Ólafur Ragnar Grímsson segir að skýra megi sigurinn í forsetakosningunum sem ótta við að breytingar á stjórnarskránni fari í einhverja vitleysu, ágreining vegna Evrópusambandsins og kröfu um að rödd Íslands heyrist skýrt á alþjóðlegum vettvangi. Pólitískir forystumenn hljóti að hugleiða af mikilli alvöru þann boðskap sem fólkið sé að senda þeim.

Þetta kemur fram í viðtali Fréttablaðsins við forseta Íslands. Blaðamaðurinn vitnaði til kosningavöku Ríkissjónvarpsins, þar sem fram kom að stærsti hópurinn sem studdi Ólaf Ragnar ætlar að styðja Sjálfstæðisflokkinn. “Varð fyrrum formanni Alþýðubandalagsins ekki bylt við að sjá þetta?” spurði blaðamaðurinn. Ólafur svaraði:

“Ég er nú löngu hættur að hugsa um mig sem hinn gamla formann Alþýðubandalagsins, það er ár og dagur síðan sá flokkur hvarf af sjónarsviðinu. En menn mega ekki heldur gleyma því að þegar ég var kosinn árið 1996, og hafði þá verið formaður Alþýðubandalagsins þar til fáeinum mánuðum áður, voru það um 20 prósent sjálfstæðismanna sem kusu mig. Það var kannski merkilegra en það sem við sjáum nú. En það er mikilvægt að menn átti sig á að það voru afdráttarlaus efnisrök hjá fólki sem lágu á bak við valið. Það var lýðræðislegur réttur þjóðarinnar, það var ótti við að breytingar á stjórnarskránni færu í einhverja vitleysu, það var ágreiningur um umsókn að aðild að Evrópusambandinu, það var nauðsyn þess að rödd Íslands heyrist skýrt á alþjóðlegum vettvangi. Þetta voru sterkari áhrifaþættir en það hvað menn kjósa í Alþingiskosningum.”

Síðar í viðtalinu sagði Ólafur Ragnar:

“En úrslitin voru hins vegar þess eðlis að hinir pólitísku forystumenn hljóta að hugleiða af mikilli alvöru þann boðskap sem fólkið í landinu er að senda þeim.”