„Það var aldrei við því að búast að núverandi ríkisstjórn fengi þess háttar grið,” skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í Morgunblaðið í dag um leið og hann bendir á að það hafi verið „óskrifuð regla hér og annars staðar að ný ríkisstjórn fengi sæmilegan frið í upphafi kjörtímabils til að setja sig inn í mál og innleiða svo nýja stefnu”:

„Þó var helst til langt seilst þegar farið var að saka ríkisstjórnina um að hafa svikið kosningaloforð áður en hún var tekin til starfa. Rétt eftir að nýir ráðherrar tóku við lyklum að ráðuneytunum varð svo ljóst hvert stefndi með umfjöllun.”

Í greininni gagnrýnir forsætisráðherra stjórnarandstöðuna harðlega og beinir einnig spjótum sínum að fjölmiðlum:

„Þrátt fyrir yfirlýsingar fyrrverandi stjórnarflokka um mikilvægi þess að breyta stjórnmálunum og umræðuhefð fóru þeir af stað í stjórnarandstöðu af ótrúlegu offorsi sem virðist drifið áfram af hamslausri gremju yfir úrslitum kosninganna. Málþóf hófst í fyrsta máli á fyrsta degi sumarþings. Snúið er út úr nánast öllu sem stjórnarliðar segja og gera og einskis svifist í ómerkilegum pólitískum brellum. Framganga hinna nýju stjórnarandstæðinga, innan þings og utan, pirringurinn og ofleikurinn er augljós.

Það hefur því verið furðulegt að fylgjast með því að engin brella virðist svo aum og enginn útúrsnúningur svo augljós að hann verði ekki að stórfrétt. Látið er eins og það séu undur og stórmerki þegar núverandi ríkisstjórn hverfur frá stefnu fyrri ríkisstjórnar og framfylgir eigin stefnu. Ekkert af þessu á þó að koma á óvart.”

Sigmundur Davíð tekur fram að gagnrýni sín á fjölmiða eigi ekki við alla miðla eða fjölmiðlamenn, enda séu þeir jafn ólíkir og þeir eru margir. En augljóst er að forsætisráðherra er misboðið hvernig oft er tekið á málum:

„Stundum er byggt á upphrópunum og dylgjum stjórnarandstöðunnar, stundum á gömlu góðu álitsgjöfunum og stundum á meintum sérfræðingum. Í málum sem varða fullveldi og forsetann eru kallaðir til þeir sérfræðingar sem gagnrýnastir voru á núverandi stjórnarflokka og forsetann í umræðunni um Icesave og aðrar milliríkjadeilur.

Hver skyldi svo vera valinn sem sérfræðingur til að fjalla um veiðigjöldin og önnur efnahagsmál? Jú, hagfræðingur sem hélt úti sérstöku bloggi gegn núverandi stjórnarflokkum, sérstakur talsmaður síðustu ríkisstjórnar í efnahags- og sjávarútvegsmálum. Maður sem skrifaði mikla lofgrein um ríkisstjórn Samfylkingar og Vg undir lok síðasta kjörtímabils þar sem var að finna greiningu á borð við þá að ríkisstjórnin hefði „staðið eins og klettur gegn almennri skuldaleiðréttingu“. Sami maður er nú eltur til útlanda til að gefa sérfræðiálit og talinn best til þess fallinn að leggja mat á stefnu núverandi ríkisstjórnar.”

Gagnrýni forsætisráðherra virðist ekki síst beinast að fréttastofu Ríkisútvarpsins en hann bendir sérstaklega á þann mikla mun sem var á umfjöllun fréttastofunnar um undirskriftir til að mótmæla Icesave-samningum síðustu ríkisstjórnar og síðan söfnun undirskrifta „gegn því að gerðar verði breytingar á hinum óframkvæmanlegu og skaðlegu veiðigjaldalögum síðustu ríkisstjórnar”:

„Á fyrstu dögum undirskriftasöfnunarinnar [veiðigjöld] sagði Ríkisútvarpið tugi frétta af söfnuninni. Í fréttatíma eftir fréttatíma voru birtar nýjustu tölur og rætt við réttu sérfræðingana og forystumenn stjórnarandstöðunnar. Nokkrum sinnum fjallaði fyrsta frétt í aðalfréttatímum RÚV um að undirskriftum fjölgaði enn.

Þetta er nokkuð annað en þeir sem söfnuðu undirskriftum gegn Icesave bjuggu við. Þeir áttu lengi vel í mesta basli með að fá fjölmiðla til að segja frá því að undirskriftasöfnun færi fram. Þegar sagðar voru fréttir af því var það oft til að tortryggja safnanirnar og þá sem að þeim stóðu. Sumir þeirra máttu þola persónulegar árásir og dylgjur. Þeir sem vildu lýsa efasemdum um að rétt væri staðið að málum fengu hins vegar alla þá athygli sem þeir vildu. Þegar einhverjir skemmtu sér við að skrá „Mikka mús“ á listann stóð ekki á hneykslunarviðbrögðum þótt slíkum skráningum hafi jafnóðum verið eytt og eftirfylgni með undirskriftum verið meiri en dæmi voru um áður.”

Forsætisráðherra leggur áherslu á að lýðræðið þarfnist umræðu og í lok greinarinnar skrifar hann:

„Það er ógnun við lýðræði ef rökræða fær ekki að eiga sér stað, ef ákveðið er frá byrjun að aðeins annar málstaðurinn sé réttur og allt sem styður við þá mynd fær greiða leið í gegn en önnur sjónarmið hverfa. Ef við viljum tryggja að sjávarútvegur skili þjóðinni hámarksarði en verði ekki baggi á samfélaginu eins og víða annars staðar, ef við viljum hámarka hlutfall umhverfisvænnar orkuframleiðslu og vernda náttúruna og ef við viljum rétta stöðu heimilanna af sanngirni þarf að ræða málin fordómalaust. Rökræða er forsenda framfara.”