Stjórnmálamaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir – II. hluti

Það sem sama hvað um Jóhönnu má segja, þá er ljóst að hún er baráttukona í stjórnmálum. Sem forsætisráðherra hefur hún skilgreint Sjálfstæðisflokkinn – hið illa íhald – sem helsta óvininn. Nú er það gleymt þegar hún tók höndum saman við íhaldið um að styðja við bakið á útrásarfyrirtækjum og stuðla að enn frekari lækkun skatta.

Á síðustu misserum hafa komið í ljós brestir í fylkingu jafnaðarmanna. Óánægja hefur farið vaxandi með Jóhönnu sem formann Samfylkingarinnar og sem forsætisráðherra. Í slíkri stöðu er mikilvægt fyrir forystumanninn að þétta raðirnar og fátt er betur til þess fallið en að finna sameiginlegan óvin.

Það er líklega þess vegna sem Jóhanna barðist gegn tillögu um að ákæra á hendur Geir H. Haarde yrði dregin til baka, þrátt fyrir að hún hafi greitt atkvæði gegn ákærunni í september 2010. Í huga Jóhönnu var tillagan pólitísk og til þess fallin að reyna að kjúfa samfylkinga. „Látum ekki íhaldið reka fleyg í okkar raðir,“ sagði Jóhanna á á flokksstjórnarfundi í janúar:

„Tilgangurinn er auðvitað sá að kalla fram kosningar sem fyrst og koma í veg fyrir að grundvallaratriðin í stefnu okkar jafnaðarmanna um breytt fiskveiðistjórnarkerfi, breytta stjórnarskrá og auðlindastefnu í þágu þjóðarinnar verði að veruleika og þeir geti þar ráðið ferðinni í þágu sinna sérhagsmuna.“

Jóhanna hélt því fram að unnið væri að því „leynt og ljóst víða í þjóðfélaginu að því að koma íhaldinu aftur til valda“:

„Baráttan um Ísland – hið nýja Ísland og framtíðina er nú í algleymingi. Valda- og varnabandalög sérhagsmuna munu ekki meðan ég fæ einhverju ráðið stoppa okkur. Þar ætlum við að sigra. Eina leið þessara afla til að koma í veg fyrir að við ljúkum ætlunarverki okkar, er að kljúfa okkar eigin ráðir og ala á úlfúð og sundrungu. Heitum því, góðir félagar, að það muni ekki takast.“

 Siðferðileg ábyrgð

Í deilum um hvort rétt væri að Alþingi afturkallaði ákæruna á hendur Geir H. Haarde, beindist athyglin nokkuð að setu Jóhönnu Sigurðardóttur í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og hugsanlegri ábyrgð hennar.  Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagist hafa stutt í september 2010 tillögu þingmannanefndarinnar að höfða mál fyrir landsdómi gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum. Í janúar 2012 hélt Jón því fram á bloggsíðu sinni að pólitíska ábyrgðin liggi mun víðar:

„- Og hvað með aðra þá ráðherra sem sátu í þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hrunstjórninni,  og sitja enn í ráðherraembættum? Hvar er þeirra ábyrgð? Hvers vegna sluppu þeir, hef ég spurt mig?

Jóhanna Sigurðardóttir, Geir H. Haarde, Árni Mathiesen og  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir  sátu öll sem ráðherrar saman í Ríkisfjármálanefnd „hrunstjórnarinnar“:

(„Ráðherranefnd um ríkisfjármál skipuleggur markviss vinnubrögð á sviði ríkisfjármála á vettvangi ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð gagnvart ráðuneytum og Alþingi þannig að markvisst verði unnið á sviði ríkisfjármála“.)“

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, gerði hugsanlega ábyrgð Jóhönnu í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að umræðuefni í fyrirspurnartíma á Alþingi í janúar stíðastliðnum. Þingmaðurinn benti á að ríkisfjármálanefndin hefði átt að fylgjast með öllum aðgerðum í ríkisfjármálum og samræma þær. Nefndin hafi haft „fulla yfirsýn yfir allt sem var að gerast á síðustu dögum og vikum fyrir bankahrun“. Ásmundur Einar vísaði til þess að umræða færi vaxandi í samfélaginu og innan ríkisstjórnarflokkanna, um ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann spurði Jóhönnu hvað henni finndist um „þessar vangaveltur“ og hvort hún hefði „hugleitt stöðu sína í tengslum við þessi mál“. Síðan spurði hann beint:

„Hefur hæstvirtur forsætisráðherra hugleitt sína persónulegu stöðu sem forsætisráðherra þjóðarinnar eftir hrun í ljósi þess að hún átti sæti í þessari ríkisfjármálanefnd í aðdraganda hrunsins?“

Jóhanna svaraði og sagði að sér þætti gæta „mikils misskilnings“ varðandi veru sína í ríkisfjármálanefnd og að þingmenn ættu að „kynna sér eðli og verkefni ríkisfjármálanefndar“:

„Ríkisfjármálanefnd fer fyrst og fremst yfir fjárlög komandi árs, leggur fyrir ramma fyrir ráðuneytin og fer yfir stöðuna á tekju- og gjaldahlið. Ríkissjóður stóð ágætlega á þessum tíma þegar hrunið varð. Efnahagsmálin eru ekki á borði ríkisfjármálanefndar nema að mjög litlu leyti og ekkert að því leyti sem viðkom hruninu.“

Jóhanna bað þingmanninn síðan að lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Að mati nefndarinnar og þingmannanefndar komið fram „sem gaf tilefni til þess að ég yrði ákærð með einum eða neinum hætti“.

Ásmundur Einar gekk enn frekar á forsætisráðherra og hélt því fram að ráðherra sem sæti átti í ríkisfjármálanefnd hefði verið í „innsta hring“ í aðdraganda hrunsins:

„Ég ítreka spurningu mína í ljósi þess hve mjög krafan um siðferði hefur vaxið í íslensku samfélagi: Hefur hæstvirtur forsætisráðherra virkilega ekki á nokkru stigi velt fyrir sér, ekki gagnvart sínum eigin flokki heldur gagnvart þjóðinni, hvort hún ber ábyrgð  siðferðilega? Hefur hún ekki hugleitt sína stöðu með nokkrum hætti á neinum tímapunkti?“

Jóhanna Sigurðardóttir svaraði og benti á að hún sem þingmaður hefði á árunum 2005 til 2007 varað við ýmsu sem væri að gerast í samfélaginu og efnahagslífinu. En þingmaðurinn hefði engin efni á að spyrja þeirra spurninga sem hann gerði:

„Ég hef alveg eins og aðrir hugleitt mína pólitísku ábyrgð og það eru ekki bara ráðherrar sem eiga að gera það heldur líka þingmenn. Ég geri kröfu til þess að háttvirtir þingmenn geri mun á ríkisfjármálanefnd og þeim nefndum sem fjölluðu almennt um efnahagsmálin á þessum tíma, fjármálastöðugleikanefndir. Þar á er verulegur munur og það ætti eiginlega að vera lágmark að þingmenn vissu hvernig ríkisfjármálanefndir störfuðu. Það eru örugglega til fundargerðir um það sem þingmenn ættu þá að fara yfir.“

Staðið með útrásarfyrirtækjum

Sem þingmaður í stjórnarandstöðu frá 1994 til 2007 var Jóhanna gagnrýnin á viðskiptalífið og líkt og við stofnun Þjóðvaka var hún óþreytandi að benda á aukna misskiptingu. Óhætt er að segja að með málflutningi sínum og tillögum á Alþingi, hafi Jóhanna náð að skipa sér á stall í huga þjóðarinnar, sem talsmaður lítilmagnans og óþreytandi baráttukona fyrir auknu jafnrétti, jafnt milli kynja og stétta.

Í pistli á heimasíðu sinni 2. janúar 2006 skrifaði Jóhanna:

„Umhverfi íslenskra fyrirtækja hefur gjörbreyst á undanförnum árum m.a. með mikilli skattalækkunum fyrirtækja og fjármagnseigenda, sem á sama tíma hefur leitt til aukinna skattbyrði fólks með lágar og meðaltekjur eins og margoft hefur fram komið. Fyrirtækin hafa nýtt þetta hagstæða skattaumhverfi í hamslausri græðgi til að bæta kjör stjórnenda.“

Jóhanna tók sæti í ríkisstjórn um 17 mánuðum eftir að hún skrifaði pistilinn og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sagði að á „kjörtímabilinu verður leitað leiða til að lækka frekar skatta á fyrirtæki“. Jóhanna taldi þannig rétt að gera skattaumhverfi fyrirtækja enn hægstæðara, þvert á gagnrýni sína um hamslausa græðgi. En það sem meira er: Jóhanna taldi það vera eitt af meginverkefnum ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins, að styðja vel við bakið á útrásarfyrirtækjum og þá ekki síst fjármálafyrirtækjum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sagði:

„Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi.“

Þannig er ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir var ekki aðeins fylgjandi útrás fyrirtækja heldur taldi hún rétt að hið opinbera styddi sérstaklega við bakið á fjármálafyrirtækjunum og myndi auðvelda þeim að leggja undir sig nýja markaði. En eftir að Jóhanna varð forsætisráðherra í vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, snéri hún sér aftur að þeim málflutningi sem hún hafði sem þingmaður í stjórnarandstöðu.

Í fyrstu þjóðarhátíðarræðu sinni sem forsætisráðherra, (17. júní 2009) sagði Jóhanna um útrásina:

„Íslenskir útrásarvíkingar höfðu farið víða um í miklum græðgis- og óhófsham og skilið eftir sig rústir, ekki einungis hér á landi heldur einnig í öðrum löndum. Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir okkar sýndu við þessar aðstæður of mikið andvaraleysi.“

Í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í maí 2011, gaf Jóhanna þau fyrirheit að „ofurlaunaliðið, fjárglæframennirnir og stóreignaelítan“ fái ekki að soga til sín hagvöxtinn á meðan Samfylkingin fái að ráða. Þjóðin hafi þurft að greiða fyrir síðasta gleðskap þessa fólks:

„Sú svallveisla var haldin undir lúðrablæstri frjálshyggjutrúboðs Sjálfstæðisflokksins. Lífskjarasóknin er framundan er verður hins vegar á forsendum jafnaðarstefnunnar.“

Jóhanna og Baugur

Jóhanna hefur verið samkvæm sjálfum sér í árásum á Sjálfstæðisflokkinn frá því að hún tók við völdum í forsætisráðuneytinu. Þó tók hún málstað „stóreignaelítunnar“ í febrúar 2007 þegar hún sem þingmaður í stjórnarandstöðu lagði fram fyrirspurn um kostnað Ríkislögreglustjóra vegna Baugsmálsins, svokallaða. Fyrirspurnin var í takt við málflutning Samfylkingarinnar; verið væri að misnota embætti Ríkislögreglustjóra gegn stórfyrirtæki sem væri valdinu ekki þóknanlegt.

Jóhanna hefur aldrei viðurkennt að Samfylkingin hafi með nokkrum hætti tengst auðmönnum eða einstaka viðskiptablokkum. Það hefur Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, gert með sínum hætti. Í viðtali við Fréttablaðið 19. júní 2010 sagði hann meðal annars:

„Ég tel líka að Samfylkingin hafi frá því snemma á þessum áratug ranglega tekið sér stöðu með ákveðinni blokk í viðskiptalífinu, sem var í átökum við aðrar rammpólitískar viðskiptablokkir.“

Mörður Árnason samherji Jóhönnu gekk jafnvel enn lengra í ræðu á fundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík í september 2010. Þar hélt Mörður því fram að milli Samfylkingarinnar og sumra af helstu nýju samsteypunum hefði myndast strategískt bandalag – samvinna „við að losa um höft og hömlur í viðskiptum, rjúfa kóngulóarvefinn úr Valhöll og Morgunblaðsskrifstofunum, og við það sérstaklega að mæta ofsafengnum árásum frá Davíð og félögum á fjölmiðlun í landinu vegna þess að óæskilegir menn réðu þar of miklu“. Mörður er þannig sannfærður um að Samfylkingin hafi lagt lóð á vogarskálarnar við að afnema höft og hömlur í viðskiptum, sem verður að teljast í anda „frjálshyggjutrúboðs“. Í huga Marðar voru þessi tengsl Samfylkingarinnar og „nýju blokkana“ eðlileg. Jafnaðarmannaflokki sé skylt að halda góðu sambandi við forystumenn í atvinnu- og efnahagslífi. Tengslin hafi hins vegar deyft „sýn flokksforystunnar og flokksmanna á þróunina í viðskiptalífinu“ og slakað hafi verið á “árvekni gagnvart útrás, ævintýramennsku og græðgisvæðingu“.

Síðar í ræðunni benti Mörður á að einstaka stjórnmálamenn innan Samfylkingarinnar hefðu þegið milljónastyrki frá fyrirtækjum til að fjármagna dýr prófkjör enda hafi „flokkurinn ætlaðist nánast til þess með því að halda galopin auglýsingaprófkjör sem áttu að vekja athygli og draga að fólk“. Mörður beindi síðan gagnrýni sinni sérstaklega að tveimur fyrrverandi formönnum Samfylkingarinnar, Össuri Skarphéðinssyni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem tókust á um formennsku í Samfylkingunni árið 2005:

„Og þetta á því miður líka við annarskonar innanflokkskappleiki – einkum formannsslaginn 2005 þar sem frambjóðendurnir tveir vörðu tugmilljónum til að ná forystu í flokknum. Hvaðan?

Þessi kurl þurfa öll að koma til grafar þegar við skoðum Samfylkinguna og hrunið.“

Greinilegt er að Mörður Árnason er á því að Samfylkingin og einstakir forystumenn hennar hafi tekið þátt í „svallveislunni“ sem Jóhanna segir að hafi verið haldin undir lúðrablæstri frjálshyggjunnar. Erfitt er hins vegar að átta sig á því hvort Jóhanna trúi því í einlægni að Samfylkingin hafi hreinan skjöld eða hvort hún tali í samræmi við pólitíska hentistefnu. Að minnsta kosti hefur hún ekki beitt sér fyrir að innan flokksins fari fram uppgjör með svipuðum hætti og hún hefur krafið aðra flokka um að gera, og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn. Jóhanna hefur einnig gleymt því þegar hún tó þátt í tilraunum til að gera rannsókn á Baugi tortryggilega. Þar tók Jóhanna sér stöðu með “auðvaldinu”.

Innantóm loforð?

Sem forsætisráðherra hefur Jóhanna verið óspar á góð fyrirheit og loforð. Oft hefur hins vegar lítið samræmi verið á milli loforða. Í umræðum um efnahagsmál í byrjun september á líðnu ári gaf Jóhanna Sigurðardóttir fyrirheit sem forsætisráðherra um sjö þúsund ný störf um allt land auk fjöldra afleiddra starfa. Þetta er stærra loforð en oftast áður. Í mars fyrir tæpu ári, taldi Jóhanna að bjart væri yfir en í umræðum á Alþingi utan dagskrár um atvinnumál sagði forsætisráðherra að 2.200-2.300 ársverk yrðu sköpuð fljótlega. Í október 2010 ári var Jóhanna Sigurðardóttir enn bjartsýnni og talaði um 3-5 þúsund ný störf á nýju ári [2011] og hagvöxtur skyldi verða 3-5%.

Í ávarpi á Viðskiptaþingi í mars 2009 sagði Jóhanna:

„Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til margvíslegra aðgerða til þess að styrkja vinnumarkaðinn og atvinnulífið í landinu. Nýjar tillögur í atvinnumálum ættu að skapa um 6.000 ársverk, þar af munu verða til um 2.000 störf í orkufrekum iðnaði, svo fátt eitt sé nefnt.“

Jóhanna Sigurðardóttir var á svipuðum nótum í ræðu á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í apríl 2009:

„Ég vil vinna með ykkur að framgangi áætlunar stjórnvalda  6.000 störf sem allar forsendur eru fyrir. Stærstur hluti þessara starfa mun verða til á almennum vinnumarkaði.“

Á bak við loforð um þúsundir starfa hefur öll ríkisstjórnin staðið eins og kom t.d. fram í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar í mars 2009 þar sem sagði meðal annars:

„Ríkisstjórnin fjallaði á ríkisstjórnarfundi sínum í morgun um tillögur Stýrihóps ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í atvinnumálum til þess að sporna gegn atvinnuleysi. Samþykkt var að vinna að framgangi ellefu tillagna sem gætu skapað ríflega 4000 ársverka á næstu misserum.“

 Loforð um ný störf
  • September 2011                  7.000
  • Mars 2011            2.200-2.300
  • Október 2010       3.000-5.000
  • Mars 2009            6.000
  • Mars 2009            4.000

Því hefur verið haldið fram að tölur séu ekki sterkasta hlið Jóhönnu Sigurðardóttur sem stjórnmálamanns. Síendurtekin en misstór loforð um ný störf eru tekin sem dæmi um þennan veikleika sem einnig virðist hafa komið í ljós þegar forsætisráðherra gerði lítið úr brottflutningi Íslendinga til annarra landa. Í viðtali við Ríkisútvarpið 13. desember síðastliðinn sagði Jóhanna:

„Fólksflutningar núna eru ekkert meiri en í venjulegu árferði. Þeir voru töluverðir árið 2009 og 2010 en það hefur stöðvast miðað við þann mikla brottflutning sem var áður. Þannig að við erum bara á svipuðu róli og var þá.“

Brugðist var hart við þessum orðum forsætisráðherra. Nokkrum dögum síðar birti Ágúst Einarsson, prófessor í hagfræði og gamall samverkamaður Jóhönnu, samantekt um sögulegar staðreyndir um brottflutning Íslendinga. Þar kom fram að á fjögurra ára tímabili (2008-2011) hafi „2% af íbúum landsins með íslenskt ríkisfang flutt af landi brott umfram aðflutta eða samtals um 6.300 manns og eru áætlaðar tölur fyrir síðustu 3 mánuði ársins 2011“. Ágúst sýndi fram á að þetta væri langmesti fjöldi Íslendinga sem hefur flutt af landi brott á fjórum árum í sögu landsins „og fara þarf 100 ár til baka til að finna hærra hlutfall brottfluttra umfram aðflutta af íbúum landsins“:

„Gera má ráð fyrir að um helmingur af þessu fólki sé á vinnumarkaði og atvinnuleysi sem er nú um 7% væri líklega um 9% ef þessi brottflutningur hefði ekki orðið. Hugsanlega er fjöldinn meiri því ekki hafa allir brottfluttir skráð sig.“

Skiptir máli hver brýtur?

Þegar farið er yfir feril Jóhönnu Sigurðardóttur sem stjórnmálamanns er ljóst að henni reynist á stundum erfitt að vera sjálfum sér samkvæm. Dæmi um þetta er afstaða hennar til meintra brota ráðherra á lögum. Í utandagskrárumræðu á Alþingi í apríl 2004 gagnrýndi Jóhanna Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra harðlega fyrir að hafa ekki virt jafnréttislög við skipan dómara við Hæstarétt:

„Hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem brýtur svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka. En hér á landi er allt leyfilegt hjá ráðherrum og þeir komast upp með allt. Ef ráðherrar eru ósáttir við lög eiga lögin bara að víkja en ekki þeir að þeirra mati.”

Allt annað átti við fimm árum síðar þegar héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Jóhanna Sigurðardóttir hefði sem félagsmálaráðherra gerst brotleg við 21. grein stjórnsýslulaga þegar hún vék einstaklingi úr stjórnarnefnd fatlaðra og skipaði annan. Í viðtali við Helga Seljan í Kastljósi 16. febrúar 2009 (en þá var Jóhanna orðin forsætisráðherra) sagðist hún ekkert þurfa að læra af dómi héraðsdóms. Ekki hafi „óeðlilega“ verið að því staðið að víkja viðkomandi úr stjórnarnefndinni en sér þætti „fullkomlega óeðlilega hafa verið staðið” að málsókninni. Með öðrum orðum: Í huga Jóhönnu er það óeðlilegt að einstaklingur leiti réttar síns ef hún sem ráðherra brýtur stjórnsýslulög.

Í mars 2011 komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að forsætisráðherra hefði brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga þegar skipað var í embætti skrifstofustjóra hjá forsætisráðuneytinu. Úrskurðarorð nefndarinnar voru skýr:

„Forsætisráðherra braut gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu.“

Í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu vegna þessa sagði:

„Forsætisráðuneytið telur að faglega hafi verið staðið að undirbúningi og skipun skrifstofustjóra á nýrri skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu.“

Í umræðum á Alþingi hélt Jóhanna því fram að málið hefði verið unnið af „bestu samvisku og af heilindum“. Við ráðningu á skrifstofustjóranum hafi verið byggt á á „faglegu verklagi sem er alþjóðlega viðurkennt og því fylgt frá upphafi til enda“. Hún hafnaði því að hægt væri að líkja málinu við gagnrýni sína á Björn Bjarnason vegna ráðningar á hæstaréttardómara.

Sem forsætisráðherra hefur Jóhanna lagt mikið upp úr því að faglega sé nú staðið að ráðningum hjá hinu opinbera. Nokkrum mánuðum áður en úrskurðarnefnd jafnréttismála kvað upp sinn dóm, skrifaði Jóhanna grein um faglega og trúverðuga umgjörð um ráðningar. Greining birtist 7. janúar 2011 í Fréttablaðinu en þar sagði Jóhanna meðal annars:

„Frá því að ég tók við sem forsætisráðherra hef ég lagt mikla áherslu á umbætur í stjórnsýslu og eru ráðningar starfsmanna þar stór þáttur. Staðreyndirnar tala sínu máli. Frá því að ríkisstjórnir mínar tóku við hefur verið skipað í fjölmargar stöður innan stjórnkerfisins og af þeim ráðningum má ljóst vera að margt hefur færst til betri vegar. Skipað hefur verið í fjórar stöður ráðuneytisstjóra þ.e. í mennta- og menningarmálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti, velferðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Stöðurnar voru allar auglýstar og í öllum tilvikum sá hæfnismatsnefnd um að meta hæfi umsækjenda og taka við þá viðtöl áður en ráðherra tók ákvörðun. Engin þessara skipana hefur verið talin pólitísk, samkvæmt skilgreiningunni hér að ofan.“

Grein Jóhönnu var svar við því sem Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, hafði haldið fram í fréttum Ríkisútvarpsins á gamlársdag. Salvör sagðist ekki sjá að pólitískum ráðningum í stjórnsýslunni hefði fækkað eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis kom út. Salvör er einn höfunda siðfræðikaflans í rannsóknarskýrslunni.

Í skriflegu svari Jóhönnu við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, kom fram að frá nóvember 2009 til sama jafnlengdar 2010 hafi yfir þrjátíu starfsmenn hefðu verið ráðnir í ráðuneytin án auglýsinga. Í skriflegu svari forsætisráðherra í nóvember 2009 kom fram að 42 starfsmenn hefðu verið ráðnir án auglýsingar það sem af var því ári. Jóhanna tók við forsætisráðherraembættinu 1. febrúar það ár.