Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor flutti erindi á málstofu í Viðskiptadeild, þriðjudaginn 5. nóvember 2013, um það, hvort Kolkrabbi hefði löngum ráðið íslensku atvinnulífi ásamt „fjölskyldunum fjórtán“, eins margir hafa haldið fram. Hannes fjallaði einnig um árin 2004 og fram að hruni.  Yfirskrift erindisins var: „Réð Kolkrabbi atvinnulífi á Íslandi fram undir lok 20. aldar? Og hvað tók þá við?“  Mbl-sjónvarp átti viðtal við við hann af þessu tilefni.

The video cannot be shown at the moment. Please try again later.

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segir í dagbókarfærslu að Hannes Hólmsteinn eigi „lof skilið fyrir dugnað sinn við að bregða ljósi á aðdraganda hrunsins  fyrir fimm árum á grundvelli rannsókna og upplýsingaöflunar sem einkennist af hugkvæmni og nákvæmni”:

„Niðurstaða hans er að hefði íslenska fjármálakerfið fengið sambærilega fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Bandaríkjanna og danska kerfið hefði hið íslenska staðist áraunina. Þá skipti einnig sköpum að bresk stjórnvöld beittu tvo íslenska banka  í Bretlandi heljartökum rétt áður en þau ákváðu að dæla peningum inn í breska bankakerfið til að bjarga því.

Spurningunni um hvað olli þessari afstöðu stjórnvalda í Bretlandi og Bandaríkjunum hefur ekki verið svarað. Í Bretlandi var um meðvitaða ákvörðun að ræða – hvers vegna var hún tekin? Studdust bandarísk yfirvöld við ráðgjöf frá London? Var verið að ná sér niðri á íslenskum bönkum? Var um óvild í garð íslenskra stjórnvalda að ræða? Vonandi tekur Hannes Hólmsteinn sér fyrir hendur að leita svara við þessum spurningum.”