Nú er hafinn spuni sem mun standa fram yfir komandi alþingiskosningar. Meistarar spunans hafa tekið að sér að telja almenningi trú um að eftir allt saman hafi ríkisstjórnin haldið á Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga af skynsemi. Síðasti samningur hefði „einungis kostað ríkissjóðs 2,8% af landsframleiðslu“. Stefið sem slegið er: Icesave var „sparðartíningur”

Spuninn hófst til þess að koma höggi á Ólaf Ragnar Grímsson í aðdraganda forsetakosninga. Fylgismenn ríkisstjórnarinnar hafa aldrei fyrirgefið forsetanum að neita að staðfesta Icesave-lögin. Í þeirra huga þarf nýjan forseta. Hér skal það látið liggja á milli hluta, en spuninn mun halda áfram og beinast gegn þeim sem stóðu harðir gegn því að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans.

Eins og góðum spunameisturum er lagið hafa þeir gleymt sögunni. Linnulaus hræðsluáróður var rekin fyrir því að samþykkja Svavars-samningana sumarið 2009. Hótanir og blekkingar stjórnvalda í tilraunum til að tryggja samþykkt Svavars-samninganna, má ekki rifja upp enda hentar það ekki.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra sagðist 26. júní 2009, ekki geta hugsað þá hugsun til enda ef Icesave-samningarnir yrðu ekki samþykktir. Í viðtalið við Stöð 2 felldi ráðherrann þennan dóm:

„Þá væri einfaldlega allt í uppnámi, öll samskipti okkar við erlend ríki, áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lánasamnirnarnir frá Norðurlöndum og raunar líka hversdagslegi hlutir eins og alþjóðleg bankaviðskipti.“ 

Viðskiptaráðherra bætti svið:

„Við værum bara eiginlega búin að einangra okkur frá umheiminum og komin aftur á einhverskonar Kúbu-stig. Við virðum svona Kúba norðursins.“

Svartsýnisspá Gylfa Magnússonar, sem hann endurtók á þingi nokkrum dögum síðar var í takt við skoðun Þórólfs Matthíassonar, prófessors í hagfræði. Fréttablaðið sagði í frétt 26. júní 2009:

„Samþykki Alþingi ekki ríkisábyrgð á Icesave-lánið gæti skapast stríðsástand í efnahagslífinu hérlendis, Ísland fengi hvergi fyrirgreiðslu, fyrirtæki færu unnvörpum í þrot og við yrðum sett á sama stall í samfélagi þjóðanna og Kúba og Norður-Kórea. Þetta segir Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor sem segist mjög hissa á óábyrgri afstöðu sumra stjórnmálamanna til málsins.“

Fréttablaðið hafði síðan orðrétt eftir prófessornum um hvað gerðist ef Icesave-samningarnir næðu ekki fram að ganga:

„Þetta er alveg hrikalega ljót sviðsmynd sem þá kemur upp.“

Þegar Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sögðu skilið við þingflokk Vinstri grænna, upplýstu þau að ríkisstjórnin hefði ætlast til að þingmenn stjórnarflokkanna veittu umboð sinn til undirskriftar óséðs samnings. Og þrátt fyrir að hafa ekki tryggt sér meirihluta á þingi var skrifað undir Svavars-samninginn.

Í samtali við Morgunblaðið nú í vor sagði Atli Gíslason að Svavars-samningurinn frá í júní 2009 hafi verið „skilgetið afkvæmi“ umsóknar um aðild að Evrópusambandið. „Samningurinn var skilyrði þess að umsóknin yrði móttekin en ekki endursend ríkisstjórninni,“ sagði Atli og bætti við:

„Það kom flatt upp á marga að samningurinn skyldi liggja fyrir strax í júní 2009. Steingrímur J. Sigfússon sagði í apríl sama ár að það lægi ekkert á að semja. En skýringin lá í augum uppi. Samningurinn var lykill Steingríms J. að stjórnarsamstarfi og ráðherradómi og hluti af aðildarumsókninni sem aftur skýrði leyndina. Á síðari stigum málsins kom ESB með virkum hætti inn í dómsmálið fyrir EFTA-dómstólnum.“

Og spunameisturum ríkisstjórnarinnar hentar ekki rifja söguna. Kannski vegna þess að þeim, líkt og Indriða H. Þorlákssyni, finnst allt málið snúast um „sparðartíning“. Indriði H. var aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og einn samninganefndarmanna með Svavari Gestssyni. Hann sagði sagði í viðtali við Morgunblaðið 25. júlí 2009:

„Ég get ekki neitað því að ég er undrandi á því hvernig umræð­an bæði í þinginu og í fjölmiðlum hefur að mestu farið frá aðalatriðum og leiðst út í lítilsverðan sparðatíning, upphróp­anir og órökstuddar fullyrðingar.“

Þeir sem nú hafa tekið að sér að verja hendur ríkisstjórnarinnar hafa valkvætt minni. Nú eru það síðustu samningarnir sem átti að samþykkja, enda ekki nokkur leið að verja það sem áður var gert. En eins og bent er á í fréttabréfi Júpiters rekstrarfélags, að þó síðustu samningar hafi verið hagstæðari en þeir sem áður voru gerðir, sé ekki þar með sagt að þeir séu hagstæðir:

„Uppreiknað miðað við 1.júlí 2012 væri beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna Icesave-samninganna nú orðinn tæplega 60 milljarðar króna. Þar er gert ráð fyrir útgreiðslum til kröfuhafa Landsbankans og þar með lækkun krafna forgangskröfuhafa bankans. Samkvæmt Icesave-samningunum bar íslenska ríkinu að greiða Bretum og Hollendingum þessa vexti í erlendum gjaldmiðlum. Því er í raun rangt að bera þann kostnað saman við kostnað vegna Vaðlaheiðarganga, tónlistarhússins Hörpu, afskrifta krafna Seðlabanka Íslands á fallnar fjármálastofnanir eða rekstur Landspítalans. Talsverðu máli skiptir hvort kostnaður íslenska ríkisins fellur til í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, sérstaklega í ljósi þess að gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans er skuldsettur upp í rjáfur.“

Síðar segir:

„Það er því vægast sagt villandi að bera reiknaðan kostnað við Icesave saman við innlendan kostnað af einhverju tagi eða bera Icesave-kostnaðinn saman við verga landsframleiðslu. Ríkissjóð sárvantar gjaldeyri til að standa skil á erlendum skuldum þjóðarbúsins – tilvist gjaldeyrishaftanna er ræk sönnun þeirrar staðreyndar. Að bæta að minnsta kosti 60 milljörðum króna í erlendri mynt ofan á allt saman hefði til skamms tíma sett ennþá meiri þrýsting á gengi íslensku krónunnar og til lengri tíma þyngt skuldabyrði ríkissjóðs í erlendri mynt þónokkuð. Fáir halda því fram að á þá skuldabyrði sé bætandi með sjálfbærum hætti. Ef síðustu Icesave-samningar hefðu orðið að lögum, hefði þurft að nýta sem nemur um 27 milljörðum króna af gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands strax á fyrsta ársfjórðungi 2011 og síðan um nokkra milljarða á hverjum ársfjórðungi eftir það, allt til ársloka 2011 þegar fyrstu greiðslur hófust úr þrotabúi gamla Landsbankans.“

En spuninn mun halda áfram.