„Ég er sátt og ánægð, og ánægð með hvað vel hefur tekist til hjá minni ríkisstjórn. Þessi ríkisstjórn tekur við mjög góðu búi.“

Þetta er sú einkunn sem Jóhanna Sigurðardóttir fráfarandi forsætisráðherra gefur ríkisstjórn sinni.

Í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika segir að „miðað við óbreytt gengi nægir fyrirsjáanlegur undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára ekki til að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána.“

Ragnar Árnason prófessor í hagfræði, segir í grein sem birtist í Morgunblaðinu að Seðlabankinn sé að benda á að „undirliggjandi viðskiptaafgangur, þ.e. það sem til ráðstöfunar sé til að greiða afborganir af erlendum lánum, nemi einungis um 3% af landsframleiðslu og fari minnkandi, en það sem þurfi til að standa í skilum nemi að meðaltali 5,5% af landsframleiðslu á næstu árum”:

„Hið óbrúaða bil er að því áliti seðlabankastjóra u.þ.b. 2,5-3% af landsframleiðslu árlega á næstu fjórum árum eða nálægt 200 ma. króna miðað við núverandi verðlag.”

Með öðrum orðum: Seðlabankinn er að benda á að Íslendingar geti ekki greitt „samningsbundnar erlendar skuldir sínar að óbreyttu”. Ragnar segir:

„Til að unnt sé að borga þessar skuldir verði þjóðin að herða mittisólina enn á ný. Jafnframt upplýsir hann kröfuhafa þrotabúanna og eigendur hinna „kviku“ krónueigna um að þjóðarbúið eigi ekki gjaldeyri til að skipta kröfum þeirra í erlenda mynt. Vilji þeir fá slíka mynt fyrir kröfurnar verði þeir að slá verulega af þeim.”

Það vekur auðvitað athygli að Seðlabankinn skuli ekki hafa varað við þessari stöðu með afgerandi hætti fyrr en undir lok kjörtímabils ríkisstjórnar Samfylkingar og VG. En Ragnar Árnason dregur þessa ályktun af því sem kemur fram í stöðugleikaskýrslu Seðlabankans:

„Þetta er auðvitað skýr áfellisdómur yfir efnahagsstefnu fráfarandi ríkisstjórnar. Í stað þess að takast á við vandann hefur hún ýtt honum á undan sér. Fjórum og hálfu ári eftir hrun er skuldavandi þjóðarbúsins kominn í svo mikið óefni að seðlabankastjóri telur hann óviðráðanlegan nema gripið verði til nýrra úrræða. Þau úrræði fela óhjákvæmilega í sér nýja kjaraskerðingu nema vænlegra sé talið freista þess að fresta vandanum en á ný með frekari erlendum lántökum.”

Þegar einkunnargjöf Jóhönnu um eigið ágæti er borin saman við það sem Seðlabankinn segir er augljóst að fráfarandi forsætisráðherra er að hæðast að almenningi. Og ekki hefur Seðlabankinn verið sakaður um óvild í garð Jóhönnu og ríkisstjórnar hennar.