Þrátt fyrir hrakspár margra höfðu Íslendingar fullnaðarsigur í Icesave-deilunni. EFTA dómstóllinn hefur hafnað öllum kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og gert ESA og Evrópusambandinu að greiða málskostnað.

icesave-mótmæli

Þessi niðurstaða er fagnaðarefni fyrir alla Íslendinga en einnig umhugsunarverð. Þeir stjórnmálamenn sem börðust hart fyrir því að láta íslenska skattgreiðendur axla ábyrgð á skuldum einkafyrirtækis segjast nú alltaf hafa verið trúaðir á málstað Íslendinga. „Allir eiga að fagna á þessari stundu en ekki leita að sökudólg,“ segir forsætisráðherra sem lýsti því yfir í júní 2009 að Svavars-samningarnir væru bestu mögulegu samningar sem hægt væri að ná. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að nú eigi að halda veislu og Steingrímur J. Sigfússon talar um stórkostlegan sigur. Þannig tala þeir sem harðast gengu fram í baráttunni fyrir ríkisábyrgð og reyndu með ráðum og dáðum að koma í veg fyrir að þjóðin hefði nokkuð um það að segja.

Þjóðin sagði nei

Icesave-skuldir Landsbankans hafa reynst ríkisstjórninni erfiðar en þrátt fyrir að hafa verið send í tvígang afturreka í þjóðaratkvæðagreiðslu, tókst ríkisstjórninni að lifa af. Slíkt verður að teljast sæmilegt pólitískt afrek.

Steingrímur J. Sigfússon hafði setið á stóli fjármálaráðherra í liðlega fjóra mánuði þegar það dró til tíðinda í Icesave-deilunni. Í umræðum á Alþingi 3. júní 2009 gaf hann út skýra yfirlýsingu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði fjármálaráðherra hver staðan væri á samningaviðræðum við bresk og hollensk stjórnvöld. Svarið var skýr og afdráttarlaust:

„Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.”

Tveimur dögum síðar skrifaði Svavar Gestsson, formaður samninganefndar, hins vegar undir samninga. Svavar var skipaður formaður samninganefndar í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga undir lok febrúar og vakti skipan hans athygli og nokkra undrun. Sjálfur sagði Svavar að um væri að ræða „alveg hrikalega stórt verkefni“ sem hann gengi bara í „eins og ég hef vit og getu til“. Steingrímur J. Sigfússon sagðist treysta Svavari, en þeir eru gamlir samherjar úr Alþýðubandalaginu. Í Zetunni – umræðuþætti á mbl.is – 19. mars 2009 sagði Steingrímur aðspurður um stöðuna í Icesave-viðræðunum:

„Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi – og hans fólk – glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur …

Ég held að við getum átt þar í vændum farsælli niðurstöðu en kannski leit út fyrir að vera.“

Syndir heimsins

Þremur dögum eftir að Svavar Gestsson skrifaði undir Icesave var hann í viðtali við Morgunblaðið. Þar sagði Svavar að þegar ímynd Íslandi hafi hrunið haustið 2008 hafi hann langað til þess að gera gagn. Vegna þessa hafi  hann verið „svo forhertur“ að taka að sér „þetta svakalega verkefni ásamt samstarfsmönnum, eitt stærsta efnahagslega verkefni sem Ísland hefur nokkurn tímann glímt við“. Svavar hélt því fram að ef ekki hefði verið gengið frá samningum hefði allt innistæðutryggingakerfið í Evrópu hrunið:

„Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist.“

Strax eftir að ljóst var að búið væri að undirrita samninga við Breta og Hollendinga kom fram gagnrýni og þá ekki síst að verið væri að skuldbinda ríkissjóð um hundruðir milljarða og það gæti stefnt fjárhagslegu sjálfstæði landsins í hættu.

Bestu samningar sem hægt var að ná

Efni Svavars-samninganna var ekki gert opinbert í fyrstu en þrátt fyrir það var ljóst að samningarnir voru umdeildir jafnvel innan ríkisstjórnarflokkanna. Forráðamenn ríkiJóhanna Sigurðardóttirsstjórnarinnar og talsmenn samninganna hófu þegar baráttu fyrir samþykkt þeirra.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að samningarnir væru þeir bestu sem hægt hefði verið að ná. Í grein í Morgunblaðinu 9. júní 2009, sagði hún:

„Eftir að hafa farið vandlega yfir málið með samninganefnd íslenska ríkisins sannfærðist ríkisstjórnin um að ekki væri hægt að ná betri samningum án þess að taka enn frekari áhættu með framhald endurreisnarstarfsins sem nú stendur yfir. Lengra yrði ekki komist án harkalegra árekstra við alþjóðasamfélagið eða mikilla tafa á endurreisnarstarfinu. Skiptir þar sköpum það 7 ára svigrúm sem gefið er til að nýta sem best eignir Landsbankans til að borga upp skuldina, áður en til ábyrgðar eða útgjalda íslenska ríkisins gæti komið.“

Forsætisráðherra hélt því fram að með samkomulaginu við Breta og Hollendinga hefði gríðarlegri óvissu um ábyrgð Íslands verið eytt. Daginn áður en Jóhanna birti grein sína hélt Svavar Gestsson því fram í  viðtali við Morgunblaðið að íslenska hagkerfið væri komið í skjól í sjö ár og að alþjóðlegir fjármálamarkaðir myndu opnast með því að bresk stjórnvöld afléttu frystingu eigna og tækju Ísland af hryðjuverkalista.

Kúba norðursinsGylfi Magnússon

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra sagðist 26. júní 2009, ekki geta hugsað þá hugsun til enda ef Icesave-samningarnir yrðu ekki samþykktir. Í viðtalið við Stöð 2 felldi ráðherrann þennan dóm:

„Þá væri einfaldlega allt í uppnámi, öll samskipti okkar við erlend ríki, áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lánasamnirnarnir frá Norðurlöndum og raunar líka hversdagslegi hlutir eins og alþjóðleg bankaviðskipti.“

Viðskiptaráðherra bætti síðan við:

„Við værum bara eiginlega búin að einangra okkur frá umheiminum og komin aftur á einhverskonar Kúbu-stig. Við virðum svona Kúba norðursins.“

Svartsýnisspá Gylfa Magnússonar, sem hann endurtók á þingi nokkrum dögum síðar var í takt við skoðun Þórólfs Matthíassonar, prófessors í hagfræði. Fréttablaðið sagði í frétt 26. júní 2009:

„Samþykki Alþingi ekki ríkisábyrgð á Icesave-lánið gæti skapast stríðsástand í efnahagslífinu hérlendis, Ísland fengi hvergi fyrirgreiðslu, fyrirtæki færu unnvörpum í þrot og við yrðum sett á sama stall í samfélagi þjóðanna og Kúba og Norður-Kórea. Þetta segir Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor sem segist mjög hissa á óábyrgri afstöðu sumra stjórnmálamanna til málsins.“

Fréttablaðið hafði síðan orðrétt eftir prófessornum um hvað gerðist ef Icesave-samningarnir næðu ekki fram að ganga:

„Þetta er alveg hrikalega ljót sviðsmynd sem þá kemur upp.“

Jóhanna Sigurðardóttir varði samningana einnig í pistli á heimasíðu sinni og hafði enga fyrirvara í vörn sinni. Pistilinn birtist 29. júní 2009 og þar sagði meðal annars:

„Með samkomulaginu er háum þröskuldi rutt úr vegi endurreisnaráætlunar Íslands og með því opnast á ný, þær efnahagslegu og politísku dyr til alþjóðasamfélagsins sem framtíð Íslands byggir ekki hvað síst á.

Að mínum dómi hefur það markmið Alþingis náðst með Icesave samningunum að tekið yrði tillit til „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í“. Það er gert með því að ríkið þarf ekki að inna neinar greiðslur af hendi næstu sjö ár meðan Íslendingar eru að vinna sig út úr efnahagsvandanum. Höfuðstólinn greiðist þennan tíma niður eins og tök eru á með tekjum af eignum Landsbankans.“

Ekki meirihluti á þingi

Illugi Gunnarsson innti forsætsráðherra eftir því í fyrirspurnartíma á Alþingi 11. júní 2009 hvort ríkisstjórnin hefði gengið úr skugga um að meiri hluti væri fyrir Icesave-samningunum áður en samninganefnd skrifuðu undir. Jóhanna Sigurðardóttir sagðist verða „að treysta því að málið hafi fullan stuðning stjórnarflokkanna þegar þetta kemur til atkvæðagreiðslu“. Hún benti á að stjórnarflokkarnir hefðu 34 þingmenn „í meiri hluta á móti 29 hjá stjórnarandstöðunni og ég trúi ekki öðru en það dugi til að tryggja þetta mál í höfn“:

„Ég hef líka fulla trú á því að a.m.k. einhverjir þingmenn sjálfstæðismanna styðji þetta mál miðað við forsögu málsins.“

Síðar kom í ljós að í raun höfðu Jóhanna og Steingrímur ekki meirihluta fyrir Icesave-samningunum. Lilja Mósesdóttir, sem þá tilheyrði þingflokki Vinstri grænna, staðfesti þetta á þingi 20. ágúst 2009:

„Frá upphafi hef ég ásamt félögum mínum í þingflokki VG, hæstvirtum ráðherra Ögmundi Jónassyni og háttvirtum þingflokksformanni Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, verið á móti Icesave-samningnum. Þessi andstaða okkar kom skýrt fram á fundi þingflokks VG fyrir rúmum tveimur mánuðum þegar við höfnuðum beiðni hæstvirts fjármálaráðherra um umboð til að klára Icesave-lánasamningana.“

Eftir að að Icesave-lögunum var hafnað í fyrra skiptið, staðfesti Lilja enn og aftur að ríkisstjórnin hefði ekki haft þingmeirihluta fyrir því að ganga frá samningum við Breta og Hollendinga sumarið 2009. Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2, 8. mars 2010 sagði þingmaðurinn að mistekist hefði að ná samstöðu innan stjórnarflokkanna um framgang Icesave málsins strax í byrjun síðasta árs. Í fréttinni er eftirfarandi haft eftir Lilju:

„Þá hafi fimm þingmenn lagst gegn því í þingflokki Vinstri grænna að Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins og fjármálaráðherra færi og undirritaði samninginn. Hann hafi samt gert það.“

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sögðu skilið við þingflokk Vinstri grænna í mars 2011. Þau nefndu margar ástæður fyrir brotthvarfinu, en ein ástæðan var hvernig ríkisstjórnin hafði haldið á Icesave-málinu. Í yfirlýsingu staðfesta þau enn frekar að Jóhanna og Steingrímur höfðu ekki tryggt meirihluta fyrir samningunum:

„Saga Icesave er samfelld sorgarsaga en þingflokkur VG beitti sér af mikilli hörku gegn því að semja um ábyrgð ríkisins á Icesave haustið 2008. Þegar komið var í ríkisstjórn var hins vegar ætlast til þess af þingmönnum stjórnarflokkanna að þeir veittu umboð sitt til undirskriftar við óséðan samning. Skrifað var undir þrátt fyrir að ekki væri þingmeirihluti að baki og þrátt fyrir afgerandi andstöðu tæplega helmings þingflokks VG og kröfu um að fá að sjá hvað um væri að ræða. Hlífa hefði mátt þjóðinni við þessu klúðri ef betur hefði verið staðið að málum strax í upphafi.“

Icesave skilyrði fyrir ESB-aðild

Undir lok maí 2012 lagði Atli Gíslason fram þingsályktunartillögu, ásamt Jóni Bjarnasyni, um að afturkalla umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Tillagan gerir ráð fyrir að umsóknin verði ekki endurnýjuð „nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfestir vilja þjóðarinnar til aðildar“. Í samtali við Morgunblaðið sagði Atli að Svavars-samningurinn frá í júní 2009 hafi verið „skilgetið afkvæmi“ umsóknar um aðild að Evrópusambandið. „Samningurinn var skilyrði þess að umsóknin yrði móttekin en ekki endursend ríkisstjórninni,“ sagði Atli og bætti við:

„Það kom flatt upp á marga að samningurinn skyldi liggja fyrir strax í júní 2009. Steingrímur J. Sigfússon sagði í apríl sama ár að það lægi ekkert á að semja. En skýringin lá í augum uppi. Samningurinn var lykill Steingríms J. að stjórnarsamstarfi og ráðherradómi og hluti af aðildarumsókninni sem aftur skýrði leyndina. Á síðari stigum málsins kom ESB með virkum hætti inn í dómsmálið fyrir EFTA-dómstólnum.“

Lítilsverður sparðartíningurIndriði H. Þorláksson

Fimmtudaginn 2. júlí 2009 mælti Steingrímur fyrir frumvarpi til laga um heimild „til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðutryggingar hjá Landsbanka Íslands hf“.

Sumarið 2009 fór í miklar deilur um Icesave-málið sem lauk með því að frumvarp fjármálaráðherra var samþykkt 28. ágúst eftir miklar breytingar þar sem settir voru ákveðnir fyrirvarar við ríkisábyrgð á á lántöku Tryggingasjóðsins. Talsmenn samninganna við Breta og Hollendinga, héldu því fram að þeir sem hefðu hæst í gagnrýni sinni væru með „lítilsverðan sparðatíning“. Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra og einn samninganefndarmanna með Svavari Gestssyni, sagði í viðtali við Morgunblaðið 25. júlí:

„Ég get ekki neitað því að ég er undrandi á því hvernig umræð­an bæði í þinginu og í fjölmiðlum hefur að mestu farið frá aðalatriðum og leiðst út í lítilsverðan sparðatíning, upphróp­anir og órökstuddar fullyrðingar.“

Ólafur Ragnar Grímsson staðfesti lögin 2. september 2009 en þá þegar höfðu honum borist áskoranir um að hafna staðfestingu þeirra. Um leið gaf hann út skriflega yfirlýsingu, þar sem bent var á að í lögunum séu margvíslegir fyrirvarar:

„Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.“

Féllust ekki á fyrirvara

Bresk og hollensk stjórnvöld felldu sig ekki við þá fyrirvara sem Alþingi hafði sett. Vegna þessa hófust viðræður að nýju milli landanna þriggja. Ekki var eining innan ríkisstjórnarinnar um hvernig haldið var á málum en Ögmundur Jónasson, sem þá sat í heilbrigðisráðuneytinu, sagði af sér embætti. Ástæðuna fyrir afsögn sagði Ögmundur að áhersla hefði verið lögð á að ríkisstjórnin talaði einu máli í Icesave-málinu. Í viðtali í Spegli Ríkisútvarpsins 18. september var Ögmundur harðorður í garð Breta og Hollendinga:

„Við höfum verið með hnífinn á barkanum, Íslendingar, af hálfu Breta og Hollendinga, þessara gömlu nýlenduherra, sem kunna nú sitthvað fyrir sér þegar þeir eru að beygja undir sig fórnarlömb sín.“

Eftir ríkisstjórnarfund þriðjudaginn 29. september sagði Jóhanna Sigurðardóttir að nauðsynlegt væri að fá niðurstöðu í Icesave-málið í vikunni. Lengur væri ekki hægt að bíða. Mbl.is hafði það eftir Jóhönnu að ekki væri hægt að fara með málið inn í þing nema öruggt sé með meirihluta:

„Við förum ekki með það inn á þing nema við séum sátt við málið. Ég mun aldrei samþykkja þetta mál nema ég sé sátt við þá niðurstöðu og treysti mér til þess að fylgja henni fram fyrir íslenska þjóð með minni ríkisstjórn.“

Þessi orð Jóhönnu ganga í berhögg við fyrri yfirlýsingar hennar um að náðst hefðu bestu mögulegu samningar. Strax eftir að Icesave-samningarnar voru undirritaðir, án nokkurra fyrirvara, taldi hún að þeir væru Íslendingum hagstæðir og gæfu tækifæri til þess að hefja uppbyggingu efnahagslífsins, enda „skjól“ í sjö ár. Alþingis samþykkti hins vegar ekki einfalda ríkisábyrgð skv. Svavars-samningunum heldur setti ákveðna og ítarlega fyrirvara og skilyrði. Bretar og Hollendingar felldu sig ekki við fyrirvarana eins og áður segir.

Mótsögn

Jóhanna komst í mótsögn við fyrri yfirlýsingar um tengsl Icesave-samninganna og fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins [AGS].  Í þingræðu 13. júlí 2009 þvertók forsætisráðherra fyrir að AGS hefði nokkru hótað vegna deilunnar við breta og Hollendinga:

„Að því er varðar það sem hv. þingmaður spyr um, hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi gert einhverjar kröfur eða tengingar á milli Icesave-samninganna og þeirrar endurskoðunar sem nú fer fram á því samkomulagi sem við höfum gert við AGS hafa þeir ekki verið með neinar hótanir uppi í þessu sambandi eða gert einhverjar kröfur um að við gengjum frá Icesave-samningunum fyrst.“

Þetta er allt annað en Jóhanna lét hafa eftir sér 29. september. Eftir áðurnefndan ríkisstjórnarfund sagði forsætisráðherra:

„Ég er auðvitað mjög óánægð með hvað er verið að tengja Icesavemálið og endurskoðunina hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum saman. Mér finnst það afar óeðlilegt.“

Nýjar samningaviðræður leittu til þess að gerður var sérstakur viðaukasamningur 19. október 2009 við fyrirliggjandi lánasamninga. Í framhaldinu lagði Steingrímur J. Sigfússon fram frumvarp sem leiddi til harðra pólitískra átaka á Alþingi. Lengsta umræða í sögu Alþingis fór fram en stjórnarandstaðan færði fyrir því rök að þeir fyrirvarar sem Alþingis hefði samþykkt í ágúst væru orðnir að engu.

Hafna þjóðaratkvæðagreiðslu

Alþingi samþykkti  frumvarp fjármálaráðherra 30. desember 2009 (sem margir kalla Icesave II). Síðar neitaði Ólafur Ragnar Grímsson forseti að staðfesta lögin um ríkisábyrgð og í mars 2010 höfnuðu 98% þeirra sem afstöðu tóku að gangast í ábyrgð fyrir skuldum einkafyrirtækis. Áður en ríkisábyrgðin var samþykkt af meirihluta þingsins var breytingatillaga Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að efnt skyldi til þjóðaratkvæðis felld með 33 atkvæðum gegn 30.

Breytingartillaga Péturs var einföld en þar sagði meðal annars í 1. grein:

„Bera skal heimild fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð skv. 1. mgr. undir þjóðaratkvæðagreiðslu allra atkvæðisbærra manna svo fljótt sem verða má og eigi síðar en sex vikum frá gildistöku laganna. Heimildin skal veitt sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi því.“

Allir þingmenn stjórnarandstöðunnar, auk nokkurra stjórnarþingmanna studdu tillögu Péturs Blöndal, en það dugði ekki til. Pétur sagði við atkvæðagreiðsluna:

„Hér er lagt til að borgarar þessa lands taki ákvörðun um það hvort þeir vilji taka á sig þessar gífurlegu skuldbindingar, sem ekki aðeins þeir, heldur líka börnin þeirra og barnabörn, munu greiða. Ég treysti þeim fullkomlega til þess …“

Einar K. Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu:

„Hvers vegna er þjóðinni ekki treyst? Óttast ríkisstjórnin kannski þjóðina og vilja hennar? Þetta mál á að bera undir ákvörðunarvald íslensku þjóðarinnar.“

Illugi Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, var afdráttarlaus og taldi að sár yrði í þjóðarsálinni ef þjóðin fengi ekki að taka afstöðu til ríkisábyrgðar:

„En í þessu máli er það svo að gangi það fram geta afleiðingar þess orðið svo alvarlegar fyrir íslenska þjóð að það eru þung og sterk rök fyrir því að þjóðin kveði sjálf upp sinn dóm í þessu máli. Það verður sár í þjóðarsálinni ef þetta mál fær ekki að fara til þjóðarinnar og þjóðin að segja skoðun sína beint.“

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, var dyggur stuðningsmaður Svavars-samninganna og einnig Icesave II. Hann var mjög ósáttur við að Ólafur Ragnar skyldi ekki samþykkja lögin um Icesave og skrifaði á heimasíðu sína 11. janúar 2010:

„Því hefur verið haldið fram að með Icesave-samningunum sé verið að setja óheyrilegar byrðar á komandi kynslóðir Íslendinga, sumir segja um alla framtíð. Ekkert þessu líkt er að finna í öllum þeim gögnum sem Alþingi hefur borist frá fjölmörgum aðilum við umfjöllun málsins.“

Þingmaðurinn skrifaði einnig:

„Það er því hjákátlegt að þurfa að hlusta á svokallaða sérfræðinga, innlendra og erlendra, haldi því fram að komandi kynslóðir Íslendinga komi til með að greiða þessar skuldir. Enn grátlegra er þó að hlusta á fjölmiðlafólk láta þessa vitleysu yfir sig ganga án þess að bregðast við sem bendir til þess að fjölmiðlar láti stjórnast af umræðunni gagnrýnislaust. Það er áhyggjuefni ef svo er, ekki síst í komandi kosningabaráttu vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar.“

Indriði H. Þorláksson var sérstaklega ósáttur við niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslunni.  „Þjóðernishroki, heimsfrelsun, minnimáttarkennd, kveinstafir og vesældarþráhyggja,“ var einkunnin sem Indriði gaf þeim sem ekki voru tilbúnir til að skrifa upp á Icesave-reikninginn sem ríkisstjórnin ætlaði að senda þjóðinni.

Í pistli á Smugunni, vefriti Vinstri grænna, fór Indriði hörðum orðum um andstæðinga Icesave-samkomulagsins:

„Í umræðunni fundu flestir mola við sitt hæfi sem nýttust þeim til að gera sjálfmynd sína að söluvöru á markaðstorgi lýðskrumsins. Þjóðernishroki, heimsfrelsun, minnimáttarkennd, kveinstafir og vesældarþráhyggja fundu sér samastað í henni. Unnt var að fræðast mikið um þátttakendur en lítið um málið.“

Með skrifum sínum endurómaði Indriði skoðanir yfirmanns síns, Steingríms J. Sigfússonar.

Viljayfirlýsing – rannsóknarnefndJóhannaogSteingrímur

Ekki leið nema mánuður frá því að 98% kjósenda höfnuðu Icesave-lögunum, þangað til ríkisstjórnin var búin að undirrita viljayfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum endurskoðun á efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og sjóðsins.

Í 20. lið yfirlýsingarinnar gekk ríkisstjórnin þvert á niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Yfirlýsingin verður ekki skilin öðruvísi en að ríkisstjórnin hafi viðurkennt með skýrari hætti en nokkru sinni, skyldu íslenska ríkisins að ábyrgjast Icesave-skuldir Landsbankans.

Sigurður Kári Kristjánsson lagði fram þingsályktun, ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, um að „skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem rannsaka skuli embættisfærslur og ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og samskipti þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu“. Tillagan var fyrst lögð fram í ágúst 2010 og síðan aftur í október sama ár þegar nýtt þing kom saman. Í greinargerð er vikið að viljayfirlýsingunni:

„Verður ekki betur séð en að í fyrri viljayfirlýsingum ríkisstjórnar Íslands hafi hún fallist á að um skuldbindingu sé að ræða í samræmi við tilskipun ESB um innlánstryggingakerfi. Hafa ber í huga í því sambandi að í þeirri tilskipun er ekki kveðið á um skyldur aðildarríkja til þess að gangast í ábyrgðir fyrir skuldir einkafyrirtækja. Af þeirri ástæðu gátu íslensk stjórnvöld haft uppi kröftugar varnir gagnvart kröfum Breta og Hollendinga.

Í viljayfirlýsingunni frá 7. apríl sl. virðist ríkisstjórn Íslands hins vegar viðurkenna greiðsluskuldbindingu íslenska ríkisins gagnvart kröfum Breta og Hollendinga vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf., auk vaxta.“

Í greinargerðinni var því haldið fram að með þessu hefði ríkisstjórnin „slegið vopnin úr eigin höndum og dregið mjög úr möguleikum íslenska ríkisins til þess að vefengja lögmæti krafna breskra og hollenskra stjórnvalda á hendur því íslenska“.

Þess ber að geta að umrædd yfirlýsing var gefin án samráðs við Alþingi.

Ný samninganefnd

Eftir að Ólafur Ragnar neitaði að staðfesta Icesave-lögin var skipuð ný samninganefnd í deilunni um Icesave. Nefndin var skipuð í febrúar 2010 samkvæmt samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu. Formaður var  bandaríski lögfræðingurinn Lee Buckheit.

Dyggir stjórnarþingmenn héldu áfram að berjast fyrir Icesavesamningum. Björn Valur Gíslason skrifaði á heimasíðu sína 7. september 2010 skrifaði þingmaðurinn:

„Ég fæ ekki með nokkru móti séð að íslenska þjóðin, íslenskur almenningur, heimili og fyrirtæki,  hafi gott af því að málinu sé haldið í því horfi sem það er í dag. Fyrir því eru engin haldbær rök. Þeirra ábyrgð er mikil sem hafa lagt sig alla fram um að koma í veg fyrir lausn málsins og haft erindi sem erfiði.

Nú er kominn tími til að loka þessu máli, kalla það aftur inn á þing og samþykkja þann samning sem í boði er áður en málið versnar enn frekar, öllum til tjóns.”

Kjósendur höfnuðu Icesave-lögunum (Icesave III) enn á ný í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011. Stjórnarmeirihlutinn hafði raunar komið í veg fyrir samþykkt tillögu um að vísa nýjum samningum í þjóðaratkvæði. Það var því Ólafur Ragnar Grímsson forseti sem með synjun sinni á staðfestingu nýrra laga, tryggði þjóðaratkvæðagreiðslu í annað sinn.

69.462 sögðu já í þjóðaratkvæðagreiðslunni um lögin eða 40,23% af gildum atkvæðum en 103.207 sögðu nei eða 59,77%. Alls greiddu 175.114 manns atkvæði og var kjörsókn því 75,34%. Þetta var betri kjörsókn en í sveitarstjórnarkosningum 2010 þegar 73,5% kusu og í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2010 þegar 62,7% kusu.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra átti fund með erlendum blaðamönnum daginn eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þar gaf hann út merkilega yfirlýsingu:

„Íslenska ríkið mun ekki eiga í neinum erfiðleikum með að greiða skuldir sínar. Gjaldeyrisforðinn nægir fullkomlega fyrir afborgunum á næstu árum.“

Allt átti að breytast til hins betraMár Guðmundsson

Hörðustu talsmenn þess að samþykkja ríkisábyrgð gagnvart Bretum og Hollendingum á Icesave-skuldum Landsbankans, héldu því mjög á lofti að með lausn deilunnar gjörbreytist allt til hins betra. Atvinna aukist, sem og hagvöxtur, aðgangur að erlendu lánsfjármagni verði tryggður og erlendar fjárfestingar taka við sér og beina augunum að Íslandi. Icesave var upphaf og endir alls. Már Guðmundsson seðlabankastjóri lagðist á sveif með þeim sem töldu rétt að veita ríkisábyrgð.  Á fundi með blaðamönnum  fimmtudaginn 24. september 2009 var Már spurður um ástæður þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði enn ekki afgreitt endurskoðaða efnahagsáætlun Íslands. Orðrétt sagði hann:

„Þetta hefur því miður strandað á Icesave-málinu. Það er bara rétt að segja það eins og það er, þannig að þeir sem um það véla ættu að hugsa sig um tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum, þegar þeir taka ákvörðun um framhald þess máls.“

Rök þeirra sem töldu rétt að veita ríkisábyrgð fyrir Icesave, breyttust lítið. Stefið var það sama hvort heldur um var að ræða fyrsta samnigninn eða þann sem síðast var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Áfram-hópurinn, sem barðist fyrir samþykkt Icesave III, fullyrti í auglýsingum:

„Samþykkt samningsins [Icesave] styrkir lánshæfismat Íslands, erlent lánsfé fæst til uppbyggingar, hagvöxtur eykst og atvinnuleysi minnkar.”

Fylgjendur Icesave-samninganna héltu því fram að erlendir fjármálamarkaðir væru lokaðir fyrir íslenskum fyrirtækjum og ástæðan væri deilan við Hollendinga og Breta. Staðreyndir sýndu annað.

Í nóvember á 2010 tryggði Marel sér 350 milljóna evru lán frá sex alþjóðlegum bönkum undir forystu ING sem er hollenskur banki.  Í  byrjun mars 2011 gekk Össur hf. frá lánasamningi við þrjá alþjóðlega banka um langtímafjármögnun að fjárhæð 231 milljón Bandaríkjadala eða um 27 milljarða króna. Og þrátt fyrir hrun íslenska fjármálakerfisins var tilkynnt um að erlendir aðilar hafi ákveðið að leggja hlutafé í MP banka.

Icesave kom ekki í veg fyrir að þessi fyrirtæki gætu fjármagnað sig á erlendum lánamörkuðum eða erlendir fjárfestar legðu til áhættufjármagn. Icesave truflaði ekki Ron Wayne Burkle, sem er einn auðugasti maður heims, að taka ákvörðun um að setjast í stjórn Eimskip. Burkle er stjórnarformaður bandaríska fjárfestingarsjóðsins Yucaipa Companies.

Erfiðleikar margra annarra íslenskra fyrirtækja við fjármögnun var af allt öðrum toga en Icesave. Alvarleg fjárhagsleg staða Orkuveitu Reykjavíkur olli fyrirtækinu erfiðleikum við endurfjármögnun en ekki óleyst Icesave-deila. Gjaldeyrishöft voru heldur ekki til þess fallin að auka áhuga erlendra banka og fjárfesta á Íslandi.

Þá var í fyrsta skipti farið að líta til pólitískrar áhættu þegar erlendir aðilar huga að viðskiptum við Ísland. Þannig upplýsti Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku, á fundi Samtaka atvinnulífsins í Reykjanesbæ 24. janúar 2011, að erlendir fjárfestar væru að hugsa um að kaupa sér tryggingu vegna pólitískrar óvissu á Íslandi. Slíkar tryggingar þekkjast aðeins gagnvart ríkjum þar sem stjórnarfar er ótryggt. Hin pólitíska óvissa kom ekki aðeins í veg fyrir erlenda fjárfestingu heldur ekki síður innlenda.

Sjávarútvegsfyrirtæki hafa einnig haldið að sér höndum vegna óvissu sem ríkisstjórnin skapaði um skipulag fiskveiða á komandi árum. Gríðarlegar skattahækkanir á einstaklinga og fyrirtæki, hafa dregið kjarkinn úr innlendum og erlendum fjárfestum á öðrum sviðum. Á árunum 2009 til 2011 voru gerðar yfir 100 breytingar á skattaumhverfinu. Skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur þannig aukið óvissuna og óöryggið.

Icesave-deilan hefur pólitískt-skjól fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur – afsökun fyrir því að ekki tókst að koma hjólum atvinnulífsins á fulla ferð.