Hlutfallslega bætti Framsóknarflokkurinn langmest við fylgi sitt í Suðvesturkjördæmi – Kraganum – í kosningunum á laugardaginn miðað við 2009. Fokkurinn fékk 21,5% atkvæða í Kraganum en fyrir fjórum árum var fylgi hans 11,6%. Þannig jókst fylgið um liðlega 85%.

Á landsvísu jókst fylgi Framsóknarflokksins um 65% en hlutfallslega var minnsta fylgisaukningin í Norðausturkjördæmi – þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er oddviti – eða um 37%.

Sterkasta vígi Framsóknarflokksins er í Norðvesturkjördæmi þar sem flokkurinn fékk 35,2% en síðan eru Norðaustur- og Suðurkjördæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur sterkast í Kraganum með tæp 31%. Hins vegar jókst fylgið hlutfallslega mest í Norðausturkjördæmi eða um liðlega 29%.

Stjórnarflokkarnir misstu gríðarlegt fylgi í öllum kjördæmum – mest í Suðurkjördæmi þar sem fylgið féll um 65,5% hjá VG og um 63,6% hjá Samfylkingunni. Hlutfallslega varð minnsta hrapið hjá VG í Reykjavík norður eða tæp 35%. Minnsta hrapið hjá Samfylkingunni var í Norðvesturkjördæmi eða liðlega 46%.

VG stendur best að vígi í Norðausturkjördæmi og í Reykjavík norður. Vígi Samfylkingarinnar er í Reykjavík þar sem rétt liðlega 14% studdu flokkinn. Þó missti Samfylkingin á milli 55-56% af fylginu í höfuðborginni frá 2009.Úrslit kosninganna 2013