Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hugleiðir að draga Davíð Þór Jónsson, fræðslufulltrúa Þjóðkirkjunnar, fyrir dómstóla. Slíkt samræmis ekki pólitískri rétthugsun. Samkvæmt henni er heimilt að ráðast á framsóknarmenn með dylgjum og rógi. Í hugum margra sem aðhyllast hina pólitísku rétthugsun njóta framsóknarmenn jafnvel minna skjóls en sjálfstæðismenn. Allt er leyfilegt til að koma á þá höggi.

Davíð Þór Jónsson skrifaði pistil á vefsíðu sína daginn áður en landsmenn gengu að kjörborði þar sem Ólafur Ragnar Grímsson tryggði sér endurkjör í fimmta sinn. Ólafur Ragnar var búinn að vinna sér óhelgi og því var allt leyft. Talið eðlilegt að kalla hann lygara og hlandbrunna rógtungu. Stuðningsmenn forsetans nutu heldur ekki friðhelgi. Allt var leyfilegt.

Í pistlinum lýsti Davíð Þór forsetanum með þessum hætti:

„Lygar og rógur eru ekki styrkleikamerki, heldur þvert á móti veikleikamerki. Lygarinn og rógtungan stendur alltaf uppi á endanum afhjúpaður, berrassaður, hlandbrunninn og flengdur af sinni eigin framgöngu. Illu heili benda skoðanakannanir ekki til að það muni gerast á morgun, þótt enn sé von. En það mun gerast.

Einhverjum kann að finnast ég viðhafa fullstór orð með því að kalla forsetann lygara og rógtungu. En ég kann engin önnur til að lýsa framgöngu hans síðan hann hóf baráttu sína fyrir endurkjöri.“

Til að undirstrika fyrirlitningu sína á forsetanum var nauðsynlegt að setja fram dylgjur og róg um stuðningsmenn hans. Um Guðna Ágústsson skrifaði fræðslufulltrúi Þjóðkirkjunnar:

„Hver stóð við hlið hans þegar hann lýsti yfir framboði (eða hvort það var þegar hann tók við 75% af þeim fjölda undirskrifta sem til stóð að safna til að skora á hann að gefa kost á sér til endurkjörs)? Það var Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, stjórnarmaður í Heimssýn (samtökum gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið) og félagi til margra ára í nýnasistahreyfingunni „Norrænt mannkyn“ að sögn tveggja formanna þeirra miður geðslegu samtaka.“

Það er skiljanlegt að Guðni Ágústsson skuli hugleiða að leita réttar síns fyrir dómstólum. Hitt er annað hvort það sé skynsamlegt. Davíð Þór mun ekki skrifa sögu Guðna og enginn réttsýnn maður leggur nokkurn trúnað á skrif fræðslufulltrúans.

Hitt er annað, hvort það sé við hæfi að starfsmaður Þjóðkirkjunnar gangi fram með þeim hætti sem Davíð Þór gerir. Eitt er hafa skoðanir og setja þær fram. Annað er að ganga fram með þeim hætti sem Davíð Þór gerir. Það mun að minnsta kosti ekki auka traust á Þjóðkirkjunni eða efla trú almennings á þessari mikilvægu stofnum. En þó ætti það að vera eitt helsta hlutverk fræðslufulltrúa. Þegar starfsmaður gengur gegn hagsmunum vinnuveitanda er fá úrræði en eitt augljóst.

Hér skal einu haldið fram: Þeir sem nú gagnrýna Guðna Ágústsson fyrir að hugleiða lögsókn, hefðu aldrei setið undir því að vera kallaðir nýnasistar – þeir hefðu mótmælt því að vera sagðir stalínistar – eða kenndir við önnur mestu ómenni sögunnar. Þeir hefðu ekki aðeins mótmælt heldur stefnt viðkomandi fyrir dóm. Og enginn hefndarhugur hefði verið nefndur.