Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, hefur lengi barist fyrir því að verðtryggð lán verði lækkuð. Ríkisstjórnin kynnti á laugardag aðgerðir í skuldamálum heimilanna sem virðast vera í takt við það sem Helgi hefur barist fyrir. Flokksformaður Helga hefur allt á hornum sér, formaður Vinstri grænna er fullur efasemda en Helgi Hjörvar þegir. Því er spurt: Hvar er Helgi Hjörvar?

Í ræðu og riti hefur Helgi ítrekað haldið því fram að nauðsynlegt sé að leiðrétta verðtryggð lán þeirra sem keyptu íbúð á árunum 2004 til 2008. Þar hefur hann tekið undir með þeim sem talað hafa um  forsendubrest. Helgi hefur lagt áherslu á að fara í víðtækar almennar skuldaleiðréttingar og leiðrétta eða bæta þannig verðbótaþátt lána heimilanna eftir hrun fjármálakerfisins. Þetta kemur m.a. skýrt fram í nýrri bók Össurar Skarphéðinssonar, Ári drekans:

,,Helgi Hjörvar fer í sinni ræðu alla leið gagnvart verðtryggingarhópnum. Hann fagnar dómnum og segir að í framhaldinu sé óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða sem komi til móts við það fólk sem keypti íbúðarhúsnæði á árabilinu 2004-2008 með verðtryggðum íslenskum lánum. Ummælin verða fyrsta frétt í sexfréttum RÚV og Helgi virðist búinn að negla flokkinn á sína línu.”

Þetta var fimmtudaginn 16. febrúar 2012. Færslan 17. febrúar er ekki síður athyglisverð:

„Viðburðaríkur dagur byrjar með miklum umræðum um gengislánadóminn þegar ríkisstjórnin kemur saman. Sterkar væntingar verðtryggða hópsins um svipaðar úrlausnir og gengislánahópurinn fékk með dómnum speglast í ræðum flestra. Ræða Helga frá í gær endurómar. Mönnum er ljóst að þingkosningarnar á næsta vori eru líklegar til að snúast um skuldamál verðtryggða hópsins ef ríkisstjórnin svarar væntingum þeirra ekki með einhverskonar aðgerðum.”

Og síðan segir Össur:

„Tvær leiðir standa einkum eftir í umræðunni. Skattaívilnanir og sjóður sem keypti upp verðtryggð lán þeirra verst stöddu, eða hluta þeirra, og bankarnir taki part af niðurfellingunni á sig. Ég vil sækja fjármagn í skattlagningu á fjármálastofnanir. … Ég kveð upp úr að ríkisstjórnin verði að skoða alla kosti í stöðunni, kanna hvort hugsanlegt sé að fara blöndu af þeim og meta svo hvað hægt er að gera út frá stöðu ríkissjóðs. Ef niðurstaðan er sú að við höfum ekkert svigrúm þá verði að segja þjóðinni það með rökum.“

Í grein sem birtist í Fréttablaðinu 15. júní 2010 undir fyrirsögninni; Sanngjarnar skuldaleiðréttingar, segir Helgi Hjörvar meðal annars:

„Alþingi afgreiðir nú endurbætt og vönduð úrræði fyrir verst settu skuldarana. Einar sér eru slíkar lausnir þó líkt og að bera sólarljós inn í gluggalaust hús, því hætt er við að án víðtækra almennra skuldaleiðréttinga bætist við ný vandamál jafn harðan og leysist úr hinum eldri. Þess vegna er fagnaðarefni að fyrir Alþingi liggur einnig stjórnarfrumvarp félagsmálaráðherra um almennar aðgerðir vegna bílalána. Enn hefur þó ekki náðst samstaða um almennar aðgerðir vegna húsnæðislána almennings sem hafa ýmist orðið fyrir gengishruni eða verðbólgusprengju.“

Síðar segir Helgi:

„Skuldaleiðréttingar íslenskra húsnæðislána hafa hinsvegar alltaf strandað á því að lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður yrðu að taka þátt í þeim. Það gæti annarsvegar leitt til skerðingar lífeyris sem enginn vill og hinsvegar gæti ríkið ekki lagt Íbúðalánasjóði til það sem þarf.“

Og Helgi heldur áfram:

„Seðlabanki Íslands gerði nýverið hagstæðan samning við Seðlabankann í Lúxemborg um kaup á skuldabréfapakka Avens sem innihélt íslensk íbúðabréf og innistæður. Skuldabréfin voru svo seld lífeyrissjóðunum og er talið hafa styrkt tryggingafræðilega stöðu sjóðanna um 1-2%, eða á þriðja tug milljarða. Stærstu sjóðirnir eru með liðlega 150 milljarða í húsnæðislánum til einstaklinga en nærri lætur að ávinningurinn af Avens samningnum gæti staðið undir 10-15% lækkun húsnæðislána lífeyrissjóðanna án þess að skerða þyrfti lífeyrisréttindi. Ekki getur talist óeðlilegt að ávinningur sjóðanna af íbúðabréfaviðskiptum renni til skuldaleiðréttinga húsnæðislána. Ábati ríkissjóðs af samningnum var ekki langt frá því sem lífeyrissjóðirnir nutu. Þar sem fyrst og fremst er um hagnað af íbúðabréfaviðskiptum að ræða væri ekki óeðlilegt að láta Íbúðalánasjóð njóta góðs af með sömu rökum og að ofan. Ef frekari eiginfjárframlög þyrfti til sjóðsins eða bankanna, þá er rétt að hafa í huga að endurfjármögnun bankakerfisins varð hátt í 200 milljörðum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá má skoða ýmsar aðrar leiðir til eflingar Íbúðalánasjóði, s.s. hærri vaxtamun, merkja honum tekjur af sérstökum bankasköttum, skattleggja séreignasparnað og leggja í sjóðinn, o.s.frv. Þegar saman er lagt afskriftasvigrúm bankanna, ávinningur lífeyrissjóðanna og ríkissjóðs af Avens samningnum, auk annarra leiða er ljóst að skapa má allt að 100 milljarða svigrúm til almennra aðgerða.“

Síðar í greininni skrifar Helgi Hjörvar:

„Sumir hafa haft áhyggjur af því að almennar aðgerðir nýtist líka fólki sem ekki þarf á að halda. Þá er þrenns að gæta. Í fyrsta lagi hefur það fólk líka sætt óréttmætu vaxtaokri. Í öðru lagi, þó fólk eigi eignir umfram skuldir hefur auk tæplega 30% verðbólguskots, kaupmáttur rýrnað um 13% frá ársbyrjun 2008. Í þriðja lagi verður hægt að skattleggja þá sem við teljum ekki að eigi að njóta almennra aðgerða. Þeir sem hafa haft áhyggjur af skuldaradekri ættu að hafa í huga að án almennra aðgerða komum við einkum til móts við þá sem gengu lengst í skuldsetningu, en venjulegt vinnandi fólk sem hélt sig innan hámarkslána Íbúðalánasjóðs fær engan stuðning þó lánin hafi hækkað um tæp 30% og kaupmáttur rýrnað um 13%. Það væru ekki góð skilaboð inn í framtíðina að skuldagleðin ein njóti skilnings.

Við munum ekki greiða úr fjármálum heimila hratt og vel nema saman fari greiðsluerfiðleikaúrræði og almennar aðgerðir sem skapa fólki almenn skilyrði. Stjórnvöld og fjármálakerfið þurfa líka að viðurkenna ábyrgð sína á vanda heimila. Skuldaleiðrétting er áþreifanleg leið til þess og mikilvægt skref til að byggja upp traust og ná sáttum í íslensku samfélagi.“

Í kjölfar dóms Hæstaréttar um gengislán segir Helgi í samtali við Morgunblaðið 21. júní 2010:

„Ég hef talað fyrir sanngjörnum, almennum skuldaleiðréttingum. Bæði hvað varðar gengistryggðu lánin og verðtryggðu lánin. Það áfall sem riðið hefur yfir er ekki bara hægt að leggja á lántakendurna. Því verða aðilar að deila með sér. Um leið er ekki hægt að ætlast til þess að lánveitandinn beri það að fullu.“

Síðar segir Helgi:

„Dómur Hæstaréttar leysir úr þessu fyrir mjög stóran hóp en hann mun magna upp umræðuna um verðtryggðu lánin. Þar hafa, auk mjög ríkulegra raunvaxta, lánin hækkað um nærri 30% á ríflega þremur árum með tilvísun til verðlagsþróunar. Á þeim tíma hefur hins vegar veðandlagið, það er að segja íbúðirnar sem lánað var út á, ekki tekið neinum verðlagshækkunum, heldur yfirleitt þvert á móti.

Á sama tíma er fólk að taka á sig 13% kaupmáttarrýrnun. Almennt má síðan segja að það sé mikilvægt að það séu ekki þeir sem tóku áhættusömustu lánin eða gengu lengst í skuldsetningu sem einir njóti aðgerða á þessum erfiðum tímum.

Venjulegt, vinnandi fólk sem hélt sig við íslensk lán og innan við hámark Íbúðalánasjóðs hefur líka margt orðið fyrir miklum hækkunum og viðbúið að krafan um aðgerðir fyrir það verði þyngri við þetta.”

Helgi Hjörvar tók undir hugmyndir um lækkun verðtryggðra lána í Silfri Egils 19. febrúar 2012.  Þar sagði hann að koma yrði á móts við þá sem hefðu tekið verðtryggð lán. Hann minnti á að í greinargerð matsfyrirtækisins Fitch hefði sérstaklega verið tekið fram að skuldir heimilanna væru enn of miklar og þær yrði að lækka.

Helgi taldi hins vegar nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að almennar aðgerðir til hjálpar þeim sem tóku verðtryggð lán kostuðu mikla fjármuni. Þeir sem yrðu að bera kostnað af aðgerðunum væru lífeyrissjóðirnir, fjármálakerfið og skattgreiðendur.

Helgi var á því að mikilvægast væri að hjálpa þeim sem keyptu húsnæði á árunum 2004-2008 þegar fasteignabólan hefði verið í hámarki og lánin hækkað vegna verðbólgu á árunum 2009-2010. Í Kastljósþætti 27. febrúar 2012 ræddi Helgi Hjörvar við Andreu Ólafsdóttur, formann Hagsmunasamtaka heimilana. Þá ítrekaði Helgi að hann vildi færa niður skuldir þeirra sem tóku verðtryggð lán á árunum 2004-2008 og fjármagna niðurfærsluna meðal annars með því að innleysa skatttekjur af viðbótarlifeyrissparnaði.

Eftir síðustu kosningar var Helgi sjálfum sér samkvæmur og í umræðum á þingi – 13. júní 2013 – um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sagði hann:

„Í öðru lagi spurði ég hvort ekki væri öruggt að bæta ætti fólki þann verðbótaþátt lána sinna eftir hrun sem orsakaðist af verðbólgu umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. Það er leiðrétting á svokölluðum forsendubresti eins og talað hefur verið um. Hæstv. forsætisráðherra dró fram að það sem um væri að ræða væri það sem væri umfram vikmörk peningastefnunnar. Það eru þá 4% á ári, sú verðbólga sem væri umfram þar.

Ég fagna því að það er þá alveg skýrt að það er það sem á að bæta fólki eða leiðrétta hjá fólki, verðbótaþátturinn sem er umfram þessi 4%. Þá veit fólk hvað það er sem þingmenn stjórnarflokkanna hafa tekið sér fyrir hendur að gera og þarf ekki að velkjast í vafa um þær upphæðir sem það má eiga von á að verði í leiðréttingum. Það er þó ástæða til að halda því til haga að í tillögunni er gert ráð fyrir því að það geti orðið þak á leiðréttingunni. Ég held að það sé algerlega málefnalegt sjónarmið og ég fagna því í raun vegna þess að ég held að það væri ákaflega mikið óráð ef hér væru einfaldlega greiddar út úr ríkissjóði óendanlegar upphæðir til allra.“

Helgi undirstrikaði að hann hefði haft djúpa sannfæringu fyrir því að í svona lagfæringu ætti að fara:

„Það fólk varð sannarlega fyrir þremur áföllum í senn, sannarlega fyrir forsendubresti og það hefur lengi verið eindregin sannfæring mín. Ég hef ítrekað flutt um það tillögur, þó að þær hafi ekki náð fram að ganga hjá meiri hlutanum hér á síðasta kjörtímabili, að þessi hópur þyrfti leiðréttingar við vegna þess að stjórnmálin komu inn á markaðinn í ágúst 2004 með algerlega óábyrgar aðgerðir, 90% húsnæðislán sem Framsóknarflokkurinn hafði í kosningunum áður lofað til að ná góðri kosningu. Þau var alger skyssa í efnahagsmálum sem á örskömmum tíma leiddi til þess að fyrir efnahagshrunið voru íslensk heimili orðin þau skuldsettustu í heimi vegna 90% lána Framsóknarflokksins, þau skuldsettustu í heimi vegna þess að hér var peningum dælt endalaust: Allt fyrir alla. Menn þurfa að læra af þeirri reynslu og gæta sín á því að fara ekki aftur í þá vegferð að gera allt fyrir alla.“

Það er því beðið eftir að Helgi Hjörvar komi fram og segi sitt álit á aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skuldamálum.