Af þeim 33 þingmönnum sem samþykktu að ákæra Geir H. Haarde og stefna fyrir Landsdóm, sitja 15 enn á þingi. Margir þeirra sinna veigamiklum trúnaðarstörfum: Tveir eru ráðherrar í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þrír eru formenn nefnda og þrír eru þingflokksformenn. Nú er ástæða til þess að sitjandi ráðherrar biðjist opinberlega afsökunar á sínum þætti í pólitískum réttarhöldum gegn fyrrverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Aðrir sitjandi þingmenn ættu að huga að því sama.

Alþingi samþykkti ákæru á hendur Geir H. Haarde 28. september 2010 með 33 atkvæðum gegn 30. Meirihluti þingsins hafnaði því hins vegar að sækja þrjá aðra ráðherra til saka. Því hefur verið haldið fram að nokkrir þingmenn hafi hagað atkvæðum sínum þannig að tryggt væri að aðeins forsætisráðherrann fyrrverandi og formaður Sjálfstæðisflokksins, þyrfti að sæta því að vera dreginn fyrir Landsdóm.

Pólitísk ákæra

Í drögum að skýrslu laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um refsiábyrgð stjórnmálamanna, kemur fram óvenju hörð gagnrýni á alla málsmeðferð í málinu gegn Geir H. Haarde. Því er haldið fram að ákvörðun um saksókn hafi farið fram á flokkspólitískum grundvelli í stað lögfræðilegrar sakarábyrgðar. Í fréttaskýringu Morgunblaðsins segir að bent sé á að Geir hafi einn verið „sóttur til saka en ráðherra bankamála hafi ekki verið ákærður eða aðrir ráðherrar sem til álita komu. Alþingi hafi því mistekist að aðskilja dómsvald og stjórnmál“.

Með hliðsjón af harðri gagnrýni sem kemur fram í skýrsludrögunum er vert að rifja upp nokkrar staðreyndir um samykkt þingsályktunar um málshöfðun gegn fyrrverandi forsætisráðherra.  Í upphafi var lagt upp með að fjórir fyrrverandi ráðherra yrðu dregnir fyrir landsdóm; Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson. Niðurstaða Alþingis var að Geir skyldi einn sæta ákæru.

Tveir núverandi ráðherrar ákærðu

Flutningsmenn þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum voru fimm – tveir þingmenn VG, tveir þingmenn Framsóknarflokksins og einn þingmaður Hreyfingarinnar:

Atli Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir, Birgitta Jónsdóttir.

Af þessum fimm þingmönnum eru fjórir enn á þingi. Atli Gíslason situr þar ekki lengur. Tveir flutningsmanna eru ráðherrar í nýrri ríkisstjórn. Sigurður Ingi vildi síðar afturkalla ákæruna en Eygló var því andvíg.

Í þessu sambandi er rétt að rifja upp atkvæðagreiðsluna og hvernig einstaka þingmenn greiddu atkvæði til að tryggja að Geir stæði einn frammi fyrir landsdómi. Á meðfylgjandi töflu er yfirlit yfir þá þingmenn sem studdu ákæruna á Geir .

Ákærðu Geir

Hönnuð atkvæðagreiðsla

Eftirtaldir þingmenn [allir í Samfylkingunni] studdu ákæruna gegn Geir en lögðust gegn því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu:

  • Ólína Þorvarðardóttir,
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
  • Skúli Helgason,
  • Helgi Hjörvar.

Eftirtaldir þingmenn voru á móti því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu en töldu rétt að stefna Árna M. Mathiesen fyrir landsdóm:

  • Ólína Þorvarðardóttir,
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Eftirtaldir þingmenn studdu ákæruna gegn Geir en vildu ekki ákæra Björgvin G. Sigurðsson [allir í Samfylkingunni]:

  • Helgi Hjörvar,
  • Magnús Orri Schram,
  • Oddný G. Harðardóttir,
  • Skúli Helgason,
  • Valgerður Bjarnadóttir,

Mörður Árnason greiddi ekki atkvæði um ákæruna gegn Björgvin G. Sigurðssyni.

Ítarleg úttekt

Alþingi getur ekki komist hjá því að gera ítarlega úttekt á því hvernig staðið var að verki við málshöfðun gegn fyrrverandi forsætisráðherra. Þingið verður með öðrum orðum að gera hreint fyrir sínum dyrum. Best færi á því að þeir 15 þingmenn sem enn sitja á þingi og studdu málssóknina á hendur Geir H. Haarde, hefðu frumkvæðið og litu í eigin barm. Það færi a.m.k. ekki illa á því að sitjandi ráðherrar, sem ekki aðeins studdu heldur lögðu til, málssóknina bæðust opinberlega afsökunar á sínum þætti.