Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur viðurkennt að „sumir séu jafnari en aðrir” þegar kemur að framkvæmd laga um gjaldeyrishöft – að engin trygging sé fyrir því að jafnræðisreglunni sé fylgt. Seðlabankastjóri hefur harðneitað því að Deutsche Bank fái sérmeðferð eða undanþágur sem öðrum standa ekki til boða við að losa fjármagn sem bundið er hér á landi vegna gjaldeyrishafta. Hinn þýski banki eigi þvert á móti von á því að sæta verri meðferð en aðrir.

Bloomberg fréttastofan hefur eftirfarandi eftir Má Guðmundssyni, þegar hann var þar spurður út í frétt Morgunblaðsins um að stórir aðilar á borð við Deutsche Bank hefðu fengið að kaupa gjaldeyri fyrir um 18 milljarða í skiptum fyrir íslenskar krónur og flytja fjármagnið úr landi:

„Nei, nei, við myndum aldrei gera slíkt. Þvert á móti. Það er  líklegra að þeir myndu fá verri meðferð.”

Þessi ummæli mun seðlabankastjóri hafa látið falla á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Þannig er ljóst að jafnræðisreglunni er ekki fylgt í Seðlabankanum heldur er afstaða tekin til mála á grunni þess hver eigi hlut að máli. Þannig á Deutsche Bank von á því að fá „verri meðferð” en einhver annar aðili sem nýtur velþóknunar starfsmanna Seðlabanka Íslands. Innan veggja Seðlabankans eru því stunduð skipuleg lögbrot – jafnræðisreglan er virt að vettugi.

Eitt er að hafa gjaldeyrishöft, sem sífellt er verið að herða á kostnað almennings og fyrirtækja, og annað að brjóta eina grunnreglu réttarríkisins um að allir skuli jafnir fyrir lögum. Már Guðmundsson er orðinn að valdamiklum kommisar sem útdeilir gæðum til útvalinna – til hinna þóknanlegu. Þannig er íslenska haftaþjóðfélagið uppspretta sérgæða hinna fáu á kostnað fjöldans. Ummæli seðlabankastjóra lýsa vel á hvaða vegferð Íslendingar eru.

Í höftum grasserar spillingin, líkt og Magnús B. Jóhannesson, viðskiptafræðingur segir í pistli á bloggsíðu sinni:

„Annars er þetta mál enn ein vísbending þess að undir valdboði miðstýringar í stað frjáls markaðar þá grasserar spilling.  Mikil völd fylgja því að ákveða hverjir fá og hverjir fá ekki, og ekki alltaf skýrt á hvaða forsendum slíkar ákvarðanir eru byggðar.”