Það er við hæfi að Björg Eva Erlendsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Ríkisútvarpsins, skuli mótmæla ráðningu Gísla Marteins Baldurssonar sem stjórnenda umræðuþáttar. Með mótmælunum sýnir hún samkvæmni í málflutningi og skoðunum.

DV greinir frá því að tveir stjórnarmenn hjá Ríkis­útvarpinu hafi lagt „fram bókanir á fundi stofnunarinnar á fimmtudaginn þar sem þeir gagnrýndu ráðningu Gísla Marteins ­Baldurssonar”:

„Þetta voru stjórnarmennirnir Pétur Gunnarsson og Björg Eva Erlendsdóttir. Pétur er fulltrúi Pírata í stjórninni en Björg Eva er fulltrúi Vinstri grænna. Þetta herma heimildir DV.”

Ekki eru margir dagar síðan Björk Eva gaf út eftirfarandi yfirlýsingu á fésbók:

„Hef aldrei skilið afhverju þöggun er svona lítið beitt á Snorra í Betel, Gillz, Gylfa Ægisson, Jón stóra og alla þessa kalla sem eiga nákvæmlega 0 erindi inn í vitræna umræðu….Auðvitað eru þeir athyglissjúkir, samt er ekki sjálfgefið að komast inn í umræðuna, eins og þeir gera og fitna af eins og púkinn á fjósbitanum. Enn eitt svona rugl er Páll Vilhjálmsson Heimsýnarbloggari…. Hvers nafn ætti ekki einu sinni að nefna samkvæmt þöggunarprinsippinu.”

Björg Eva, sem áður var fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, er fulltrúi þeirra sem telja rétt að beita ritskoðun – þöggun á skoðanir sem ekki eru þóknanlegar. Og því ekki að beita svipaðri reglu á einstaklinga. Sumir eiga „rétt” á því að vera í fjölmiðlum en aðrir ekki. Það sem meira er; það er tiltölulega einfalt í huga fulltrúa Vinstri grænna í stjórn ríkisfjölmiðilsins að útbúa lista yfir þá sem bannfærðir eru:

Allir hægri menn.