Vinstri ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar á undir högg að sækja. Stjórnarliðar gera sér engar vonir um að ríkisstjórnin haldi velli í komandi kosningum. Þeir biðla því til annarra „félagshyggjuflokka“ um að veita þeim liðsinni svo hægt sé að sitja áfram að heitum kjötkötlunum.

Staðan er viðkvæm og ekkert má út af bera. Þrátt fyrir fögur loforð hefur störfum ekki fjölgað og í stað þess að horfast í augu við staðreyndir dregur forsætisráðherra tölur Hagstofunnar í efa. Fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár byggist á veikum grunni með gamalkunnugum kosningaloforðum. Fáir treysta forsendum frumvarpsins og jafnvel stjórnarliðar efast.

Í pólitískri angist er nauðsynlegt að beina athyglinni að öðru en því sem máli skiptir. Slíkt brella hefur oft gefist vinstri ríkisstjórninni vel. Í moldviðri er hægt að fela það sem miður fer.

Grafið undan trúverðugleika

Með skipulegum hætti hefur formaður fjárlaganefndar reynt að grafa undan trúverðugleika Ríkisendurskoðunar. Þar ber hann fyrir sig að stofnunin hafi dregið úr hófi að skila skýrslu um kaup á fjárhagsupplýsingakerfi fyrir ríkið.

Um það verður ekki deilt að vinnubrögð Ríkisendurskoðunar við skýrslugerðina eru ámælisverð. Undir það hefur ríkisendurskoðandi tekið. Það getur aldrei talist ásættanlegt að eftirlitsstofnun taki átta ár að ganga frá skýrslu sem Alþingi hefur óskað eftir. En í þrjú ár hefur formaður fjárlaganefndar vitað að drög að skýrslunni væru tilbúin en gerði ekkert til að fylgja málinu eftir fyrr en nú þegar stutt er til kosninga og ganga þarf frá fjáraukalögum ársins og fjárlögum komandi árs.

Að frumkvæði formanns hefur meirihluti fjárlaganefndar ákveðið að óska ekki eftir umsögn Ríkisendurskoðunar á fjáraukalögum. Því er borið við að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli Alþingis og stofnunarinnar vegna þess dráttar sem orðið hefur á umræddri skýrslu. Þó hefur Ríkisendurskoðun lagt fyrir Alþingi á hverju einasta ári heildarskýrslu um störf sín. Ekki verður séð að þingmenn hafi gert athugasemdir.

Skýring formanns fjárlaganefndar stenst enga skoðun. Vandséð er hvernig meirihluti fjárlaganefndar getur komist að þeirri niðurstöðu fyrir hönd Alþingis að trúnaðarbrestur sé fyrir hendi. Ástæður meirihlutans eru aðrar og dýpri. Það er verið að beina athyglinni frá fjáraukalögum og fjárlögum. Um leið er hafinn undirbúningur að því að draga broddinn úr þeim aðfinnslum sem Ríkisendurskoðun kann að setja fram við stjórnun ríkisfjármála fram að kosningum.

Alvarlegar athugasemdir og gagnrýni

Aðhald að framkvæmdavaldinu er helsta hlutverk Ríkisendurskoðunar, sem starfar í skjóli Alþingis og undir stjórn þess samkvæmt lögum. Hún á að „endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins,“ segir í 1. grein laga um Ríkisendurskoðun. Stofnunin getur framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun en einnig skal hún „annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga og vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins“.

Ríkisendurskoðun er því ein mikilvægasta stofnun landsins og forsenda þess að Alþingi og almenningur geti veitt framkvæmdavaldinu nauðsynlegt aðhald. Engu skiptir hvaða ríkisstjórn situr að völdum.

Nokkur dæmi

Í samræmi við lagalegar skyldur sínar hefur Ríkisendurskoðun ítrekað sett fram alvarlegar athugasemdir og gagnrýni á fjármálastjórn ríkisins í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Hvorugu er vel við gagnrýni, eins og þekkt er.

Samkvæmt ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra tók ríkissjóður þátt í björgun Sjóvár með 11,6 milljarða króna framlagi. Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við þetta og benti á að ekki væri ljóst hvaða lagaheimildir fjármálaráðherra hefði til þessa.

Ríkissjóður tók á sig skuldbindingar vegna yfirtöku Arion banka hf. á innstæðum í SPRON hf. og yfirtöku Íslandsbanka hf. á innstæðum í Straumi-Burðarási hf. Ríkisendurskoðun taldi það ámælisvert að ekkert væri getið um þessar skuldbindingar í ríkisreikningi árið 2009 líkt og reikningsskilareglur gera ráð fyrir.

Ríkisendurskoðun gagnrýndi hvernig staðið var að lækkun launa samkvæmt tilmælum sem ríkisstjórnin gaf út í ágúst 2009. Gagnrýnin beindist fyrst og fremst að fjármálaráðuneytinu.

Ríkisendurskoðun hefur ítrekað gert athugasemdir og gagnrýnt að fjármálaráðuneyti fái svokallaðar „opnar heimildir“ á fjárlögum vegna stofnfjárframlaga og útgjalda. Þannig var ekkert tillit tekið til útgjalda ríkissjóðs vegna SpKef þó vitað hafi verið að kostnaðurinn yrði a.m.k. 11,2 milljarðar króna. Þegar upp er staðið er ljóst að skattgreiðendur þurfa að standa undir allt að 25 milljörðum vegna sparisjóðsins, að teknu tilliti til vaxta.

Þannig má lengi telja. Ríkisendurskoðun hefur bent á að stórra skuldbindinga ríkissjóðs sé í engu getið í ríkisreikningi – séu utan efnahags. Þannig gefur ríkisreikningur skakka mynd af stöðu ríkissjóðs. Þess er að vænta að Ríkisendurskoðun geri til dæmis alvarlegar athugasemdir við hvernig „fela“ á skuldbindingar ríkissjóðs vegna Vaðlaheiðaganga.

100 skýrslur

Alþingi hefur fengið um 100 skýrslur frá Ríkisendurskoðun frá árinu 2008. Með þeim hefur stofnunin veitt framkvæmdavaldinu aðhald sem annars væri ekki fyrir hendi og fengið alþingismönnum í hendur tæki og tól til að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Það er fullkomlega eðlilegt að þingmenn geri alvarlegar athugasemdir við að Ríkisendurskoðun gangi ekki hratt til verks og skili ekki umbeðnum skýrslum innan ákveðins tíma. En mikið væri það gleðilegt ef þingmenn eyddu jafnmiklum tíma til að ræða þær skýrslur sem þegar liggja fyrir og þeir hafa gert um skýrslu sem ekki er tilbúin. Í þessu sambandi má benda á úttekt Ríkisendurskoðunar á ríkisábyrgðum og öðrum fjárhagsskuldbindingum sem ekki koma fram í fjárlögum eða fjáraukalögum. Skýrslan var unnin að beiðni Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og hefur legið fyrir frá því í janúar. Þar er um hundruð milljarða að ræða og gríðarlega hagsmuni, ekki síst fyrir komandi kynslóðir.

En það hentar ekki meirihluta fjárlaganefndar að beina athyglinni að ríkisábyrgðum eða öðrum fjárhagslegum skuldbindingum sem ríkið hefur tekið á sig, beint og óbeint. Ekki frekar en að axla ábyrgð á að halli ríkissjóðs á síðasta ári var 52 milljörðum króna meiri en samþykkt fjárlög sem nefndin vann að. Að ekki sé talað um afgreiðslu meirihluta fjárlaganefndar á fjáraukalögum þar sem horft var framhjá augljósum útgjöldum. Niðurstaðan var sú að hallinn var 42 milljörðum meiri en fjáraukalög leyfðu. Einhver hefði talað um trúnaðarbrest við fjármálastjórn ríkisins af minna tilefni.

„… erfitt að blekkja aðra …“

Ríkisendurskoðandi er starfsmaður Alþingis samkvæmt lögum og ber ábyrgð gagnvart því. Í annarri grein laga um stofnunina segir að forsætisnefnd Alþingis geti, „að fengnu samþykki Alþingis, vikið ríkisendurskoðanda úr starfi“.

Ef meirihluti fjárlaganefndar er á því að trúnaðarbrestur hafi orðið milli ríkisendurskoðanda og Alþingis, ber meirihlutanum að leggja til við forsætisnefnd að viðkomandi verði vikið úr starfi. Í framhaldinu verður forsætisnefnd að óska eftir samþykkis Alþingis. Komi slík tillaga ekki fram er ekki hægt að draga aðra ályktun en að um pólitískan leikaraskap hafi verið að ræða.

Franski rithöfundurinn Francois de la Rochefoucauld sagði einhverju sinni:

„Það er jafnauðvelt að blekkja sjálfan sig án þess að taka eftir því og það er erfitt að blekkja aðra svo þeir komist ekki að því.“

Forráðamenn vinstri ríkisstjórnarinnar og meirihluti fjárlaganefndar ættu að hafa þessi orð franska rithöfundarins í huga.