I. grein um veiðigjöld

Með skipulegum hætti hefur andstæðingum viðskiptafrelsis tekist að grafa undan athafnamönnum. Þeir hafa náð að sá fræjum tortryggni gagnvart þeim sem stunda atvinnurekstur, gert þá sem hagnast á viðskiptum að skotspæni og gert að táknmyndum hins illa. Skiptir engu hvort um er að ræða dugnaðarforka sem byggt hafa upp glæsileg fyrirtæki í sjávarútvegi eða iðnaðarmenn sem hafa byrjað með tvær hendur tómar en með elju og útsjónarsemi komið á fót traustum og arðsömum fyrirtækjum.

Ekki einu sinni litlir sjálfstæðir atvinnurekendur – bakbein frjálsra viðskipta – fá að vera í friði. Allir eru tortryggðir samkvæmt reglunni um að þeir sem stunda viðskipti séu í eðli sínu eiginhagsmunaseggir sem skari eld að eigin köku á kostað almennings. Hugmyndafræði tortryggni og öfundar hefur náð að festa rætur og atvinnulífið er í vörn.

Skip3

Atlagan að frjálsum viðskiptum hefur á stundum verið gerð með stuðningi þeirra sem í orði segjast verja frelsi og vilja tryggja samkeppni og einkarekstur. Á stundum hefur verið lagt til atlögunnar með þegjandi samþykki hægri manna, sem annað hvort skildu ekki hvað um var að vera eða þeir höfðu ekki pólitískt þrek til að veita viðspyrnu.

Þáttur í áralangri baráttu

Tilraun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar til að knésetja íslenskan sjávarútveg var aðeins einn þáttur í áralangri baráttu vinstri manna gegn frjálsu viðskiptalífi. Margir atorkusamir atvinnurekendur skildu ekki að þegar búið væri að koma böndum á „sægreifana“ kæmi röðin næst að þeim. Þess vegna sátu þeir þegjandi hjá og nokkrir glöddust yfir því að nú skyldi útgerðin látin „borga“.

Líkt og aðrir atvinnurekendur höfðu eigendur sjávarútvegsfyrirtækja ástæðu til nokkurrar bjartsýni eftir kosningarnar í apríl síðstliðnum. Tími neikvæðni og tortryggni gagnvart atvinnulífinu væri að baki og til valda væri komin ríkisstjórn sem hefði almenna skynsemi að leiðarljósi með hófsemd og sanngirni í skattheimtu á fyrirtæki og einstaklinga. Ríkisstjórn sem hefði skilning á mikilvægi þess að atvinnulífið fengi að blómstra, framtaksmennirnir hefðu svigrúm til efnahagslegra framkvæmda og fengju að nóta ávaxtanna.

Ekki í takt við samþykktir

Fjórum dögum eftir að nýtt þing kom saman lagði sjávarútvegsráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, fram frumvarp til breytinga á lögum um veiðigjöld. Frumvarpið, sem verður að lögum áður en þingmenn halda heim í sumarfrí, er ekki í takt við samþykktir flokksþings Framsóknarflokksins eða landsfundar Sjálfstæðisflokksins.

Í ályktun sem samþykkt var á flokksþingi Framsóknarflokksins í febrúar síðastliðnum segir meðal annars:

„Greitt verði fyrir nýtingarréttinn með árlegu veiðigjaldi. Gjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar.“

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti eftirfarandi um veiðigjöldin:

„Lögum um veiðigjöld þarf að breyta. Sjávarútvegurinn á eins og aðrar atvinnugreinar að greiða hóflegt og sanngjarnt gjald fyrir að nýta sameiginlegar náttúruauðlindir. Sú ofurskattlagning sem lögð er á sjávarútveginn með lögum um veiðigjöld dregur þrótt úr fyrirtækjum og kemur í veg fyrir að þau geti ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar og tekið þátt í nýsköpun og þróunarstarfi. Þannig tapar Ísland því samkeppnisforskoti sem náðst hefur í sjávarútvegi og verðmætasköpun í greininni dregst saman.“

Á landsfundinum lýstu sjálfstæðismenn því yfir að álagning veiðigjalds á síðasta ári hafi haft neikvæð áhrif á sjávarútveginn, ekki síst á lítil og meðalstór fyrirtæki. Grunnurinn að skattlagningunni sé „ekki afkomutengdur og mun því leiða til verulegrar samþjöppunar í greininni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir fjölmargar byggðir landsins“.

Þannig var öllum ljóst að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins ætlaði að beita sér fyrir umfangsmiklum breytingum á álagningu veiðigjalds enda segir í stefnuyfirlýsingu:

„Lög um veiðigjald verða endurskoðuð. Almennt gjald skal endurspegla afkomu útgerðarinnar í heild en sérstakt gjald taka sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja.“

Frumvarp sjávarútvegsráðherra er ekki í takt við fyrirheit stjórnarflokkanna. Sérstaka veiðigjaldið miðast í engu við afkomu, fyrirtækjum er mismunað, innbyggðum hvata til skuldsetningar er viðhaldið og stórkostlegir fjármunir eru fluttir frá nokkrum sveitarfélögum til höfuðborgarsvæðisins. Skattheimta sem refsar athafnamönnum fyrir að byggja rekstur á eiginfé en „verðlaunar“ fyrir skuldsetningu leiðir fyrr eða síðar til ófarnaðar.

Með frumvarpi sínu hefur sjávarútvegsráðherra ekki tekist að rífa sig og ríkisstjórnina frá hugmyndafræði vinstri manna.

II. grein birtist föstudaginn 5. júlí nk.