Stjórnmálamaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir – I. hluti

Árið 1978 vann Alþýðuflokkurinn mikinn kosningasigur. Ferskleiki í málflutningi frambjóðenda heillaði marga kjósendur ekki síst þá yngri. Vilmundur Gylfason, Sighvatur Björgvinsson, Finnur Torfi Stefánsson, Gunnlaugur Stefánsson voru fulltrúar nýrra tíma í íslenskum stjórnmálum. Jóhanna var fyrst kjörin á þing í þessum mikla  kosningasigri Alþýðuflokksins. Nú 34 árum síðar hefur Jóhanna ákveðið að setjast í helgan stein að loknu þessu kjörtímabili.

„Minn tími mun koma,“ kallaði Jóhanna Sigurðardóttir úr ræðustól á 47. flokksþingi Alþýðuflokksins 11. júní 1994. Þá hafði hún lotið í lægra haldi fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni í formannskjöri. Jóhanna fékk 39% atkvæða en Jón Baldvin rúm 60%. Tíu dögum síðar sagði Jóhanna af sér sem félagsmálaráðherra en sagðist ætla að starfa áfram í þingflokki Alþýðuflokksins og styðja ríkisstjórnina til allra góðra verka en meta hvert mál fyrir sig. Þá mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur ríkisstjórn – svokallaða Viðeyjarstjórn undir forsæti Davíð Oddssonar.

Nær ári áður hafði Jóhanna sagt af sér sem varaformaður Alþýðuflokksins, eftir langvarandi átök við Jón Baldvin. Þá sagði Jóhanna að samstarfið við Jón Baldvin hefði reynt á þolrifin:

„Ég hef þurft að þola það sem varaformaður að hann hefur misboðið mér mjög oft. Hann hefur tekið stórar ákvarðanir sem skipta miklu, án samráðs við mig. Mér hefur verið kynnt þetta eftir á og hef oft á tíðum þurft að hlusta á þetta í fjölmiðlum.“

Kornið sem fyllti mælinn það sem Jóhanna kallaði  í viðtali við Ríkissjónvarpið, „leikfléttu“ Jóns Baldvins í kringum breytingar á ríkisstjórn. Leikflétta sem Jóhanna sagði að gerð hefði verið á meðan hún var erlendis. Þá komu Guðmundur Árni Stefánsson og Össur Skarphéðinsson inn í ríkisstjórn en Eiður Guðnason og Jón Sigurðsson létu af embættum. Össur varð umhverfisráðherra en Guðmundur Árni tók við ráðuneyti heilbrigðismála. Ári síðar tókust Guðmundur Árni og Össur á um varaformennsku í Alþýðuflokknum á sama flokksþingi og Jóhanna laut í lægra haldi fyrir Jóni Baldvin. Guðmundur Árni hafði betur en stuðningsmenn Jóhönnu stóðu með honum.

Átti aðeins einn vin – Davíð

Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, rifjaði upp afsögn Jóhönnu í blaðagrein í Morgunblaðinu í desember 2011:

„Í fornum deilum Jóhönnu félagsmálaráðherra og Jóns Baldvins Hannibalssonar 1991 til 1994 átti Jóhanna aðeins einn vin í ríkisstjórninni sem var forsætisráðherrann Davíð Oddsson sem þerraði tár hennar og leysti úr ágreiningi flokkssystkinanna.“

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur haldið því fram að Davíð Oddsson hafi gegnt hlutverki sáttasemjara innan Alþýðuflokksins á tímum Viðeyjarstjórnarinnar,  í deilum milli Jóhönnu annars vegar og Jóns Baldvins Hannibalssonar og Jóns Sigurðssonar hins vegar. En hvort sem Davíð þerraði tárin eða ekki er ljóst að Jóhanna var erfið í samstarfi. Í september 1993 gekk hún út af ríkisstjórnarfundi þegar verið var að afgreiða fjárlagafrumvarpið og lýsti því yfir að hún væri óbundin við afgreiðslu þeirra. Ástæðan var sú að hún fékk ekki framgengt hugmyndum sínum um húsaleigubætur.

Í desember 2010 var sérstakur palladómur um Jóhönnu í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins og óhætt er að halda því fram að Davíð Oddsson hafi haldið þar um pennann:

„Í öllum þeim ríkisstjórnum sem Jóhanna Sigurðardóttir sat undir forystu annarra varð vandræðagangur tengdur henni við afgreiðslu sérhverra fjárlaga. Hún hafði aldrei neinn minnsta áhuga á málum annarra ráðherra eða ríkisstjórnarinnar sem heildar. Hún einblíndi undantekningarlaust á eigin mál og þá nánast aðeins á hvað kæmi í hlut „hennar ráðuneytis“ við deilingu sameiginlegra framlaga. Ef sérfræðingar myndu skoða feril hennar á þingi á meðan hún sat sem almennur ráðherra í ríkisstjórn myndu þeir sjá að hún tók aldrei undir eitt hornið með öðrum ráðherrum, hvorki í eigin flokki né annarra stjórnarflokka. Það skipti engu máli hversu þungum árásum einstakir samráðherrar hennar sátu undir eða ríkisstjórnin í heild, ef hennar mál voru ekki til umræðu lyfti hún ekki litla fingri til stuðnings félögum sínum … Hótanir um brotthlaup frá ríkisstjórnarborði og úrsögn úr flokki lágu jafnan í loftinu á meðan á þessari ömurlegu og árvissu kúgun á ríkisfé stóð.“

Jón Baldvin sagði í útvarpsviðtali um Jóhönnu að það „heyrði til haustverkanna að sitja yfir Jóhönnu og fá hana til að vera með“.

Getur fiskað betur

Þegar Jóhanna ákvað að bjóða sig fram gegn Jóni Baldvin var það ekki málefnalegur ágreiningur sem réði þar ferðinni, þó það væri „skoðana- og áherslumunur“ milli þeirra hvað varðar efnahags-, velferðar- og ríkisfjármál. Í viðtali við Morgunblaðið 2. júní 1994 sagði Jóhanna að Alþýðuflokkurinn „ætti að eiga mikið meiri hljómgrunn meðal fólks, miðað við þá stefnu sem hann stendur fyrir“ og hún vilji „skerpa áherslur flokksins og ímynd sem jafnaðarmannaflokks“:

 „Þetta er ekkert persónulegt í garð Jóns Baldvins eða að ég beri nokkurn kala til hans. Ég met það bara svo að það styrki flokkinn að fá mig í brúna. Það er alveg ljós að flokkurinn stendur ekki vel í skoðanakönnunum og hann hefur átt mjög á brattann að sækja í sveitarstjórnarkosningum. Ég tel að flokkurinn sé ekki sú fjöldahreyfing sem hann ætti að geta orðið.“

Með öðrum orðum: Jóhanna taldi sig geta fiskað betur en Jón Baldvin og því rétt að skipta um „kallinn í brúnni“. Jón Baldvin notaði þessi sömu rök þegar hann fór fram gegn Kjartani Jóhannssyni, sitjandi formanni Alþýðuflokksins árið 1984.

Jóhanna gekk út úr Viðeyjarstjórninni eftir að hafa verið félagsmálaráðherra samfleytt í sjö ár eða allt frá árinu 1987. Hún var félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar 1987-1988, í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991 og síðan í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar frá 1991 til 1994. Fáir stjórnmálamenn hafa setið jafnlengi samfleytt í sama ráðuneyti og Jóhanna gerði á þessum árum. Jóhanna varð aftur félagsmálaráðherra árið 2007 í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins – ríkisstjórn Geir H. Haarde. Hún gegndi því embætti til febrúar 2009 þegar hún settist í stól forsætisráðherra.

Harður dómur

Í nóvember 1994 stofnaði Jóhanna nýjan stjórnmálaflokk – Þjóðvaka. Var töluvert fjölmenni á stofnfundinum. Á stofnfundinum boðaði Jóhanna að Þjóðvaka væri ætlað að breyta íslenskum stjórnmálum. Þjóðvaki myndi vinna með fólkinu í landinu að jöfnun lífskjara og meira réttlæti:

„Fólk gerir kröfur um að allir fái lifað lífinu með mannlegri reisn og af sjálfsvirðingu. Ísland á að vera fyrir alla en ekki bara suma. Þjóðin er í vaxandi mæli að skiptast í tvennt, ríka og fátæka. Stéttaskipting er orðin staðreynd, auður safnast æ meira á fárra manna hendur á sama tíma og fjöldi láglaunaheimila í landinu á varla til hnífs eða skeiðar.“

Þessi dómur Jóhönnu yfir stöðunni í þjóðfélaginu er merkilegur  ekki síst í ljósi þess að hún hafði í sjö ár borið ábyrgð á félagsmálaráðuneytinu. En það hvarflaði lítt að henni að hún bæri einhverja ábyrgð á því hvernig mál höfðu þróast.

Þegar Jóhanna flutti ræðuna á stofnfundinum hafði hún setið á Alþingi í 16 ár eða frá árinu 1978 þegar Alþýðuflokkurinn vann stórsigur og fékk 14 þingmenn kjörna, eins og áður segir. Dómurinn yfir stjórnmálum, eftir 16 ár á þingi þar af sjö sem ráðherra, var harður. Jóhanna sagði stjórnmál snúast um hina köldu gróða- og markaðshyggju, sem hafi nánast ýtt hinum siðferðilegu mælikvörðum út af borðinu:

„En það er ekki umhverfi siðvædds samfélags sem við höfum búið fólkinu sem byggist á jafnrétti og eðlilegri og réttlátri skiptingu þjóðarkökunnar.“

Fyrir þingkosningar 1995, þar sem Þjóðvaki fékk kjörna fjóra þingmenn, skrifaði Jóhanna meðal annars grein í Morgunblaðið sem birtist 11. mars. Þar sagði hún að megintilgangurinn með stofnun Þjóðvaka hafi verið fjórþættur:

  • Sameina jafnaðar- og félagshyggjufólk í eina öfluga fjöldahreyfingu.
  • Endurreisa trúnað milli stjórnmálamanna og fólksins.
  • Vinna að nýrri sókn í atvinnu- og menntamálum og til átaks í mannréttinda- og jafnréttismálum.
  • Breyta skiptingu þjóðarauðsins með því að ná fram jafnrétti í eigna og tekjuskiptingunni og að sporna gegn söfnun auðs og valds á fárra manna hendur.

Jóhanna sagði að Þjóðvaki yrði trúr stefnumálum sínu, „uppstokkun flokkakerfisins og samfylkingu félagshyggjuaflanna og mun þess vegna ekki taka þátt í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum“. Hún sagði stefnu Sjálfstæðisflokksins ganga í veigamiklum atriðum þvert á stefnu Þjóðvaka. Þetta stef er kunnuglegt.

Hér skal það látið liggja á milli hluta að ákveðin mótsögn var fólgin í því hjá Jóhönnu að kljúfa sig út úr Alþýðuflokknum með stofnun Þjóðvaka og halda því fram að markmiðið væri að sameina jafnaðar- og félagshyggjufólk. Þá var það hraustlega sagt að stjórnmálamaður sem hafði þá verið sjö ár ráðherra og setið á þingi í 16 ár væri til þess fallinn að „endurreisa trúnað milli stjórnmálamanna og fólksins“. En þessar yfirlýsingar og málatilbúnaður Jóhönnu er einkennandi fyrir hana sem stjórnmálamann. Þegar hentar skiptir fortíðin ekki mestu og það sem miður hefur farið er á ábyrgð annarra.

Þegar saga Jóhönnu sem stjórnmálamanns er skoðuð á ekki að koma á óvart að hún vilji lítið sem ekkert kannast við setu sína í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar frá 2007 til 2009.

Sem forsætisráðherra hefur Jóhanna ekki dregið af sér við að koma ábyrgð á hruni fjármálakerfisins í október 2008 yfir á Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega en einnig á Framsóknarflokkinn. Hugmyndafræði frjálshyggjunnar hafi náð yfirtökunum og ráðið mestu um hvernig fór.