Grétar Eyþórsson stjórnmálafræðingur hélt því fram í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins (25.11.) að dræm þátttaka í prófkjörum sé til marks um minnkandi áhuga almennings á stjórnmálum og fjórflokknum. Undir þetta viðhorf hafa fleiri tekið. Sé litið til þess fjölda sem greiddi atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík síðasta laugardag, er þessi fullyrðing röng.

Alls greiddu 7.546 atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins nú á laugardag og er þáttakan ágæt þegar litið er til prófkjara flokksins í Reykjavík frá 1986. Þrisvar sinnum hafa fleiri lagt leið sína á kjörstað og þrisvar sinnum hafa færri tekið þátt í prófkjöri vegna alþingiskosninga. Frá 1986 hafa verið haldin sjö prófkjör á vegum sjálfstæðismanna í Reykjavík vegna alþingiskosninga. Mest var þátttakan árið 2006 en minnst árið 1986.

Þá hefur þátttaka í prófkjörum vegna borgarstjórnarkosninga oft verið minni en í prófkjörinu nú. Þannig greiddu 6.348 atkvæði í prófkjöri árið 1997 og 5.917 árið 1981.

Fullyrðingar um dræma þátttöku eru því reistar á sandi og staðhæfingar um minnkandi áhuga almennings á stjórnmálum og þá Sjálfstæðisflokknum sérstaklega, eru ekki byggðar á staðreyndum.