Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegna- og nýsköpunarráðherra lýsti því yfir að laun og þóknanir til slitastjórnar Glitnis séu úr takt við íslenskan raunveruleika. Jóhanna Sigurðardóttur forsætisráðherra ofbýður og hneykslast. En ekkert gerist. Reynt er að telja almenningi trú um að stjórnvöld hafi engin völd til bregðast við.

Mbl.is greinir frá því að Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, hafi spurt forsætisráðherra um málið og hvort slitastjórnir og skilanefndir væru ríki í ríkinu og Alþingi hefði ekkert um það að segja hvernig þeir sem innan þeirra starfa skammti sér laun. Samkvæmt upplýsingum Jóhönnu hefur málið verið rætt oftar en eini sinni í ríkisstjórn, úrræðin séu hins vegar takmörkuð:

„Ég tel mikilvægt að Seðlabankinn, sem er eina leiðin sem við sáum, að hann sem kröfuhafi nýti sér rétt til að gera athugasemdir við þessi yfirgengilegu ofurlaun. Hvort það breyti einhverju er önnur saga.“

Jóhanna reyndi að hugga þingmanninn með því að benda á að það sé kröfuhafanna að greiða launin en ekki skattborgaranna:

„Og stjórnvöld hafa ekki vald á þessu máli, því miður.“

Hér fer Jóhanna eins og köttur í kringum heitan graut enda málið óþægilegt, svo ekki sé meira sagt, fyrir hina norrænu velferðarstjórn sem segist stefna að auknum jöfnuði og hækkar síðan mánaðarlaun forstjóra um nær tvöföld byrjunarlaun hjúkrunafræðinga. Fyrir Jóhönnu er málið sérstaklega vandræðalegt. Á árum áður fór hún mikinn og gagnrýndi sem óbreyttur þingmaður stjórnvöld og sjálftökuliðið svokallaða. Svo virðist sem „sjálftökuliðið” hafi aldrei haft það betra en á vakt Jóhönnu Sigurðardóttur sem talar nú eins og hún beri enga ábyrgð – aðra en þá að hneykslast.

Það er fráleitt að halda því fram að stjórnvöld hafi ekkert vald í málefnum skilanefnda. Fjármálaeftirlitið [FME] er hluti af stjórnvaldinu og í lögum nr 78/2011 segir:

„Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með rekstri fjármálafyrirtækis sem er stýrt af slitastjórn, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi eða takmarkað starfsleyfi eða hvort starfsleyfi þess hefur verið afturkallað. Dótturfélag fjármálafyrirtækis í slitameðferð sem heldur utan um eignir þess skal jafnframt heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitið nær meðal annars til viðskiptahátta þess sem felur meðal annars í sér að framganga þess gagnvart viðskiptavinum skal vera í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.

Viðskipti og ráðstöfun eigna fjármálafyrirtækis sem stýrt er af slitastjórn eða viðskipti slitastjórnar við einstaka aðila sem sitja í slitastjórn, eða aðila í nánum tengslum við slíkan aðila, skulu fara að reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur. Fjármálaeftirlitið skal, að eigin frumkvæði eða á grundvelli ábendinga kröfuhafa, hafa eftirlit með slíkum viðskiptum.

Neitun á kröfu Fjármálaeftirlitsins um afhendingu gagna getur varðað brottrekstri úr slitastjórn. Hið sama á við fullnægi maður sem sæti á í slitastjórn ekki almennum hæfisskilyrðum sem um hann gilda. Fjármálaeftirlitið skal bera slíka kröfu undir héraðsdóm sem skal taka málið til úrskurðar þegar í stað.

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beina kröfu til héraðsdóms um að víkja skuli slitastjórn frá í heild eða að hluta í þeim tilvikum þegar viðkomandi slitastjórn telst ekki hafa unnið störf sín í samræmi við 1. og 2. mgr. þessarar greinar eða eftir atvikum samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Héraðsdómur skal taka málið til úrskurðar þegar í stað.

Ákvæði greinar þessarar eiga við um rekstur fjármálafyrirtækis sem er stýrt af bráðabirgðastjórn eða skilanefnd eftir því sem við á.”

Það er augljóst að FME hefur alla möguleika til að beita sér og koma skikki á starfsemi slitastjórn sé til þess vilji og ástæða þykir. Slíkt væri hægt að gera á nokkrum dögum fyrir atbeina dómstóla.

Í stað þess að láta ofbjóða sér og hneykslast stöðugt ætti Jóhanna Sigurðardóttir að velta því fyrir sér hvort hún gerði ekki rétt í því að ræða við formann hins stjórnarflokksins – Steingrím J. Sigfússon – en svo heppilega vill til að hann er atvinnuvegaráðherra og FME er ein af undirstofnunum ráðuneytisins. Steingrímur og Jóhanna gætu t.d. velt því sameiginlega fyrir sér hvort stjórn FME hafi brugðist eftirlitshlutverki sínu og þá hvort ástæða sé til að berðast við. Það er jú ráðherrann sem skipar stjórnina en einn stjórnarmanna er tilefndur af Seðlabankanum. Atvinnuvegaráðherrann gæti sent stjórn FME og vakið athygli hennar á því að ýmislegt kunni að vera að í störfum slitanefnda. Hann gæti beint þeim tilmælum til undirstofnunar sinnar að málið væri athugað og gripið verði til viðeigandi ráðstafana. Varla er slíkúr takt við íslenskan raunveruleika.

En auðvitað er borin von til þess að nokkuð gerist, þar er reynslan ólygnust. Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður bendir á eftirfarandi á bloggsíðu sinni:

„Jóhanna Sigurðardóttir og Kúbu-Gylfi Magnússon fordæmdu tímataxta skilanefnda í ársbyrjun 2009. Þóttust þau ætla að koma böndum á ofurlaun þeirra. Árangur Gylfa og Jóhönnu í þessu var ekki betri en í öðru sem þau hafa tekið sér fyrir hendur. Laun í skilanefndum og slitastjórnum lækkuðu ekki undir handleiðslu Gylfa og Jóhönnu. Þvert á móti hefur komið fram í fréttum að þau hafi fljótt hækkað um 120%.”

Nú hefur Steingrímur J. Sigfússon tekið sæti Gylfa Magnússonar, líkt og Jón Magnússon skrifar:

„Nú eru það Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sem eru verndarar sjálftökuliðsins. Undan þeirri ábyrgð getur Steingrímur J. ekki vikist þó hann fari ítrekað með fleipur um málið í fjölmiðlum af alkunnum orðhengilshætti. Annað hvort veit Steingrímur J ekki betur, en það sýnir þá vanhæfni hans, eða þá að hann stendur meðvitað með sjálftökuliðinu.”