Mikil hækkun skatta hefur aukið skuldavanda heimilanna. Kaupmáttur ráðstöfunartekna árið 2011 var um 24% minni en hann var á árinu 2007. Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, segir að líklegt sé að kaupmátturinn á liðnu ári hafi verið um 20% lægri. „Þessi lækkun ráðstöfunartekna stafar auðvitað fyrst og fremst af lækkun raunlauna og minnkaðri atvinnu, en hún stafar einnig af aukinni skattheimtu,” skrifar Ragnar í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag fimmtudag.

Ragnar bendir á að skattar hafi verið stórhækkaðir frá árinu 2008:

„Þessar hækkanir taka til nánast allra opinberra gjalda, allt frá útsvarinu og ýmsum sérstökum gjöldum til sveitarfélaga, til virðisaukaskatts, tekjuskatts og aragrúa sérgjalda sem renna í ríkissjóð. Þessi aukna skattheimta hefur m.a. haft tvennt í för með sér. Í fyrsta lagi hefur hún lækkað þann hluta af tekjum heimilanna sem unnt er að ráðstafa til að greiða vexti og afborganir af lánum. Hins vegar hefur hún dýpkað og framlengt kreppuna.”

Í greininni segir Ragnar að skattahækkanirnar hafi stuðlað að skuldavanda heimilanna með a.m.k. þrennum hætti:

„Í fyrsta lagi lækka þær beinlínis ráðstöfunartekjur flestra heimila. Í öðru lagi hafa þær framlengt kreppuna og lækkað þannig raunlaun heimilanna umfram það sem að öðrum kosti hefði orðið. Í þriðja lagi hefur framlenging kreppunnar og hið dauðyflislega ástand í hagkerfinu haldið fasteignaverði lengur niðri en efni stóðu til.

Allt hefur þetta bitnað illilega á skuldugum heimilum og aukið á vanda þeirra. Erfitt er að segja til um það hversu sterk þessi skattaáhrif eru. Af ofangreindu er þó fullvíst að þau eru veruleg. Það sorglegasta er að þessi aukni vandi skuldugra heimila sem stafar af skattahækkunum var alger óþarfi. Hann er afleiðing rangrar efnahagsstefnu sem gripið var til af fyrirhyggjuleysi og að því er virðist fyrst og fremst til þess að fullnægja úreltum kreddum. Öll þjóðin borgar brúsann og því miður er hvað minnst borð fyrir báru hjá skuldugum heimilum.”Skattar2