en tilefnið er framganga Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, á Alþingi.Líkt og Eyjan greinir frá þá hófst umræða í þingsal um hvort halda ætti kvöldfund og kvartaði stjórnarandstaða yfir því að stjórnarliðar væru fámennir í þingsal á kvöldfundum.

Árni Páll Árnason beindi orðum sínum sérstaklega að Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar:

„Hún var vissulega líkamlega viðvarandi hér með hléum í gær og það er auðvitað heillandi fyrir okkur öll að fá að njóta flögrandi nærveru hennar hér um sali, þegar hún kemur hér inn í salinn af og til og sest hér með tölvuna með sér í þingsalinn.”

Páll Vilhjálmsson segir að stjórnarandstaðan, „með 12,9 prósent Samfylkingu í broddi fylkingar”, ætli sér að stjórna Alþingi, með „öflugum stuðningi RÚV, sem pískar upp stemninguna í þjóðfélaginu, reyna vinstriflokkarnir að ráða dagskrá málstofu þjóðarinnar”.

Vinstri menn virðast hafa horn í síðu Vígdísar Hauksdóttur, sem hefur verið óhrædd að leggja til atlögu við pólitískan rétttrúnað. Hún hefur haft pólitískt þrek til að segja skoðanir sínar og leggst ekki flöt þegar á hana er ráðist – og það stundum harkalega. Einhverju sinni var sagt af öðru tilefni að verið væri að „pönkast” á þekktum einstaklingi í viðskiptalífinu. Nú er „pönkast” á Vigdísi Hauksdóttur fyrir skoðanir og pólitíska sannfæringu.

Sjálfstæðismaðurinn Óðinn Þórisson segir að Vigdís fari í taugarnar á vinstra-liðinu og skrifar stutt og laggott á bloggsíðu sína:

„Glæsilegt”