Ekki skal um það deilt að nauðsynlegt er að reisa nýtt sameiginlegt hátækni- og háskólasjúkrahús fyrir alla landsmenn. En að ráðast í tuga og jafnvel hundraða milljarða fjárfestingu án róttækra breytinga á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar er líkt og að reisa íburðarmikið hús í flæðarmálinu og verja síðan gríðarlegum fjármunum og tíma á hverju ári í að verja húsið fyrir ágangi sjávar. Sú barátta er oftar en ekki vonlítil.

Engu er líkara en íslenskt heilbrigðiskerfi sé rekið frá degi til dags, án skýrrar sýnar til framtíðar, þ.e.a.s. annarrar en þeirrar að reisa glæsilegt risavaxið hús í hjarta borgarinnar. Hver heilbrigðisráðherrann á fætur öðrum hefur heillast af verkefninu og unnið að framgangi þess. Nú er svo komið að ein helstu rökin fyrir að ráðast í byggingu háskólasjúkrahúss eru þau að heilbrigðisráðherrar úr öllum stærstu stjórnmálaflokkunum hafi komið að málinu.

Á sama tíma og ráðherrar liggja yfir teikningum að nýjum og reisulegum spítala berast fréttir af því að tækjakostur Landspítalans sé úr sér genginn – tækjum sé haldið gangandi með snjallræði og útsjónarsemi starfsmanna. Svipaða sögu er að segja af tækjakosti annarra sjúkrahúsa. (Á sama tíma og ákveðið er að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga fyrir 10 þúsund milljónir, vantar Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri tíunda hluta þeirrar fjárhæðar til að endurnýja gamlan tækjakost). Biðlistar lengjast og sjúklingar fá ekki úrlausn sinna mála. Eldra fólk nýtur ekki þeirrar þjónustu sem það þarf á að halda og á réttláta kröfu til. Þúsundir landsmanna eru án heimilislæknis og þannig er fyrsta, mikilvægasta og ódýrasta vörnin í baráttunni fyrir heilbrigði þjóðar veikari en ella.

Hlutur heimilanna meiri

Frá árinu 1980 hafa heilbrigðisútgjöld 2,7-faldast á föstu verðlagi. Á liðnu ári vörðu Íslendingar nær 94 þúsund milljónum króna meira í heilbrigðismál en árið 1980 samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar og er þá miðað við verðlag 2011.

Ekki er óeðlilegt að útgjöld til heilbrigðismála hækki frá ári til árs, annars vegar vegna fjölgunar landsmanna (nær 93 þúsund fleiri á þessu ári en 1980) og hins vegar vegna breyttrar aldurssamsetningar. En fjölgun landsmanna skýrir ekki nema hluta hækkunarinnar því útgjöld á mann hafa nær tvöfaldast á síðustu þremur áratugum. Á síðasta ári námu útgjöld á mann um 462 þúsundum króna en árið 1980 voru þau liðlega 235 þúsund. Með öðrum orðum: Við verjum á hverju ári yfir 900 þúsund krónum meira til heilbrigðismála á hverja fjögurra manna fjölskyldu en fyrir 31 ári.

Á síðasta ári var rúmlega 147 þúsund milljónum króna varið til heilbrigðismála og þar af var beinn hlutur heimilanna nær 29 þúsund milljónir eða 19,6%. Árið 1980 stóðu heimilin undir 12,8% heildarútgjaldanna. Heimilin greiddu 23 þúsund krónum meira fyrir heilsuna 2011 en árið 1980 á föstu verðlagi. Þetta er fimmföldun.

Af þessum tölum er augljóst að það skiptir landsmenn gríðarlega miklu hvernig staðið er að skipulagi heilbrigðiskerfisins. Fjárhagslegir hagsmunir eru miklir og síðan það sem ekki verður metið til fjár; heilsan og lífsgæðin. Krafan er því sú að sem mest fáist fyrir þá fjármuni sem varið er til reksturs heilbrigðiskerfisins, – að peningunum sé varið af ráðdeild.

Verðum að fjárfesta

Að óbreyttu á kostnaðurinn við heilbrigðiskerfið eftir að aukast verulega á komandi árum, ekki síst vegna þess að Íslendingar eru að eldast og verða þar með þurftafrekari á þessu sviði. Kostnaður við sjúkdóma er tengjast lífsstíl nútímans mun margfaldast. En um leið fækkar þeim hlutfallslega sem standa undir stærsta hluta kostnaðarins. Það verður því æ mikilvægara að nýta takmarkaða fjármuni betur og sinna forvörnum.

Allar rannsóknir sýna að öflug heilsugæsla dregur úr heildarkostnaði við kerfið. Eftir því sem fleiri hafa aðgang að heimilislækni og eiga möguleika á að leita til starfsfólks í framvarðarsveit heilsugæslunnar, því minni verður eftirspurnin eftir dýrum meðferðum og innlögnum á sjúkrahús.

Hið sama á við um forvarnir, þar sem einkaaðilar hafa unnið þrekvirki og rutt braut margra einstaklinga til betra lífs. Baráttan við lífsstílstengda sjúkdóma er eitt mikilvægasta verkefnið heilbrigðismálum þjóðarinnar. Takist ekki vel til í þeirri baráttu mun kostnaður við heilbrigðiskerfið fara úr böndunum.

Öll skynsamleg rök hníga að því að næsta stóra fjárfesting í íslensku heilbrigðiskerfi verði í heilsugæslu og baráttunni gegn sjúkdómum er tengjast lífsstíl, samhliða því að endurnýja nauðsynlegan tækjakost sjúkrahúsa.

Þetta kallast að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í.

Kostir einkarekstrar

Við endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins verður nauðsynlegt að nýta kosti einkarekstrar. Við Íslendingar höfum góða reynslu af einkareknum fyrirtækjum í heilsuþjónustu í samstarfi við opinbera aðila. Fjöldi velmenntaðra sérfræðilækna starfar sjálfstætt, einkafyrirtæki sinna forvörnum og endurhæfingu og einkaaðilar reka einhverja hagkvæmustu heilsugæslu landsins, þar sem ánægja viðskiptavinanna er meiri en annars staðar.

Það er því fráleitt þegar stjórnmálamenn gera allt sem í þeirra valdi stendur til að kasta rýrð á einkarekin fyrirtæki og nýta hvert tækifæri sem gefst til að koma í veg fyrir uppbyggingu þeirra. Vinstri grænir hafa fordæmt einkarekstur og lagt „áherslu á að heilbrigðisstofnanir landsins eigi að vera reknar af hinu opinbera“. Engu skiptir hvort einkarekin fyrirtæki hafi sýnt og sannað að þau hafi mörg hver náð betri árangri en hið opinbera, – kostnaðurinn er lægri, þjónustan betri og viðskiptavinirnir ánægðari.

Í hugum sannfærðra sósíalista má ekki gera greinarmun á því hver borgar fyrir þjónustuna og hver veitir hana. Allt skal vera á einni hendi, jafnvel þótt það leiði til hærri kostnaðar og verri þjónustu. Þetta er sósíalismi andskotans í sinni tærustu mynd.

Við munum aldrei ná árangri ef hugmyndir og hugsjónir af þessu tagi fá að ráða ferðinni. Brunnurinn mun standa opinn.

Rétt forgangsröðun

Sá tími kann að koma að hyggilegt sé að ráðast í byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss. En fyrst verður að forgangsraða og forðast að reisa glæsilegt hús á sandi í nafni allra heilbrigðisráðherra sem að málinu hafa komið. Þegar við bætast efasemdir um að kostnaðaráætlun standist er enn meiri ástæða til að staldra við. Íslendingar hafa ekki góða reynslu af opinberum byggingaframkvæmdum. Þannig hefur Katrín Ólafsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, fært rök fyrir því að kostnaður við nýjan spítala geti orðið allt að 135 milljarðar króna. Sé þetta mat rétt þarf hver fjögurra manna fjölskylda að „láta af hendi“ tæpar 1,7 milljónir króna vegna byggingarinnar.

Þegar búið er að tryggja öllum Íslendingum aðgang að heimilislækni, þegar búið er styrkja framvarðarsveit starfsmanna heilsugæslustöðva, ná árangri í baráttunni við lífsstílstengda sjúkdóma og endurnýja lífsnauðsynleg tæki, er hægt að draga aftur fram teikningar að nýju háskólasjúkrahúsi. Þá er hægt að rífast um staðsetningu og stærð í stað þess að byrja á röngum enda.