„Ég er stolt af því að vera ungur sjálfstæðismaður þar sem kosningabarátta flokksins snerist eingöngu um okkar eigin stefnumál og hugsjónir. Ég er stolt af því að eiga vinstri sinnaða vini og geta verið sammála þeim um að vera ósammála. En ég er ekki stolt af því að eiga vini sem telja mína skoðun vera ófyrirgefanlega og óréttmæta, einungis af því hún er ekki þeirra eigin.”

Þetta skrifar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður Heimdallar, í Morgunblaðið undir yfirskriftinni, Ófyrirgefanlegar skoðanir? Tilefni skrifanna er það umburðarleysi sem einkennir opinbera umræðu fyrir andstæðum skoðunum. Áslaug Arna vitnar í upphafi greinar sinnar til skrifa ungs vinstri manns rétt fyrir kosningar:

„Ég get ekki horft framan í fólk sem styður stefnu Sjálfstæðisflokksins og látið eins og mér þyki það bara allt í lagi. Sá sem kýs flokkinn, meðvitaður um bakgrunn hans og ætlunarverk, tekur afstöðu sem mér finnst óréttlætanleg og ófyrirgefanleg.“

Áslaug Arna segir það ótrúlegt að fólk sem er á „öndverðum meiði í pólitík geti ekki borið virðingu hvert fyrir sjónarmiðum annars”. Þegar vinstri menn hafi séð fram að að kjósendur myndu hafna „fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórninni réðust þeir í ómálefnalega umræðu og niðurrif”:

„Þeir reyna allt hvað þeir geta til að gera lítið úr skoðunum annarra og eiga erfitt með að una niðurstöðu kosninganna. Það hlýtur að teljast undarlegt í ljósi þess að margir vinstri menn gefa sig svo oft út fyrir að virða lýðræði framar öðrum, vera umburðarlyndari og sérstakir kyndilberar jafnréttis sem berjast fyrir jöfnum rétti allra manna, sú hugsjón nær greinilega ekki til skoðana og tjáningar þeirra sem eru þeim ekki sammála.”

Áslaug Arna segir að í stað þess að „gagnrýna fólk á yfirvegaðan og málefnalegan hátt” hafi ítrekað verið gripið til öfga, gífuryrða og persónuárása:

„Í orðum þeirra kemur sterklega fram hatur, tortryggni, fordómar og öfund. Ekki þykja mér þetta vænleg gildi til að byggja upp samfélagið.”

Í lok greinarinnar segir Áslaug Arna:

„Við þurfum öll að hefja umræðuna upp á hærra plan.”