Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks stefnir að því að stofna sérstakt millidómstig og láta Hæstarétt starfa í einni deild. Þannig tekur ríkisstjórn undir hugmyndir Jóns Steinar Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara.

Almenna bókafélagið gaf nýlega út ritið Veikburða Hæstiréttur eftir Jón Steinar, þar sem hann gagnrýnir Hæstarétt, starfshætti hans og skipulag, skipan dómara, álag á dóminn og hversu mikið dómurinn reiðir sig á varadómara. Hann segir brýnt að koma á millidómstigi sem fyrst. Þannig eru ríkisstjórnin og Jón Steinar samsíga. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir:

„Stefnt skal að því að millidómsstig verði tekið upp, bæði í einka- og sakamálum, og að hæstiréttur starfi í einni deild.”

Jón Steinar heldur því fram að mikils misræmis hafi gætt í dómsúrlausnum Hæstaréttar í sambærilegum málum og virðist skipta máli hvaða dómarar setið hafi í dómi. Þetta gangi þvert á það markmið að réttarkerfi þar sem æðsti dómstóll sé fordæmisskapandi og stuðli að samræmi í lagaframkvæmd. Í fordæmisgefandi og samræmdri lagaframkvæmd felist „fyrirheit um að úr sambærilegu álitaefni verði að óbreyttum lögum leyst með sama hætti ef á það reynir í framtíðinni. Þetta fyrirheit byggist ekki síst á því að sömu dómarar, það er þeir sem skipa hinn æðra dómstól, muni dæma í nýju máli þar sem reynir á sama álitaefni.“

Magnús Thoroddssen, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, segir í umfjöllun um ritið:

„Ritgerð þessi er þörf hugvekja og tímabær. Hún tekur á vandamálum innan dómskerfisins, sem brýnt er að ráða sem fyrst bót á. Hér er sérstaklega átt við nauðsyn þess að koma á fót millidómstigi og breyta skipan Hæstaréttar, þannig, að dómurum verði fækkað í fimm og þeir starfi alltaf í einni deild. Vonandi verður ritgerð þessi til að ýta við nýjum dómsmálaráðherra, þannig að hann hrindi þessu máli í framkvæmd sem fyrst.”

Hægt er að nálgast ritgerð Jóns Steinar hér – öllum að kostnaðarlausu á pdf-formi.

Jón Steinar Gunnlaugsson var gestur Egils Helgasonar 13. apríl síðastliðinn og fjallaði þar um hugmyndir sínar að nýskipan dómsmála og gagnrýni sína á Hæstarétt.

The video cannot be shown at the moment. Please try again later.