Engu er líkara en að löggjafinn og framkvæmdavaldið vinni skipulega að því að koma í veg fyrir að einstaklingar og fyrirtæki geti gert áætlanir til langs tíma. Sífelldar breytingar á lögum, ný lög og útgáfa nýrra eða breyttra reglugerða koma í veg fyrir að hægt sé að horfa til langrar framtíðar.

Einstaklingar og fyrirtæki eru neydd til þess að taka ákvarðanir frá degi til dags, frá mánuði til mánaðar. Ákvarðanir sem teknar eru í góðri trú eru að engu gerðar þegar leikreglum er breytt. Fjölskylda sem tók ákvörðun um íbúðakaup stendur frammi fyrir því að fjárhagslegar forsendur eru brostnar vegna hækkunar á tekjuskatti. Stjórnendur fyrirtækis hætta við að kaupa ný tæki, þar sem þeir óttast enn frekari breytingar á öllu skattaumhverfinu.

Það getur varla komið nokkrum manni á óvart að atvinnulífið og heimilin haldi að sér höndum í umhverfi þar sem allt regluverk er síbreytilegt.

57 breytingar á tekjuskattslögum

Í maí 2003 tóku gildi ný lög um tekjuskatt. Ekki er hægt að halda því fram að með þeim hafi verið tjaldað til langs tíma og einstaklingum og fyrirtækjum gefinn möguleiki á að marka stefnu til framtíðar í stöðugu skattaumhverfi. Þvert á móti.

Nokkrum mánuðum eftir að lögin tóku gildi voru fyrstu breytingar á þeim samþykktar á Alþingi. Á þeim liðlega 11 árum sem liðin eru frá því að tekjuskattslögin tóku gildi hefur Alþingi talið nauðsynlegt að breyta þeim 57 sinnum eða að meðaltali fimm sinnum á ári.

Fyrstu árin eftir 2003 gætti nokkurrar hófsemdar hjá Alþingi gagnvart breytingum á lögunum en frá 2009 er eins og æði hafi hlaupið í löggjafarsamkomuna. Á valdatíma vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna voru samþykkt 33 lagafrumvörp um breytingar á tekjuskattslögunum. Breytingarnar voru afgreiddar á færibandi að meðaltali 6,6 sinnum á ári.

52 ákvæði til bráðabirgða

Einstaklingum og forráðamönnum fyrirtækja er ætlað að fylgjast með þessum stöðugu breytingum og laga sig að þeim, eftir því sem þörf krefur. Þegar leikreglum er sífellt breytt lætur eitthvað undan. Það fyrsta er framtíðarsýnin – möguleikinn til að gera áætlanir um rekstur og efnahag til lengri tíma. Afleiðingin verður stöðnun á flestum sviðum.

Nú er svo komið að lögin um tekjuskatt eru ónýt og líkjast fremur bútasaumi en heildstæðu lagaverki. Nú eru hvorki fleiri né færri en 52 bráðabirgðaákvæði í gildi, misflókin og efnismikil. Tekjuskattslögin eru langt í frá að vera eina dæmið þar sem löggjafinn breytir aftur og aftur leikreglunum.

70 lagabreytingar

Lög um virðisaukaskatt tóku gildi árið 1988. Það hefur verið fastur liður í störfum Alþingis að breyta lögunum – alls 70 sinnum á 26 árum eða að meðaltali 2,7 sinnum á ári. Það var aðeins á árunum 1994 og 1999 sem ekki voru taldar ástæður til að breyta einhverju.

Vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var ekki síður dugmikil við breytingar á lögum um virðisaukaskatt en á tekjuskattslögunum. Frá 2009 var lögunum breytt 26 sinnum eða að meðaltali 5,2 sinnum á ári. Líkt og með tekjuskattslögin eru lög um virðisaukaskatt líkari bútasaumi með 18 ákvæðum til bráðabirgða.

112 lagabreytingar

Í maíhefti Tíundar – fréttabréfs ríkisskattstjóra – bendir Ragnheiður Björnsdóttir lögfræðingur á að óumdeilt sé að miklar breytingar hafi verið gerðar á skattalögum frá hruni fjármálakerfisins. Ragnheiður vann sérstakt yfirlit til að varpa ljósi á „helstu lagabreytingarnar“ en tekur fram að upptalningin sé ekki tæmandi. Alls telur hún upp og greinir frá 112 lagabreytingum.

Hér skal ekki dregið í efa að ýmsar breytingar hafi verið nauðsynlegar á skattalögum, bæði fyrir og eftir fall viðskiptabankanna. En löggjafinn og framkvæmdavaldið hafa gengið fram með þeim hætti að skattkerfið er meira eða minna ónýtt, ógagnsætt, ranglátt og vegna stöðugra breytinga dýrt, jafnt fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem eftirlitsaðila.

Innleiða stöðugleika

Forsenda þess að við Íslendingar náum að byggja upp lífskjör er öflugt atvinnulíf. Þróttmikil fyrirtæki verða hins vegar ekki til þegar sífellt er verið að breyta leikreglunum. Uppbygging til framtíðar verður lítil ef einstaklingar og fyrirtæki búa í stöðugum ótta við stjórnvöld.

Það er kominn tími til að gjörbreyta vinnubrögðum og endurreisa skattkerfið með langtímahugsun að leiðarljósi. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verður að móta stefnu til langs tíma um skatta og skattalegt umhverfi. Leggja verður fram áætlun um tekjuskatt einstaklinga og fyrirtækja og breytingar sem þarf að gera. Hið sama á við um virðisaukaskatt, veiðigjöld, tolla og aðflutningsgjöld og alla aðra tekjustofna ríkisins.

Markmiðið er að gefa atvinnulífinu og einstaklingum möguleika á að gera áætlanir til lengri tíma og koma í veg fyrir að leikreglum sé stöðugt breytt. Með því er raunverulega sagt skilið við tíma hótana:

„You ain’t seen nothing yet.“

Með öðrum orðum: Ríkisstjórnin verður að innleiða stöðugleika í öllu reglu- og lagaumhverfi.