Það þarf sterk bein og pólitískt þrek til að standast þann þrýsting sem gæslumenn sérhagsmuna beita. Þingmenn og ráðherrar standa frammi fyrir því að velja leið freistinganna eða fara hinn þrönga og erfiða veg réttrar forgangsröðunar og aðhalds.

Útgjaldasinnar mega ekki til þess hugsa að róttæk uppstokkun verði gerð á skipulagi ríkisins. Allt tal um hagræðingu og uppskurð ríkisrekstrar er eitur í beinum útgjaldasinna sem finnast í öllum stjórnmálaflokkum. Þeir trúa því (flestir líklegast í einlægni) að hægt sé að leysa flest vandamál þjóðfélagsins með því að auka útgjöld hins opinbera. Það er gegn þessari mýtu sem fjórmenningarnir í hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar verða að berjast um leið og þeir takast á við sérhagsmuni.

Öllum má vera ljóst að ekki verður hægt að reka ríkissjóð með þeim hætti sem gert var í tíð Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur undir merkjum norrænnar velferðar. Stefna vinstri stjórnarinnar hefði leitt til greiðsluþrots ríkissjóðs og hægt og bítandi lamað velferðarkerfið — heilbrigðisþjónustuna og menntastofnanir.

Niðurstöður kosninganna í apríl síðastliðnum skapa tækifæri til að snúa við spilunum. Stærsta og mikilvægasta verkefni ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að endurskipuleggja fjárhag og rekstur ríkisins, greiða niður skuldir og skapa lífvænlegt umhverfi fyrir verðmætasköpun og frjálst atvinnulíf. Þannig verða lífskjör almennings bætt og tryggt að ekki sé gengið á hlut komandi kynslóða.

Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar að auka tekjurnar með því að örva atvinnulífið — hleypa nýju súrefni inn í fyrirtækin með lægri sköttum, afnámi gjaldeyrishafta og einfaldara regluverki. Og hins vegar að hagræða í rekstri ríkisins samhliða því sem reksturinn er endurskipulagður og stjórnsýsla skorin upp og straumlínulöguð.

Í hausthefti Þjóðmála skrifaði ég grein um nokkur þeirra verkefna sem blasa við í fjármálum ríkisins. Þar er fjallað um:

  • Rekstrarkostnað ríkisins
  • Margar matarholur ríkisins
  • Skuldir ríkisins og sölu ríkiseigna
  • Nauðsyn þess að aftengja tímasprengju sem tifar innan heilbrigðiskerfisins
  • Fjölgun öryrkja
  • Dýrt og lamandi eftirlitskerfi

Hægt er að lesa greinina í heild sinni á pdf-formati með því að smella hér:

Þjóðmál-hausthefti 2013